Þristamúsin innkölluð en þristaísinn slær í gegn

Ljósmynd/María Gomez

Þristamúsin var innkölluð eins og frægt er orðið en þristaþyrstir þurfa ekki að örvænta því þristaísinn er mögulega betri en músin ... ef það var mögulegt.

Hér er það María Gomez á Paz.is sem fer á kostum eins og henni einni er lagið.

Þristaís sem þú munt gera aftur og aftur

Þristaís 

  • 1 poki eða 250 g þristar (notið 8-9 stk þrista af þeim í ísinn og geymið 4 stk fyrir sósuna)
  • 250 ml (2,5 dl) nýmjólk 
  • 1 dós 397 g af niðursoðinni mjólk (condenced milk en hún er oftast staðsett hjá kínamatnum. Ég hef fengið hana í bæði Hagkaup og Fjarðarkaup m.a. en hún fæst víðar. Passið samt að hafa alls ekki Condenced Coconut Milk !!!)
  • 2,5 dl rjómi 
  • 1 tsk. vanilludropar

Sósa 

  • 4 stk. þristar úr pokanum 
  • 1/2 dl rjómi 

Aðferð

Þristaís 

  1. Byrjið á að þeyta rjómann, þessa 2,5 dl sem fara í ísinn, og leggið til hliðar 
  2. Setjið næst 9 stk af þristum í blandara og notið púlstakkann til að fá stóra mylsnumola af þristi (losið svo um mylsnuna með fingrunum svo hún sé ekki öll föst saman)
  3. Blandið næst saman í hrærivél nýmjólk, dósamjólk, muldu þristunum og vanilludropum og hrærið vel saman. Geymið í skálinni meðan sósan er útbúin 
  4. Setjið nú 4 stk af þristum í pott og 1/2 dl af óþeyttum rjóma 
  5. Bræðið vel saman og leyfið að malla í eins og 3-5 mínútur meðan sósan þykknar og hrærið reglulega í á meðan
  6. Nú blandið þið þeyttum rjóma varlega saman við mjólkina í hrærivélarskálinni, fyrst hægt og vandlega með sleikju og svo er í lagi að kveikja örstutt á minnsta hraða til að allt blandist saman  
  7. Hellið svo helmingnum af ísnum í brauðform eða annað mót og slettið sósu yfir hér og þar 
  8. Hellið svo hinum helmningnum yfir allt og að lokum restinni af sósunni hér og þar yfir 
  9. Setjið filmu yfir ísinn og frystið yfir nótt 

Punktar

Þar sem ísinn er frekar þunnur ófrosinn á mylsnan það til að falla á botninn, þess vegna er gott þegar þið skafið með ísskeið að fara alveg neðst á botninn til að fá þrista með í hverri kúlu.

Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka