Að kvöldi alþjóðlegs baráttudags kvenna 8. mars lagði ég leið mína í Þjóðleikhúskjallarann til að sjá frumsýninguna Skíthrædd, sjálfsævisögulegan söngleik eftir Unni Elísabetu Gunnarsdóttur í leikstjórn Katrínar Halldóru Sigurðardóttur. Sýningin var góður endir á þessum degi, létt og skemmtileg en líka djúp og alvörugefin. Það hljómar kannski einkennilega að fara á söngleik í Þjóðleikhúskjallaranum því þar er lágt til lofts, sviðið er pínulítið og býður ekki upp á neinar leikhúsbrellur og plássið fyrir áhorfendur er takmarkað. Söngleikur var þetta engu að síður eða eins og Nútímamálsorðabók Árnastofnunar skilgreinir hugtakið: „leikur, leikrit eða kvikmynd, þar sem söngur og dans eru stórt atriði.“
Flytjendur verksins voru reyndar bara þrír. Unnur Elísabet sjálf sem var í aðalhlutverki, lék, dansaði og söng, og hljómsveitarmeðlimirnir Einar Lövdahl Gunnlaugsson og Annalísa Hermannsdóttir sem fyrir utan að sjá um tónlistina fóru með lítil en mikilvæg hlutverk. Unnur Elísabet er menntaður dansari og leikari með áherslu á leikstjórn og skapandi skrif og hefur nýtt þá menntun sína bæði í leikhúsi og sjónvarpi. Í þessu verki stígur hún að auki fram sem tónlistarkona. Lögin í sýningunni er létt og grípandi og textarnir lýsandi og frekar góðir, ekki síst óðurinn til einmanaleikans.
Umgjörð sýningarinn er björt og skapar glaðlega stemningu í annars dimmum kjallaranum. Hljóðfærin eru falin í glimmer og búningarnir hafa líka glitrandi ásýnd án þess að vera yfirgengilegir. Litasamsetningin er smekkleg. Unnur Elísabet í hárauðu, Einar og Annalísa í hvítu og glimmerið á hljóðfærunum í ljósgráu. Lýsingin þjónar flutningnum vel og stýrir athygli áhorfendanna sama hvort er uppi á sviði eða á ferðum flytjendanna um salinn.
Frásögnin var sett fram í leik, söng og dansi en að auki talar Unnur Elísabet beint til áhorfenda líkt og um uppistandssýningu væri að ræða. Tengingin við áhorfendur var sterk á frumsýningarkvöldinu enda hefur Unnur Elísabet einstaklega sterka útgeislun og sviðsnærveru. Samspil flytjendanna þriggja var líka fallegt. Einar og Annalísa, staðsett með hljóðfærin sín hvort sínum megin á sviðinu, ýttu frásögninni áfram með spurningum og léttu gríni auk þess að flytja áhorfendum staðreyndir um þá hræðslu sem Unnur Elísabet þjáðist af.
Í Skíthrædd fjallar Unnur Elísabet sem sagt um þá þætti lífsins sem hafa haft hamlandi áhrif á líf hennar. Flestir þessara þátta tengdust hræðslu og kvíða eins og hræðsla við myrkrið, harkalegar vindhviður og að epli eða pylsa festist í hálsinum en hún sagði áhorfendum líka frá öðrum hamlandi þáttum lífsins sem voru öllu alvarlegri eins og ofnæmi, meltingarsjúkdómi og erfiðri meðgöngu. Þannig hefur verkið alvarlegan undirtón þrátt fyrir gamansama framsetningu. Það er ekki grín að vera með bráðaofnæmi fyrir fíflum, blómunum sem spretta út um alla borg á hverju vori og öll börn tína til að gefa foreldrum sínum sem merki um ást sína. Það er heldur ekki grín að þjást af meltingarsjúkdómi sem gerir það að verkum að hægðir eiga til að fara sínar eigin leiðir án samþykkis eigandans. Alvarleiki atvikanna hreyfði við áhorfendum og ögraði grátinum þótt hláturinn væri honum yfirsterkari meðan á frásögninni stóð. Það er auðvelt að hlæja að neyðarlegum atvikum eftir á, sérstaklega þegar þau hafa hent einhvern annan og sagan er sögð á skemmtilegan hátt. Skíthrædd er þannig grátbroslegt verk.
Unnur Elísabet sýnir hugrekki með því að opna sig svona á sviðinu og veita áhorfendum, á einlægan hátt, innsýn í viðkvæmustu þætti lífs síns. Hún hlífir sér hvergi í þeim málefnum sem hún tekur fyrir heldur segir frá hlutunum eins og þeir eru. Það hefur verið til siðs að koma sér upp sterkri ímynd út á við þar sem sléttað er yfir ójöfnur og bresti og ekki talað um þá mannlegu veikleika sem allir þurfa jú að takast á við. Þögnin og slétt yfirborð veldur svo oft því að einstaklingar bögglast einir með sín mein. Skíthrædd afhjúpar aftur á móti marga þessara veikleika, áunna eða meðfædda, og gefur innsýn í ófullkomleika manneskjunnar. Það að heyra sögu annarra sem eiga við sama vandamál að stríða gerir hlutina að jafnaði einfaldari og því er full ástæða til að taka hatt sinn ofan fyrir Unni Elísabetu fyrir að varpa ljósi á málefni sem oftast eru falin og mjög oft falin í skömm. Hún er þó ekki sú fyrsta sem ákveður að standa berskjölduð fyrir framan áhorfendur og segja frá reynslu sinni af því sem dvalið hefur í þögninni til að styrkja aðra í sömu stöðu. Kristín Þóra Haraldsdóttir fjallar t.d. um „stressið sem fylgir því að vera manneskja“ í einleiksuppistandinu Á rauðu ljósi, hvenær er dugnaðurinn að drepa þig og hvenær ertu að drepast úr leti, og Sigríður Soffía Níelsdóttir miðlaði reynslu sinni af því að fara í gegnum meðferð við brjóstakrabbameini, ung með lítil börn, í sýningunni Til hamingju með að vera mannleg.
Eitt af því sem Unnur Elísabet velti upp í sýningunni sem lífshamlandi var spurningin um hvað hún gerði eiginlega. Það virðist seint ætla að breytast það viðhorf til listamanna að þeir geri svo sem ekki neitt heldur sitji bara á kaffihúsi með tölvurnar, tímunum saman. En það er ljóst að Unnur Elísabet og samstarfsfólk hennar hefur verið að gera eitthvað síðustu mánuðina og þá ekki síst hún sem framleiðir sjálf sýninguna, samdi lögin, skrifaði handritið og samdi dansana. Með öðrum orðum hún er framkvæmdastjóri, listrænn stjórnandi, höfundur og flytjandi sýningarinnar. Það er magnað hvað ein kona getur gert.
Skíthrædd er vönduð og skemmtileg sýning. Hún býr yfir kvenlegri einlægni og ber hæfni Unnar Elísabetar gott vitni.