Jólakaffiboð Mörtu Maríu

Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans
Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans mbl.is/Eyþór

Fyrir jólin er ómissandi að líta inn hjá Mörtu Maríu Arnarsdóttur skólameistara Hússtjórnarskólans. Hún var ung að árum þegar amma hennar og nafna kenndi henni að baka randalínu, dekka borð og bjóða ástvinum í fallegt kaffiboð. Marta María gerir allt sem hún kemur nálægt fallegra og deilir hér með lesendum nokkrum góðum Húsó-uppskriftum, en einnig uppskriftum frá sér sjálfri.

Glæsilegt stell í bland við gómsætar veitingar.
Glæsilegt stell í bland við gómsætar veitingar. mbl.is/Eyþór
Marta María er vanalega með kaffiboð á jólunum.
Marta María er vanalega með kaffiboð á jólunum. mbl.is/Eyþór
Marta María er skírð í höfuðið á ömmu sinni Mörtu …
Marta María er skírð í höfuðið á ömmu sinni Mörtu Maríu Jónasdóttur sem kenndi henni að gera þessa ljúffengu randalín köku. mbl.is/Eyþór

Randalín ömmu

Amma gerði randalín í hringformi og síðan var skorið í hana þvera. Kakan verður betri eftir því sem dagarnir líða. Tilvalið er að bera fram heitt súkkulaði og þeyttan rjóma með randalín. Þá eru jólin komin fyrir mér.

Sveskjumauk

  • 700 g sveskjur
  • Um það bil 4 dl vatn
  • 250 g sykur

Aðferð:

  1. Gott er að byrja strax á sveskjusultunni því það tekur svolítinn tíma að gera hana.
  2. Sveskjur settar í pott, gott er að vatnið nái rétt yfir yfirborð sveskjanna.
  3. Sjóðið á vægum til miðlungshita og hrærið í af og til þar til sveskjurnar eru komnar í mauk. Gætið þess að þær festist ekki við botninn. Gott er að leyfa þessu að malla í 2-3 klst og hræra reglulega í á meðan.
  4. Í lokin er sykrinum bætt saman við, soðið áfram í smá stund. Látið sultuna kólna eilítið áður en henni er smurt á botnana.

Botnar

  • 500 g hveiti
  • 250 g sykur
  • 250 g smjör, við stofuhita
  • 2 egg, við stofuhita
  • 1 tsk. hjartarsalt
  • 2-3 tsk. möndludropar
  • 1 dl vatn eða mjólk, ef þörf er á

Aðferð:

  1. Allt sett í hrærivél og hnoðað, bætið við vatni eða mjólk ef þarf til að gera deigið meðfærilegra.
  2. Deiginu skipt í 3 jafna hluta, gott er að vigta deigið jafnt.
  3. Fletjið deigið út á bökunarpappír. Til að fá hringlaga köku þarf að skera flatt deigið eftir tertumóti áður en það er sett í ofn.
  4. Bakið á plötu við 180°C í um það bil 22 mínútur eða þar til botnarnir eru orðnir fallega ljósbrúnir.
  5. Setjið sveskjumauk á milli botnanna. Best er að smyrja fyrsta botninn á hvolfi. Hinir geta síðan komið hver á fætur öðrum á „réttunni“. Þegar fyrsti botninn er smurður á hvolfi er auðvelt að sneiða kökuna í nokkra kökubita og bera þannig fram á diski, án þess að það sjáist hvor botninn hafi vísað upp og hvor niður.
Lúxusfléttan er með marsipani sem gerir hana einstaka.
Lúxusfléttan er með marsipani sem gerir hana einstaka. mbl.is/Eyþór

Lúxusflétta

  • 3 tsk. þurrger
  • 1 dl volgt vatn (37°C)
  • 1 msk. sykur
  • ½ tsk. salt
  • 2 tsk. kardimommudropar
  • 1 dl matarolía
  • 4½ dl hveiti
  • 1 egg

