Dómur: Stafræn nánd

Stílhreint „Sjónrænt er Soft Shell fallegt verk,“ segir rýnir um …
Stílhreint „Sjónrænt er Soft Shell fallegt verk,“ segir rýnir um nýjasta dansverk Katrínar Gunnarsdóttur. Ljósmynd/Owen Fiene

Í nýj­asta dans­verki Katrín­ar Gunn­ars­dótt­ur, Soft Shell sem frum­sýnt var í Tjarn­ar­bíói fimmtu­dag­inn 10. apríl, fá áhorf­end­ur að skyggn­ast inn í líf­ræn­an/​vél­ræn­an/​sta­f­ræn­an undra­heim og fylgj­ast með tveim­ur íbú­um hans kanna heim­inn og hvor ann­an á kerf­is­bund­inn hátt. Tengsl þeirra á milli og tengsl þeirra við um­hverfið og áhorf­end­ur eru fjar­læg en mild enda virðast „íbú­arn­ir“ vera vél­menni sem stjórn­ast af skil­greind­um gjörðum en ekki mann­eskj­ur með til­finn­ing­ar.

Sjón­ræn upp­lif­un af verk­inu er sterk eins og um mynd­verk væri að ræða. Sviðsmynd­in og bún­ing­ar hönnuð af Evu Sig­nýju Ber­ger eru stíl­hrein og fal­leg þar sem dökkt og ljóst skapa skýr­ar and­stæður sem síðan eru kryddaðar með hrein­um lit­um, græn­um, rauðum og blá­um auk litap­all­ettu eins og sést á olíu­brák eða glit­skýi. Leik­mun­irn­ir og sviðsmynd­in gerð úr mis­mun­andi efn­um höfðu mis­mun­andi form og áferð sem skapaði áhuga­verða stemn­ingu. Lýs­ing­in hönnuð af Jó­hanni Friðriki Ágústs­syni var svo punkt­ur­inn yfir i-ið. Sjón­rænt er Soft Shell fal­legt verk.

Hljóðræn upp­lif­un af verk­inu er líka sterk. Hljóðmynd­in, hönnuð af Brett Smith, er ekki sjálf­stætt fyr­ir­bæri sem áhorf­end­ur skynja sam­hliða hreyf­ing­um dans­ar­anna og sjón­rænni hlið sýn­ing­ar­inn­ar held­ur verður hún til úr hljóðunum sem íbú­arn­ir/​dans­ar­arn­ir skapa þegar þeir eru að kanna heim­inn. Áhorf­end­ur heyra smjatt, smellt í góm, smelli í nögl­um á mis­mun­andi yf­ir­borði, óræð orð og texta­brot svo eitt­hvað sé nefnt. Það er samt eitt­hvað skrítið við að heyra allt sem gert er á sviðinu, ekki bara sjá það, svo þó að hljóðmynd­in sé bæði áhuga­verð og áhrifa­rík er hún líka hálfógeðfelld.

Dans­ar­arn­ir skapa hreyf­ingu inn­an þessa ramma, það er víst það sem dans­ar­ar gera venju­lega, en þeir gera verkið samt ekki endi­lega að dans­verki. Til­vist þeirra dýpk­ar aft­ur á móti heild­ar­upp­lif­un­ina af því sem áhorf­end­ur sjá og heyra og krydda með létt­um húm­or. Saga og Ásgeir skila sínu vel eins og alltaf. Þau eru sann­fær­andi íbú­ar þessa undra­heims og ferðast um rýmið, snerta, smakka, raða, leika sér, mæt­ast og kanna hvort annað á vél­ræn­an hátt.

Með dans­verk­inu velt­ir Katrín upp spurn­ing­um „um merk­ingu og merk­ing­ar­leysi, um inni­halds­lausa nánd, leiki án ánægju, sam­kennd án tengsla, veru­leika án raun­veru­leika“, eins og Katrín orðaði það í viðtali við Krist­ínu Heiðu Krist­ins­dótt­ur blaðamann í Morg­un­blaðinu dag­inn fyr­ir frum­sýn­ingu. Hún vís­ar í þann sta­f­ræna veru­leika sem við lif­um við, bæði sam­band fólks við áhrifa­valda og ASMR-mynd­bönd sem finna má á meðal ann­ars á YouTu­be.

Núna á tím­um þegar sta­f­rænn veru­leiki tek­ur meira og meira pláss í lífi okk­ar er áhuga­vert að skoða hvað það ger­ir við okk­ur og sam­skipt­in okk­ar á milli. Öll sækj­umst við eft­ir per­sónu­legri at­hygli og nánd og leit­um henn­ar meðal ann­ars á net­inu. Á sam­fé­lags­miðlun­um finn­um við áhrifa­valda og í þátt­um og mynd­um raun­veru­leika­stjörn­ur sem hleypa okk­ur að sín­um innsta kjarna eins og nán­ir vin­ir gera. Eða hvað?

Þannig virðist það vera á skján­um þó að í raun­inni sé búið að rit­stýra, laga og filtera allt sem þangað fer. Inni­leik­inn sem bein­ist að viðtak­and­an­um er samt feik því augnaráðið og orðin sem virðist beint að hon­um ein­um eru leik­rit skapað í tóma­rúmi hinum meg­in við tækn­ina og bein­ast að öll­um og eng­um. Við sækj­umst líka eft­ir viður­kenn­ingu og per­sónu­legri at­hygli með því að gefa öðrum inn­sýn í okk­ar líf. Þar gleðjumst við yfir já­kvæðum viðbrögðum, líka frá því fólki sem við þekkj­um í sjálfu sér ekki neitt.

ASMR-mynd­bönd virðast koma fram sem svar við þörf ein­stak­linga fyr­ir lík­am­lega nánd. Í þeim bjóða ein­stak­ling­ar upp á nánd í gegn­um skjá­inn með því að nota hljóðbrell­ur og hreyf­ing­ar sem virka eins og verið sé t.d. að snerta viðtak­and­ann, strjúka hon­um um and­litið svo eitt­hvað sé nefnt.

Mynd­bönd­in eru ekki klúr held­ur er „ætlað að vera ró­andi heilakitl, kalla fram sælu­hroll hjá þeim sem horfa og hlusta“, eins og Katrín komst að orði í fyrr­nefndu viðtali. Viðtak­and­an­um get­ur liðið eins og verið sé að sýna hon­um per­sónu­lega at­hygli og nánd en sá veru­leiki er án raun­veru­leika. Það er eng­in lík­am­leg snert­ing, aðeins hreyf­ing­ar sem tákna snert­ingu, og nánd­in er inni­halds­laus að því marki að hún er ætluð öll­um þeim sem eru til­bún­ir að horfa og mögu­lega borga fyr­ir mynd­bandið en eng­um ein­um. Per­sónu­leg tengsl þess sem ger­ir mynd­bandið og viðtak­and­ans eru þar af leiðandi ekki fyr­ir hendi. Mynd­bönd­in geta líka virkað á fleiri vegu.

Góðir dans­höf­und­ar (góðir lista­menn) eru bestu sam­fé­lagsrýn­arn­ir hverju sinni. Þeir sjá það sem öðrum er hulið og nýta list­ina til að af­hjúpa og sund­ur­greina veru­leik­ann sem við ferðumst meðvituð eða ómeðvituð um og rann­saka þá krafta sem hafa áhrif á okk­ur og um­hverfi okk­ar. Katrín og list­ræna teymið henn­ar kafa hér í veru­leik­ann sem við tengj­umst í gegn­um skjá­inn og skoða hvernig hann virk­ar ef skjár­inn er tek­inn burt og aðeins fjórði vegg­ur leik­húss­ins skil­ur okk­ur frá hon­um. Áhorf­end­um er eig­in­lega boðið að horfa á ASMR-mynd­band en ekki á skján­um held­ur „live“ til að at­huga hvað það gef­ur.

Soft Shell er byggt á áhuga­verðri pæl­ingu og öll um­gjörðin er til fyr­ir­mynd­ar. Verkið náði samt ekki til áhorf­enda. Það var of vél­rænt, of dautt. En kannski seg­ir það þó meira um áhorf­end­ur, fólk úr lista­geir­an­um sem vinn­ur með lík­ama sinn, nánd og tján­ingu til­finn­inga flesta daga, en verkið sjálft.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Menning, Dans — Fleiri fréttir

Fimmtudaginn 22. maí