Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Finnum í sínum fyrsta leik í Evrópukeppninni í kvöld, miðvikudaginn 2. júlí. Leikurinn fer fram í Thun í Sviss og spáir miklum hita í borginni á meðan hann fer fram.
„Áhorfendur úti á leiknum geta því miður ekki notið EM Ísblómsins sem Emmessís framleiddi í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands en það geta áhorfendur hér heima aftur á móti gert,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Emmessís.
„Ísblómið er tákn um samstöðu og stuðning við kvennalandsliðið og það verkefni sem fram undan er. Við erum stolt af því að geta lagt okkar af mörkum og mér þykir gaman að sjá hversu mikill áhugi er orðinn á íslenskum kvennabolta, enda engan að undra, þar sem íslenskar knattspyrnukonur eru þrælöflugar og sumar hverjar meðal þeirra fremstu í heiminum“ segir Kristján enn fremur.
Ísblómið sem fyrirtækið framleiddi í samstarfinu við KSÍ er rjómaís með bananabragði og karamellufyllingu og segir Kristján það hafa verið einróma álit við framleiðsluna að blómið ætti eftir að hitta beint í mark. „Áfram Ísland og stelpurnar okkar“, segir hann.