Aðferð:

  1. Látið öll þurrefnin í skál og blandið saman.
  2. Vætið í með matarolíu, vatni og eggi.
  3. Hrærið deigið vel saman með sleif, stráið hveiti yfir og látið hefast. Útbúið fyllinguna á meðan.
  4. Blandið öllu saman í skál sem á að fara í fyllinguna og hnoðið í samfellt deig. Notið hendurnar.
  5. Hrærið gerdeigið í skálinni og hnoðið síðan á borði. Fletjið út í aflanga köku.
  6. Myljið fyllinguna eftir endilangri miðjunni og skerið raufar með hliðunum með 2 cm millibili. Fellið raufarnar yfir fyllinguna eins og fléttu.
  7. Penslið með eggjablöndu (egg og mjólk) og stráið möndluflögum yfir.
  8. Látið lengjuna lyfta sér í 30 mín eða látið inn í kaldan ofn.
  9. Bakið í við 180°C í um það bil 16-20 mín.

Fylling

  • 100 g marsípan
  • ½ dl sykur
  • 40 g smjör
  • 80-100 g suðusúkkulaði, brytjað
Húsó-draumatertan er með dökku súkkulaði og hvítum hliðum.
Húsó-draumatertan er með dökku súkkulaði og hvítum hliðum. mbl.is/Eyþór

Húsó - draumatertan

Döðlusúkkulaðibotnar

  • Botnar 2 stk.
  • 3 egg
  • ¾ bolli sykur
  • 2 bollar döðlur, smátt saxaðar
  • 100 g saxað súkkulaði
  • ¾ bolli hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft

Aðferð:

  1. Þeytið egg og sykur létt og ljóst.
  2. Blandið saman hveiti, lyftidufti, döðlum og súkkulaði og blandið varlega saman við þeyttu eggjablönduna.
  3. Setjið í tvö springform eða önnur hringlaga form (24-26 sm) klædd með bökunarpappír.
  4. Bakið við 175-180°C í u.þ.b. 10-15 mínútur.
  5. Kælið.
  6. Marens

Botnar 2 stk.

  • 4 eggjahvítur
  • 200 g sykur

Aðferð:

  1. Stífþeytið eggjahvítur og sykur mjög vel.
  2. Teiknið 2 hringi á bökunarpappír, jafnstóra og formið undan döðlubotnunum.
  3. Smyrjið marensinum jafnt á pappírinn.
  4. Bakið við 130°C í um það bil eina klukkustund.

Eggjakrem

Fyrir 2 tertur

  • 4 eggjarauður
  • 3 msk. sykur
  • 2½ dl rjómi

Aðferð:

  1. Þeytið rjómann.
  2. Þeytið eggjarauður og sykur saman, létt og ljóst.
  3. Blandið síðan þeytta rjómanum varlega saman við.
  4. Samsetning: Setjið döðlubotn á fat, má til dæmis bleyta hann aðeins upp með sérrí eða ávaxtasafa.
  5. Sneiðið 1-2 banana og raðið ofan á botninn (3-4 bananar á tvær tertur).
  6. Setjið eggjakremið þar yfir.
  7. Setjið svo marensbotn yfir eggjakremið.
  8. Þeytið 2 og ½ dl af rjóma á hverja köku (5 dl samanlagt á tvær) og smyrjið yfir.
  9. Frystið nú kökuna/kökurnar tvær.
  10. Hæfilegt er að taka kökuna úr frosti um 2-3 klukkustundum áður en hún er borin á borð.
  11. Þá þarf strax að búa til súkkulaðibráð sem sett er yfir kökuna þegar hún er tekin úr frosti.

Súkkulaðibráð

Fyrir tvær tertur

  • 400 g suðusúkkulaði – brætt yfir gufu, eða í örbylgjuofni. Passið að ofhita það ekki.
  • 4 msk. þeyttur rjómi
  • 4 eggjarauður
  • 8 msk. vatn

Aðferð:

  1. Hrærið eggjarauðum og vatni saman við súkkulaðið, einnig rjómann.
  2. Blandið vel saman.
  3. Hellið kreminu síðan yfir kökuna og setjið hana í kæli um stund, eða í frysti.
  4. Skera má kökuna í sneiðar og skreyta hana sem stakar tertusneiðar, til dæmis með rjómatopp, súkkulaðiskrauti og blæjuberi eða bera hana fram heila skreytta með rjóma.
  5. Geymist vel í frosti – tilbúin.
Húsó-kleinurnar slá í gegn í öllum veislum.
Húsó-kleinurnar slá í gegn í öllum veislum. mbl.is/Eyþór

Húsó-kleinur

  • ​1 kg hveiti
  • 300 g sykur
  • 150 g smjörlíki
  • 6 tsk lyftiduft
  • 2 stór egg
  • 2 tsk matarsódi
  • 6 dl súrmjólk eða AB-mjólk
  • 2 tsk malaðar ­kardimommur

Aðferð:

  1. Blandið öllum þurrefnum saman í hrúgu á borð.
  2. Myljið smjörlíkið saman við.
  3. Vætið í með sundurslegnum eggjum og helmingnum af súrmjólkinni/AB-mjólkinni. (Myndið fjall úr þurrefnunum og myndið holu fyrir eggin og súrmjólkina).
  4. Vætið í með afganginum af súrmjólkinni/AB-mjólkinni og hnoðið.
  5. Fletjið út og mótið kleinur. Gott er að nota kleinujárn til að skera út hæfilega stóra tígla, skerið síðan rák í miðja tíglana og snúið öðrum endanum í gegnum rákina.
  6. Steikið. Gott er að nota palmin-olíu.
Húsó-draumatertan er glæsileg á enda veisluborðsins, með girnilegu súkkulaði og …
Húsó-draumatertan er glæsileg á enda veisluborðsins, með girnilegu súkkulaði og ljósum hliðum. Það eru margir sem hafa beðið eftir þessari uppskrift að baka eftir á jólunum. Húsó-lagtertan er ekki síðri en hana má sjá fremst fyrir miðju á myndinni. mbl.is/Eyþór

Húsó-lagtertan

Brún terta með hvítu smjörkremi

  • 675 g smjör
  • 675 g púðursykur
  • 3 stór egg eða 4 lítil
  • 1.125 g hveiti
  • 4½ tsk. negull
  • 4½ tsk. kanill
  • 4½ tsk. matarsódi
  • 6-7 dl mjólk

Aðferð hrært deig:

  1. Hrærið smjörið ljóst með sykrinum.
  2. Setjið eggin út í eitt í einu, hrærið vel á milli.
  3. Blandið þurrefnum saman við ásamt mjólkinni, varist að hræra of mikið.
  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta og smyrjið á bökunarplötu klædda bökunarpappír.
  5. Bakið í miðjum ofni við 180°-200°C í 10-12 mínútur. Látið botnana kólna fyrir samsetningu.
  6. Leggið botnana saman með smjörkremi.
  7. Best er að smyrja fyrsta botninn á hvolfi. Hinir geta síðan komið hver á fætur öðrum á „réttunni.
  8. Það er síðan best að setja hlass ofan á kökuna og skera hana í átta bita daginn eftir. Þá er best að vera búinn að mæla bitana út með reglustiku áður en skorið er svo bitarnir verði jafnarma.
  9. Skerið kantana af svo þeir séu beinir og snyrtilegir.

Smjörkrem

  • 1 stk. smjör (500 g)
  • 1,5 kg flórsykur
  • 3 egg
  • 1 msk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Gætið þess að hafa smjör og egg við stofuhita.
  2. Þeytið smjör og flórsykur saman.
  3. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og þeytið vel svo kremið verði létt og ljóst.

Þessar upp­skriftir, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hag­kaup.

mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert