Það er Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir matarbloggari á Döðlur & smjör sem á hér stórleik í eldhúsinu en hún býður lesendum upp á fylltar kalkúnabringur með ljúffengu meðlæti. Rósakál hefur verið afar vinsæld undanfarin ár og hér galdrar Guðrún fram rósakálsgratín sem inniheldur meðal annars beikon og parmesanost.
Fylltar kalkúnabringur eru einn af þessum réttum sem allir elska. Með því að fylla bringurnar með alls kyns gúmmelaði er bragðið tekið upp á næsta stig en hér má leika sér með ólíkt bragð og áferð. Það sem toppar þó þessa máltíð er sósan sem Guðrún fullyrðir að sé ein sú allra besta sem hún hefur lagað. Hún notar góðan grunn sem hún bragðbætir síðan eftir kúnstarinnar reglum og útkoman er alveg hreint upp á tíu!
Kalkúnafylling
Fyrir tvær bringur
- 200 g sveppir
- 1 laukur
- 40 g smjör
- 200 g beikon
- 100 g fínt brauð (5 sneiðar)
- 1 stk. grænt epli
- 50 g heslihnetur
- 1 hnefi steinselja
- 2 msk. Bezt á kalkún-krydd
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Skerið sveppi og lauk gróft, setjið á pönnu ásamt smjöri og steikið í 4-5 mín.
- Takið af pönnunni og setjið í matvinnsluvél.
- Skerið þá beikonið niður og steikið á pönnunni þar til það er fulleldað.
- Skerið skorpuna af brauðinu og skrælið eplið og brytjið niður.
- Setjið brauðið og eplið út í matvinnsluvélina ásamt heslihnetum, steinselju og kryddi og þá loks beikonið af pönnunni.
- Blandið vel saman og stoppið og skrapið niður með hliðunum ef þess þarf.
Kalkúnabringur
- 2 smjörsprautaðar kalkúnabringur u.þ.b. 800 g
- 2 msk. Bezt á kalkún-krydd
- eldunarvænt garn
Aðferð:
- Leggið plastfilmu yfir borðið og kalkúnabringuna ofan á, skerið í bringuna til að hjálpa til við að fletja hana út.
- Þegar þið hafið skorið í hana leggið þá aðra filmu yfir og lemjið hana með kjöthamri eða kökukefli. Best er að hún verði jöfn á þykkt og að ummáli.
- Takið filmuna af og dreifið helmingnum af fyllingunni yfir bringuna og rúllið henni upp.
- Bindið hana með garni; ef þið eruð óviss hvernig er best að binda mæli ég með að fletta því upp á Youtube og þið verðið orðin meistarar í því á fimm mínútum.
- Endurtakið ferlið með seinni bringuna.
- Stillið ofn á 180°C.
- Leggið bringurnar á grind með ofnskúffu undir, gott er að setja 500 ml af vatni í ofnskúffuna til að halda raka í bringunum.
- Eldið bringurnar í u.þ.b. klst eða þar til þær hafa náð 70°C kjarnhita.
- Takið bringurnar út og takið garnið af þeim og berið fram.
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
Rósakálsgratín
- 500 g rósakál
- 4 gulrætur
- 100 g beikon
- 3 skalottlaukar
- 1 msk. hveiti
- 3 hvítlauksrif
- 150 ml parmesanostur
- 250 ml rjómi
- 1 msk. dijonsinnep
- 1 tsk. timían
- ½ tsk. pipar
- 50 ml brauðrasp
- 100 ml rifinn ostur
Aðferð:
- Stillið ofn á 180°C.
- Skerið rósakál í tvennt og gulrætur í 1 cm bita.
- Gufusjóðið rósakál og gulrætur í 5-8 mín.
- Skerið beikonið og steikið þangað til það er orðið stökkt og leggið til hliðar á pappír.
- Skerið þá laukinn niður og afhýðið hvítlaukinn, bætið lauknum á pönnuna og steikið í 1-2 mín og bætið þá kreistum hvítlauk saman við.
- Bætið hveiti, 100 ml parmesanosti og beikoni saman við laukinn og hrærið vel saman og bætið þá rósakálinu og gulrótum saman við.
- Blandið saman í skál rjóma, dijonsinnepi, timíani og pipar og hrærið vel saman.
- Setjið þá allt í eldfast mót og hellið rjómablöndunni yfir.
- Blandið saman í aðra skál brauðraspi, rifnum osti og 50 ml af parmesan.
- Dreifið yfir réttinn og setjið inn í ofn og eldið í 25-30 mín. eða þar til osturinn er farinn að brúnast.
Koníaks-sveppasósa
- 2-3 sveppir
- 20 g smjör
- 2 msk. koníak
- ½ teningur nautakraftur
- 200 ml rjómi
- 200 ml vatn
- 1 pk sveppasósa frá Toro
- ½ tsk. timían
- ½ tsk. pipar
- salt eftir smekk
Aðferð:
- Skerið sveppina smátt, setjið í pott ásamt smjöri og steikið í 2-3 mín.
- Bætið þá koníaki saman við ásamt öllum hinum hráefnunum.
- Hrærið vel saman og leyfið suðunni að koma upp.
- Lækkið hitann í miðlungshita og leyfið að sjóða vægt í 3-4 mín.
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir