Hátíðarkalkúnn Lindu

Linda Ásgeirs leikkona - Kalkúnn og meðlæti
Linda Ásgeirs leikkona - Kalkúnn og meðlæti Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Lindu Ásgeirsdóttur leikkonu þekkja flestir landsmenn en hún hefur verið fastur liður á skjánum í fjöldamörg ár. Sérstaklega er hún vinsæl hjá unga fólkinu þar sem hún hefur leikið bæði Sollu stirðu og Skoppu í Skoppu og Skrítlu sem eiga einmitt 20 ára afmæli á komandi ári.
Þótt Linda sé hvað þekktust fyrir fallegt bros og mikla útgeislun er hún ekki síður þekkt fyrir stórglæsileg matarboð sem hún heldur fyrir vini og vandamenn. Allt frá því Linda og eiginmaður hennar bjuggu í Bandaríkjunum hefur Linda haldið árlegt amerískt kalkúnaboð á aðventunni þar sem öllu er tjaldað til.

En það er líka nóg annað að gera hjá Lindu þessa dagana en hún er einmitt að frumsýna nýja þætti með Skoppu og Skrítlu; Halló heimur, hér kem ég, átta þátta seríu sem er sýnd á Stöð 2 á aðventunni.

Linda Ásgeirs leikkona - Kalkúnn og meðlæti
Linda Ásgeirs leikkona - Kalkúnn og meðlæti Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Kalkúnn

Það er mikilvægt að taka fuglinn út 1-2 dögum fyrir eldun (fer eftir stærð fuglsins) því hann þarf að vera við stofuhita þegar eldamennskan byrjar.

  • 5-7 kg kalkúnn
  • 4-5 gulrætur, gróft skornar (fjöldi fer eftir stærð)
  • 2 sellerístönglar, gróft skornir
  • 1 meðalstór laukur
  • 1 sítróna
  • hvítlaukur
  • rósmarín
  • timían
  • kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
  • avokadóolía eða ólífuolíu
  • Rósmarínsmjör
  • 250 g smjör
  • 3-5 hvítlauksrif, smátt skorin
  • ferskt rósmarín, smátt skorið
  • timían, smátt skorið

Aðferð:

  1. Blandið hvítlauk, timían, rósmaríni saman við smjörið.
  2. Byrjið á að þurrka kalkúninn vel.
  3. Makið smjörblöndu undir skinnið og setjið vel aftur á brjóst. Ekki spara það og það má alveg mynda bungur.

Fylling aðferð:

  1. Setjið rósmarín, timían, grænmeti og sítrónu inn í fuglinn.
  2. Ég set þetta líka í skúffuna fyrir fyllinguna ásamt grænmetinu.
  3. Smyrjið kalkúninn með olíu og dreifið vel af kryddi yfir kalkúninn allan, ég notaði kalkúnakryddið frá Pottagöldrum. Ég nota avakadóolíu en það má líka nota ólífuolíu.
  4. Að þessu loknu bind ég lærin saman.
  5. Því næst er að grýta kalkúninum í ofn – en… hó-hó-hó. Trikkið mitt er að elda fyrst á annarri hliðinni í u.þ.b. klukkutíma og snúa síðan yfir á hina hliðina í aðra klukkustund. Svo klára ég kalkúninn á réttunni eða þar til hann hefur ná 72-74° gráðu kjarnhita.
  6. Kalkúninn má ekki elda við of hátt hitastig en það fer líka eftir ofnum. Ég elda minn á 160 gráðu hita og nota kjöthitamæli. Ég hef álpappír yfir fuglinum allan tímann.
  7. Þegar kalkúninn er tekinn úr ofninum tek ég grænmetið sem bakaðist með fuglinum og stappa saman við smjör, salt og pipar.
  8. Blandið þessu svo saman við Hagkaups-kalkúnafyllingu með döðlum og engiferi.

Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum var okkur oft boðið í þakkargjörðarboð, bæði á austur- og vesturströndinni sem eru með mjög ólíkar þakkargjörðarhefðir. Þar fengum við að kynnast hinum ýmsu útgáfum af kalkúnaréttum, allt frá djúpsteiktum kalkún yfir í kalkún sem settur var í pækil. En þessi klassíska útgáfa er alltaf í uppáhaldi hjá okkur. Við erum ekki föst í einni uppskrift og erum dugleg að reyna okkur áfram og prófa nýtt. Það er ekkert heilagt í kalkúnamatargerð en okkur þykir mjög vænt um þessa hefð.

Waldorfsalat

  • 2 græn epli
  • 1 ½ stk. sellerí
  • ca. 20-30 græn vínber
  • 3 msk. þreyttan rjóma
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl saxvalhnetur saxaðar
  • ½ dl pekan hnetur

Aðferð:

  1. Skerið vinberin í tvennt og kjarnhreinsið.
  2. Flysjið eplin, kjarnhreinsið og skerið í litla bita.
  3. Skerið selleríið einnig í litla bita.
  4. Saxið valhnetur og ristið létt á pönnu.
  5. Ristið pekanhnetur.
  6. Blandið þeyttum og sýrðum rjóma saman í skál og hrærið létt þar til blandast vel.
  7. Bætið síðan eplum, vínberjum og sellerí út í rjómann ásamt valhnetum.
  8. Skreytið með pekanhnetum.
Linda Ásgeirs leikkona - Kalkúnn og meðlæti
Linda Ásgeirs leikkona - Kalkúnn og meðlæti Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Rósakál

  • 500 g rósakál
  • ½ tsk sjávarsalt
  • ¼ tsk nýmulinn svartur pipar
  • 100 g smjör (eða eftir smekk – því meira, því betra að mínu mati)
  • ½ bollli þurrkuð trönuber
  • ¼ bolli (35 gr) parmesanostur
  • 2 msk hlynsýróp

Aðferð:

  1. Steikið rósakálið upp úr smjöri á pönnu.
  2. Kryddið með salti og pipar.
  3. Setjið trönuberin út í og steikið létt með.
  4. Hellið hlynsírópinu yfir kálið.
  5. Setjið í skál.
  6. Rífið parmessan ost yfir.

Sósa

  • Soð
  • Tasty sósugrunnur
  • Tasty kalkúnakraftur
  • ½ l rjómi

Aðferð:

  1. Setjið kalkúnasósugrunn í pott og hellið rjómanum út í.
  2. Hellið soðinu af kalkúninum út í pottinn.
  3. Smakkið til og bætið kalkúnakrafti í eftir smekk.
  4. Berið fram með sætkartöflumús með kornflexi.

Þessa uppskrift, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hagkaup sem er hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert