Síðustu helgi var hinn heimsþekkti bar, Salmon Guru í Madríd, með pop up Tipsý bar & lounge við Hafnarstræti. Salmon Guru er í 23. sæti á lista The World's 50 Best Bars og er þekktur fyrir meistaralega en gáskafulla nálgun á kokteilagerð.
Það ætlaði allt um koll að keyra þegar barþjónarnir byrjuðu að hrista fram kokteilana og þeir höfðu ekki undan að taka við pöntunum hjá gestum.
Í tilefni heimsóknarinnar hönnuðu Diego Cabrera, stofnandi staðarins á Madríd, og spænski listamaðurinn Piñero sérstakt glas við hliðina fyrir viðburðinn, undir áhrifum þjóðarblóms Íslendinga, Holtasóleyjar, sem sló rækilega í gegn.
„Við erum í skýjunum með glasið sem var sérhannað fyrir viðburðinn og verður áfram hjá okkur og líka þakklát fyrir frábærar móttökur á pop -up-inu. Á fyrsta kvöldinu seldust kokteilarnir upp og stemningin var ólýsanleg og röðin inn á staðinn náði langt út á götu. Það má með sanni segja að þátttakan hafi verið langt umfram væntingar,“ segir Sævar Helgi Örnólfsson, einn af eigendum Tipsý.