Maríanna Pálsdóttir, jógakennari og snyrtifræðingur, er kona sem lætur draumana sína rætast með hjartað sitt að vopni. Hún nýtur þess að gefa af sér og er þekkt fyrir að vera höfðingi heim að sækja. Þegar hún á von á gestum tekur hún sig ávallt til og setur saman einn girnilegasta og fallegasta sælkerasumarbakka sem ég hef augum litið.
Þvílíkt augnakonfekt að njóta þess að horfa á hennar sælkerabakka, samsetningin og útfærslan er góður vitnisburður um listræna hæfileika hennar og ástríðu fyrir því sem hún er að gera.
Hún á og rekur UMI studió á Seltjarnarnesi, sem er heilsusetur þar sem vellíðan og fegurð mætast í kyrrð og hlýju. Maríanna er mikill fagurkeri og nýtur sín í því að búa til falleg rými og fallegan mat. En hún breytti Snyrtistofu Reykjavíkur í þetta einstaka studio þar sem fegurð og jógaiðkun, skemmtilegir viðburðir, tónheilun, ýmis námskeið og skemmtilegir hreyfitímar fá að flæða saman í eitt.
„Ég er þakklát fyrir það að flestir fara úr studióinu mínu endurnærðir á líkama og sál í miklu þakklæti. Það gleður hjarta mitt óendanlega að starf mitt felist í því að stærstum hluta að lyfta fólki upp, hvetja það áfram og leiðbeina því í átt að betra lífi. Mér líður eins og það sé minn lottóvinningur í lífinu, að fá tækifæri til að hjálpa öðrum með þessum hætti,“ segir Maríanna einlæg og brosir.
Aðspurð segir Maríanna að UMI sé verkefni sem hafi verið búið til frá hjarta hennar og innblásturinn hafi hún fengið úr náttúrunni. UMI þýðir hafið á japönsku en hafið er allt um kring við stúdíóið og er það nafn með rentu. „Esjan blikkar til mín alla daga þegar ég horfi út um gluggana í stúdíóinu. Útsýnið er stórbrotið og er ég orðlaus alla daga hvað ég var heppin að vera leidd inn á þennan dásamlega stað á Austurströndinni. Næg bílastæði, gjaldfrjálst allt um kring og dásamlegir nágrannar í húsinu gera þetta allt svo yndislegt.”
Þegar kemur að mataræði þá aðhyllist Maríanna hugmyndina um jafnvægi. „Ég borða til að næra mig, njóta stundarinnar, finna bragð og gleðjast. Ég elska að borða góðan mat, heilnæman og litríkan. Ég borða kjöt og vel alltaf naut.“
Maríanna var lengi vel bóndi á Brúnastöðum og ein besta vinkona hennar er bóndi á Hjálmstöðum í Bláskógabyggð en hún kemur mjög reglulega í heimsókn og fyllir á frystinn dýrindis kjöti beint af býli og þykir Maríönnu það langbesta kjötið.
„Ég mæli með því við fólk að forðast sykur, unnin matvæli og gosdrykki ef það vill gera vel fyrir líkama sinn og húð. Að velja lífrænt og hreint hráefni er ávallt best ef hægt er.“
Aðspurð segir hún að sykur og slæm kolvetni geti líka haft áhrif á húðina, sérstaklega ef húðin er viðkvæm. „Þess í stað hvet ég fólk til þess að borða góða fitu, prótein og grænmeti, alls ekki sleppa kolvetnum bara velja þau mjög vel. Svefn, ró og kærleikur er síðan besta serumið sem til er,“ segir hún enn fremur og hlær dátt.
Sem snyrtifræðingur veit hún að húðin speglar ástand líkamans og sálar. „Við sjáum það skýrt þegar lífið er í ójafnvægi, þá birtist það í húðinni. Það kemur fram þurrkur, bólgur og roði. En þegar við nærum okkur og hvílumst vel – þá ljómar hún.”
Þegar talið berst að drykkjum nefnir hún vatn sem algera grunnstoð en einnig grænt te, kombucha og engiferdrykki. „Það er líklega mín besta ákvörðun í lífinu að velja áfengislausan lífsstíl, það gefur mér betra taugakerfi og mikið fallegri húð, en ég hef dálæti af því að drekka fallega áfengislausa kokteila, vel skreytta og fallega á litinn. Það skiptir máli hvernig við nálgumst mat og drykk, með gleði og mýkt.”
Maríanna á sína eigin töfraformúlu fyrir ljómandi húð sem hún deilir hér með lesendum.
„Þetta er formúla sem slær alltaf í gegn. Hún er mjög einföld, næring, ró, ást og þakklæti, er það sem gefur okkur ljómandi húð. Borðaðu í ró og næði, njóttu þín í náttúrunni, hlæðu með góðri vinkonu, horfðu á börnin þín blómstra á sínum forsendum og njóttu með þeim sem þú elskar. Þegar þín innri veröld fær að blómstra þá skín það í gegn og ljóminn þinn flæðir um og yfir allt,“ segir Maríanna einlæg.
Sjálf nærir hún sig með jógaiðkun, söng, dansi og góðri næringu. „Ég elska samt mest af öllu að fara í bústaðinn okkar á Þingvöllum. En ég og tilvonandi eiginmaður minn, Guðmundur Ingi Hjartarson, sem ég er að fara að giftast í lok ágúst, höfum gert okkur þar fallegt heimili að heiman og þar finnum við friðinn og róna við vatnið. Við hvílumst hvergi betur, veiðum í vatninu á bátnum okkar og njótum íslensku náttúrunnar sem er að mínu mati hvergi fegurri en þar.“
Að lokum vill Maríanna minna á að það er alltaf hægt að gera eitthvað uppbyggilegt fyrir sig: „Ekki bíða, núna er besti tíminn.“
Maríanna gerði þennan sælkerasumarbakka sem er hlaðinn alls konar girnilegum kræsingum sem fanga bæði auga og munn. Lesendur geta séð hér að neðan hvað hún notar á sinn bakka og dúllað sér svo við að búa til svipað fyrir veislurnar sínar í sumar. Njótið og munið að hérna er jafnvægið að gera vel við sig og elska að borða í sátt án samviskubits.
Sumarsælkerabakki Maríönnu
Aðferð: