Eitt það skemmtilegasta við sumarið er að geta loksins dregið grillið út í góða veðrið, mundað grilltangirnar og eldað ljúffenga máltíð á logandi heitu grillinu.
Í næstu viku mun Matarvefur mbl.is hefja sýningu á grillþáttunum Logandi ljúffengt í samstarfi við Hagkaup, Bako Verslunartækni, MS, Nóa og Síríus og Sölufélag garðyrkjumanna. Í þáttunum munu frábærir gestir leika listir sínar á grillinu, afhjúpa sínar uppáhalds-grilluppskriftir og gefa góð ráð þegar grill er annars vegar.
Sjöfn Þórðardóttir, umsjónarmaður Matarvefs mbl.is, stýrir Logandi ljúffengt en hún er mikill grillari, sérstaklega á sumrin. „Mig langar alltaf að grilla þegar sólin skín og það er hægt að grilla svo miklu meira en fólk heldur. Fjölbreytnin er óþrjótandi, til að mynda má bjóða upp á grillaða forrétti, létta smárétti, grænmeti, og meira að segja má grilla osta og bera fram á einfaldan og skemmtilegan hátt. Það er annað bragð og áferð þegar þessi hráefni eru grilluð og það er líka hægt að leika sér með framsetninguna. Svo finnst mér gaman að grilla ávexti og bera þá fram með ís, heitum sósum og öðru góðgæti sem gleður bæði auga og munn. Það þarf ekki alltaf að vera steik.“
Eva Laufey Kjaran, markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaup, segir að grillsumarið leggist afar vel í sig og aðra hjá Hagkaup. „Við finnum fyrir mikilli stemningu og eftirvæntingu meðal viðskiptavina sem eru að undirbúa sig fyrir sumarið. Logandi ljúffengt grillþættirnir eru frábær vettvangur til að deila hugmyndum, innblæstri og góðum grillupplifunum. Þetta fellur mjög vel að okkar stefnu að bjóða upp á allt á einum stað og skapa upplifun sem viðskiptavinir muna eftir.
Vöruúrvalið er bæði fjölbreytt og spennandi hjá Hagkaup og við leggjum mikið upp úr ferskleika og gæðum enda spannar úrval okkar allt frá hágæða kjöti, fiskmeti og tilbúnum grillréttum yfir í alls kyns sósur, meðlæti og ferskt grænmeti. Við fylgjumst vel með straumum og stefnum og reynum alltaf að vera skrefi á undan.“
„Svo gleymist oft hvað góðir fylgihlutir skipta miklu máli en við höfum allt frá grilltöngum og hitamælum yfir í kol, kveikjara, krydd og ýmislegt fleira. Það er hægt að koma í Hagkaup og ganga út tilbúin í sumargrillið, með allt á einum stað. Við viljum að fólk upplifi Hagkaup sem fyrsta val þegar kemur að því að undirbúa góðar og bragðmiklar stundir með sínum nánustu og það gerum við með fjölbreyttu vöruúrvali og gæðum.“
Sjöfn talar um að hún sé þegar byrjuð grilla enda er fátt gleðilegra í hennar huga en að bjóða í grillpartý og prófa eitthvað nýtt. „Við fjölskyldan reynum að nýta alla góðviðrisdaga til þess að eiga saman gæðastundir í garðinum þar sem við grillum, bökum saman pítsur og gerum vel við okkur í mat og drykk. Það er líka svo gaman að fá góða gesti í heimsókn í garðinn til að gefa okkur nýjar hugmyndir að grillréttum, fá góð ráð þegar grillað er og jafnvel flétta ofan af einhverjum leyndardómum þegar grill er annars vegar,“ segir Sjöfn og bætir við að áhorfendur eigi von á góðu við áhorf á Logandi ljúffengt.
„Fyrst og fremst langar mig til að deila með áhorfendum góðum hugmyndum að réttum sem allir geta gert, auðga matarflóruna sem hægt er að galdra fram á grillinu og gefa þeim góð grillráð. Og vitanlega að skemmta þeim um leið.
Gestir okkar munu allir bjóða upp á logandi ljúffengar kræsingar, hver með sínu nefi, sem við öll eigum að geta leikið eftir. Við vitum að matur er mannsins megin og þegar við eigum von á gestum er ávallt gaman að gleðja þá með gegnum matarhjartað.“