Síðasta ferðin, eða á sænsku Den sista resan, er ekki endurgerð á íslensku kvikmyndinni Síðustu veiðiferðinni (Örn Marinó Arnarson og Þorkell S. Harðarson, 2020) eins og undirrituð hélt fyrst, heldur heimildarmynd um sænska feðga á ferðalagi um Frakkland.
Þetta hljómar kannski ekki mjög spennandi en myndin hefur slegið öll aðsóknarmet í Svíþjóð og er nú mest sótta heimildarmynd í sögu sænskra kvikmynda. Höfundar myndarinnar, Filip Hammar og Fredrik Wikingsson, eru þekktir í sænsku sjónvarpi en það er sjálfur Filip og faðir hans, Lars Hammar, sem eru aðalpersónur myndarinnar þó að Fredrik fái að fljóta með. Líklega hafa vinsældir þeirra dregið marga Svía í bíó, allavega til að byrja með, því að ekki hljómar söguþráðurinn, þ.e.a.s. sænskir feðgar á ferðalagi, nógu spennandi til að draga fólk í bíó. Filip og Fredrik eru ekki frægir hérlendis og því ekki að furða að með undirritaðri sátu aðeins þrír í stóra bíósalnum í Bíó Paradís. Síðasta ferðin er aftur á móti mynd sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara.
Kvikmyndin fjallar um fallega tilraun Filips til þess að kveikja aftur lífsneistann hjá föður sínum með því að fara með hann til Frakklands þar sem frelsið er. Í byrjun myndarinnar kynnumst við Lars í gegnum eldra myndefni þar sem hann er að kveðja skólann og nemendur sína eftir að hafa unnið sem kennari allt sitt líf og elskað það. Hann kenndi frönsku og leit á Frakkland sem annað heimili sitt. Sá maður sem áhorfendur sjá í byrjun, þ.e.a.s. lífsglaði kennarinn sem á það til að stíga nokkur steppdansspor, eiga áhorfendur erfitt með að trúa að sé sá sami og situr nú í belgíska hægindastólnum heima hjá sér og hefur engan áhuga á að stíga út fyrir hússins dyr. Sonur hans trúir því ekki heldur og er staðráðinn í að kveikja aftur með honum lífsneista, svo staðráðinn að hann leigir appelsínugulan Renault 4, alveg eins og þau fjölskyldan ferðuðust um á þegar Filip var ungur og Lars var eins og hann átti að sér að vera.
Ferðin byrjar hins vegar ekki vel því að fyrst kvöldið dettur Lars og liggur í þrjár klukkustundir á baðherbergisgólfinu áður en einhver kemur honum til aðstoðar. Lars endar á því að eyða fyrstu ferðadögunum á spítala í Malmö en Filip og Fredrik, sem syninum tókst að plata í þetta ferðalag með sér, halda áfram í von um að Lars komi seinna með flugi og nái þeim. Áhorfendur hefja því ferðalagið einungis með Fredrik og Filip en þeim hluta hefði betur mátt sleppa eða allavega stytta hann. Félagarnir eru einfaldlega ekki nógu skemmtilegir til þess að halda myndinni uppi. Atriðin eru flest eins, félagarnir fá sér að drekka og reyna að vera djúpir með því að tala um tilfinningar sínar, á meðan áhorfendur bíða eftir því að áhugaverði karlinn, Lars, láti sjá sig.
Í raun er bara tvennt við myndina sem truflaði undirritaða, í fyrsta lagi er það fyrri hlutinn af því þá er aðalkarakter myndarinnar ekki mættur, og í öðru lagi er það teiknaða innskotið (e. animation) af bílnum og vegalengdunum sem þeir ferðast. Teikningin er mjög gamaldags og hallærisleg og passar ekki við restina af myndinni sem er samsett af mörgum vönduðum og fallegum skotum.
Höfundarnir, Filip og Fredrik, blanda saman nýju og gömlu myndefni úr fjölskylduferðum. Það sem þeir gera ólíkt öðrum er að þeir sýna ekki aðeins fortíðina, heldur endurleika hana líka. Markmið þeirra er ekki einungis að heimsækja fortíðina, heldur endurupplifa hana með Lars. Þeir eru ekki hræddir um að valda Lars vonbrigðum, heldur handvissir um að með því að leyfa minningunum að streyma fram upplifi Lars loks gleði. Vonbrigði virðast aðeins tilheyra nútíð hans og framtíð en með hverjum deginum verður erfiðara að halla glasinu til þess fá sér vínsopa. Filip og Fredrik skipuleggja til dæmis, eða í raun leikstýra ákveðnum atriðum í lífi Lars. Fredrik setur til dæmis bókstaflega upp leikatriði úti á götu í Frakklandi. Hann fær tvo Frakka til þess að rífast fyrir framan Filip og Lars, sem endar með því að annar gefur hinum kinnhest en Lars hafði nefnilega gaman af því hvað Frakkar væru óbeislaðir og frjálsir. Í von um að gleðja hann stilltu þeir þessu leikatriði upp fyrir hann og létu eins og þetta væri í raun og veru að gerast, en bæði áhorfendur og vinirnir vita auðvitað betur.
Síðasta ferðin segir hjartnæma sögu af manni sem hefur ekki orkuna til þess að leita aftur að lífsneistanum en á góða að sem eru tilbúnir í þá fjársjóðsleit jafnvel þótt það þýði að þeir þurfi að fara alla leið til Frakklands. Sögunni er komið vel til skila en það sem gerir hana sérstaka er Lars sem er, eins og nemendur hans myndu lýsa honum, alveg einstakur.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.