Þetta er falleg bók í stóru broti og einkar áhugaverð, vel úr garði gerð og vandlega prófarkalesin. Tilefni útgáfunnar er að 30 ár eru liðin frá því að bókhlaðan mikla vestur á Melum var opnuð 1. desember 1994.
„Með bókinni er ætlunin að sýna fjölbreytni safnkostsins, svo sem bækur, tímarit, dagblöð, gagnagrunna, hljómplötur, nótur og tónlistarefni, einkaskjöl, handrit, kort, vefsíður og dægurprent. Í bókinni er vakin athygli á efni sem lítið hefur verið fjallað um áður, í bland við þekktari gersemar úr safnkostinum“ (7) segir landsbókavörður í inngangi. Starfsmenn safnsins velja gripi úr safnkostinum og skrifa um þá og fylgir mynd eða myndir hverri greinargerð.
Eitt og annað kemur kunnuglega fyrir sjónir, en flest er nýstárlegt öllum almenningi og jafnvel þeim sem eru tíðir gestir á þjóðarbókhlöðunni. Greinarnar segja sögu viðkomandi safnkosts, en vísa einnig flestar út fyrir sig, ef svo má segja, til annarra safngripa, til einstakra viðburða, út í þjóðfélagið vítt og breitt.
Höfundar bókarinnar eru 23 starfsmenn safnsins að ritstjórum meðtöldum og skrifa þeir 70 pistla um safnkostinn, allt frá einum upp í níu og höfðu frjálsar hendur um efnisval. Efnið er einkar fjölbreytt miðað við heiti safnsins, -bókasafn.
Hér er t.d. lýst málverki af Carl Christian Rafn fornfræðingi og fjallað um manninn sem var áhugasamur um stofnun safnsins (17). Hér er mynd af hljómplötu með hljóðritun af söng Péturs Jónssonar 1910, en hann söng fyrstur Íslendinga inn á hljómplötu (44). Þá má nefna myndir af fagurlega skreyttum hlutabréfum sem eru kannski ekki síður listaverk en verðbréf (146). Sama máli gegnir um bókbandskafla, virðulega bundin bók er sannkallað listaverk (38) rétt eins og Jónsbók sem Guðbrandur biskup lét prenta á bókfell 1578 (40-43). Sá brokkgengi listamaður, skáld og kennari Benedikt Gröndal er býsna lífseigur í umræðu nútímans, ekki síst fyrir drykkjuskap. En duglegur var hann á sinni tíð og klár. Myndir hans í bókinni eru ljós vottur þess (98-103). Hann var líka forkur duglegur að yrkja erfiljóð (150).
Myndin af hluta handrits Jónasar af „Ferðalokum“ sýnir að skáldið hefur ekki ort kvæðið í skyndingu; fyrirsögnin vefst fyrir honum. Hér er því slegið föstu að hann hafi ort ljóðið á lokamisserum lífsins (108-109). Það er mjög líklegt, en ekki eru allir þeirrar skoðunar. Fyrsta símaskráin kom út 1905, sú síðasta 2016. Hér er fróðleg minningargrein um þá skruddu (145).
Allt segir þetta okkur að Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er í rauninni mörg söfn. Í handritadeildinni eru varðveitt einkaskjöl af margvíslegu tagi, skáldskapur, bréf, dagbækur, ættvísi, sveitarblöð, alls konar uppskriftir; opinber gögn hins vegar á Þjóðskjalasafni.
Handritasafnið er að stofni til frá 1846 og er ómetanlegur menningarfjársjóður, hefur vaxið gríðarlega með kaupum og gjöfum. Innan þess eru nokkur sérsöfn, m.a. skjöl úr fórum Jóns Sigurðssonar. Handritasafn Jóns Árnasonar af þjóðsögunum er eitt af djásnum handritadeildarinnar (22). Vefsíðusafnið sem hóf starfsemi sína 2004 er stærsta deildin innan safnsins nú þegar, en þangað er smalað vefsíðum af þjóðarléninu, .is, og er varðveitt í þremur aðgreindum gagnaverum (188). Tónlistarsafn Íslands er á vegum safnsins, og meðal annarra sérsafna má nefna kvennasögusafn og bókasafn Samtakanna ’78.
Bókin er á einkar læsilegu og góðu máli, en rýnir vill þó krunka í orðalag á þremur stöðum. Í einni grein er nefnt „nokkurt magn bréfa“ þar sem betur færi að hafa bréfin nokkuð mörg. Einnig er sagt að Una Gísladóttir „hafði kostgangara í fæði“. Hér er fæðinu ofaukið því kostgangari er beinlínis sá sem borðar hjá (nær alltaf) matmóður sinni eða matselju (129). Spurning er hvort „ein alræmdasta aðgerð Rauðsokka“ (129) hafi ekki líka verið alfrægasta uppátæki þeirra í hugum einhverra? En þetta eru smámunir miðað við heildina.
Góð og fjölbreytt söfn eru mælikvarði á menningarstig þjóða. Í þeim efnum er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn á farsælli leið. Það er síðan þversagnakennt að um sama leyti og frábær sýning á þjóðararfinum er opnuð í Eddu ákveða tvö stærstu sveitarfélög landsins að loka skjalasöfnum sínum, flytja gögn um fortíð sína á Þjóðskjalasafnið þar sem sannarlega væsir ekki um þau, en gjörningurinn er eftir sem áður tákn um lítilsvirðingu fyrir sögunni og hundaþúfumenningu. Fyrir þjóðina er ekki vansalaust að náttúruminjasafn er ennþá hornreka.
Hér hefur verið tæpt á örfáum greinum í bókinni. Tímanna safn er lifandi vottur um einkar kraftmikið vörslu- og útgáfustarf Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Bókin er aðgengileg, eins og að var stefnt, fallegur prentgripur og í senn fróðleg og skemmtileg. Ber vott um metnað starfsmanna.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.