Í nýjasta dansverki Katrínar Gunnarsdóttur, Soft Shell sem frumsýnt var í Tjarnarbíói fimmtudaginn 10. apríl, fá áhorfendur að skyggnast inn í lífrænan/vélrænan/stafrænan undraheim og fylgjast með tveimur íbúum hans kanna heiminn og hvor annan á kerfisbundinn hátt. Tengsl þeirra á milli og tengsl þeirra við umhverfið og áhorfendur eru fjarlæg en mild enda virðast „íbúarnir“ vera vélmenni sem stjórnast af skilgreindum gjörðum en ekki manneskjur með tilfinningar.
Sjónræn upplifun af verkinu er sterk eins og um myndverk væri að ræða. Sviðsmyndin og búningar hönnuð af Evu Signýju Berger eru stílhrein og falleg þar sem dökkt og ljóst skapa skýrar andstæður sem síðan eru kryddaðar með hreinum litum, grænum, rauðum og bláum auk litapallettu eins og sést á olíubrák eða glitskýi. Leikmunirnir og sviðsmyndin gerð úr mismunandi efnum höfðu mismunandi form og áferð sem skapaði áhugaverða stemningu. Lýsingin hönnuð af Jóhanni Friðriki Ágústssyni var svo punkturinn yfir i-ið. Sjónrænt er Soft Shell fallegt verk.
Hljóðræn upplifun af verkinu er líka sterk. Hljóðmyndin, hönnuð af Brett Smith, er ekki sjálfstætt fyrirbæri sem áhorfendur skynja samhliða hreyfingum dansaranna og sjónrænni hlið sýningarinnar heldur verður hún til úr hljóðunum sem íbúarnir/dansararnir skapa þegar þeir eru að kanna heiminn. Áhorfendur heyra smjatt, smellt í góm, smelli í nöglum á mismunandi yfirborði, óræð orð og textabrot svo eitthvað sé nefnt. Það er samt eitthvað skrítið við að heyra allt sem gert er á sviðinu, ekki bara sjá það, svo þó að hljóðmyndin sé bæði áhugaverð og áhrifarík er hún líka hálfógeðfelld.
Dansararnir skapa hreyfingu innan þessa ramma, það er víst það sem dansarar gera venjulega, en þeir gera verkið samt ekki endilega að dansverki. Tilvist þeirra dýpkar aftur á móti heildarupplifunina af því sem áhorfendur sjá og heyra og krydda með léttum húmor. Saga og Ásgeir skila sínu vel eins og alltaf. Þau eru sannfærandi íbúar þessa undraheims og ferðast um rýmið, snerta, smakka, raða, leika sér, mætast og kanna hvort annað á vélrænan hátt.
Með dansverkinu veltir Katrín upp spurningum „um merkingu og merkingarleysi, um innihaldslausa nánd, leiki án ánægju, samkennd án tengsla, veruleika án raunveruleika“, eins og Katrín orðaði það í viðtali við Kristínu Heiðu Kristinsdóttur blaðamann í Morgunblaðinu daginn fyrir frumsýningu. Hún vísar í þann stafræna veruleika sem við lifum við, bæði samband fólks við áhrifavalda og ASMR-myndbönd sem finna má á meðal annars á YouTube.
Núna á tímum þegar stafrænn veruleiki tekur meira og meira pláss í lífi okkar er áhugavert að skoða hvað það gerir við okkur og samskiptin okkar á milli. Öll sækjumst við eftir persónulegri athygli og nánd og leitum hennar meðal annars á netinu. Á samfélagsmiðlunum finnum við áhrifavalda og í þáttum og myndum raunveruleikastjörnur sem hleypa okkur að sínum innsta kjarna eins og nánir vinir gera. Eða hvað?
Þannig virðist það vera á skjánum þó að í rauninni sé búið að ritstýra, laga og filtera allt sem þangað fer. Innileikinn sem beinist að viðtakandanum er samt feik því augnaráðið og orðin sem virðist beint að honum einum eru leikrit skapað í tómarúmi hinum megin við tæknina og beinast að öllum og engum. Við sækjumst líka eftir viðurkenningu og persónulegri athygli með því að gefa öðrum innsýn í okkar líf. Þar gleðjumst við yfir jákvæðum viðbrögðum, líka frá því fólki sem við þekkjum í sjálfu sér ekki neitt.
ASMR-myndbönd virðast koma fram sem svar við þörf einstaklinga fyrir líkamlega nánd. Í þeim bjóða einstaklingar upp á nánd í gegnum skjáinn með því að nota hljóðbrellur og hreyfingar sem virka eins og verið sé t.d. að snerta viðtakandann, strjúka honum um andlitið svo eitthvað sé nefnt.
Myndböndin eru ekki klúr heldur er „ætlað að vera róandi heilakitl, kalla fram sæluhroll hjá þeim sem horfa og hlusta“, eins og Katrín komst að orði í fyrrnefndu viðtali. Viðtakandanum getur liðið eins og verið sé að sýna honum persónulega athygli og nánd en sá veruleiki er án raunveruleika. Það er engin líkamleg snerting, aðeins hreyfingar sem tákna snertingu, og nándin er innihaldslaus að því marki að hún er ætluð öllum þeim sem eru tilbúnir að horfa og mögulega borga fyrir myndbandið en engum einum. Persónuleg tengsl þess sem gerir myndbandið og viðtakandans eru þar af leiðandi ekki fyrir hendi. Myndböndin geta líka virkað á fleiri vegu.
Góðir danshöfundar (góðir listamenn) eru bestu samfélagsrýnarnir hverju sinni. Þeir sjá það sem öðrum er hulið og nýta listina til að afhjúpa og sundurgreina veruleikann sem við ferðumst meðvituð eða ómeðvituð um og rannsaka þá krafta sem hafa áhrif á okkur og umhverfi okkar. Katrín og listræna teymið hennar kafa hér í veruleikann sem við tengjumst í gegnum skjáinn og skoða hvernig hann virkar ef skjárinn er tekinn burt og aðeins fjórði veggur leikhússins skilur okkur frá honum. Áhorfendum er eiginlega boðið að horfa á ASMR-myndband en ekki á skjánum heldur „live“ til að athuga hvað það gefur.
Soft Shell er byggt á áhugaverðri pælingu og öll umgjörðin er til fyrirmyndar. Verkið náði samt ekki til áhorfenda. Það var of vélrænt, of dautt. En kannski segir það þó meira um áhorfendur, fólk úr listageiranum sem vinnur með líkama sinn, nánd og tjáningu tilfinninga flesta daga, en verkið sjálft.