Fátt er betra en grillaður silungur og grillað grænmeti með sumarlegu ívafi. Þegar vel viðrar og sólin skín er ávallt gaman að draga fram grillið og grilla holla og góða rétti eins og þennan. Silungur er herrans matur og besta meðlæti er nýtt fersk uppskera af íslensku grænmeti.
Hér kemur uppskrift úr smiðju Ernu Sverrisdóttur matgæðings en uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.
Grillaður silungur og sumarlegt meðlæti sem slær í gegn
Grillaður silungir og grillað grænmeti á teini
Fyrir 3-4
Grillaður silungur
- 2 skallottulaukar, fínsaxaðir
- 1 hvítlauksrif, fínsaxað
- 8 sólkysstir tómatar, smátt saxaðir
- 8 grænar ólífur, skornar í þunnar sneiðar
- 1 tsk. kapers, skolað og saxað
- 1 tsk. paprikukrydd
- Safi og börkur af 1 sítrónu
- 800 g silungur í flökum eða lax, ef vill
- Salt og svartur pipar eftir smekk
- 100 g fetakubbur frá Gott í matinn, mulinn eða meira eftir smekk
- Ólífuolía
- Handfylli af ferskri saxaðri steinselju
Aðferð:
- Blandið sjö fyrstu hráefnunum saman í skál.
- Leggið silungsflökin á álpappír.
- Saltið vel og piprið eftir smekk.
- Dreifið blöndunni yfir flökin og sáldrið svo fetaosti og steinselju yfir.
- Dreypið að lokum smá ólífuolíu yfir.
- Grillið á heitu grilli eða bakið í ofni við 220° í um 10-15 mínútur.
Grillað grænmeti á teini
- 2 paprikur, skornar í bita
- 1 lítill kúrbítur, skorinn langsum í örþunnar sneiðar
- 16 kokteiltómatar
- Salt eftir smekk
- Örlítið þurrkað timian
- Ólífuolía
- 8 grillpinnar
Aðferð:
- Leggið grillpinnana í bleyti.
- Raðið síðan grænmetinu upp á.
- Saltið og dreypið ólífuolíu og smá timíani yfir.
- Grillið á heitu grilli þar til meyrt.
- Berið fram með silungnum.