Það er freistandi að heimfæra þessa pælingu á „þjóðargersemaþríleik“ Ólafs Egils Egilssonar og samverkafólks hans. Laustengdar tónlistardagskrár þar sem stiklað hefði verið á stóru í ævi Ellyjar Vilhjálms og Bubba Morthens hefðu vafalaust fullnægt flestum. Þess í stað fengum við vel byggða og ígrundaða dramatíska söngleiki. Og ekki nóg með það: báðir fengu þeir sitt eigið form sem tók mið af efninu og nýtti eiginleika lífshlaups og listar aðalpersónanna á frumlegan hátt. Í Elly tókst einkar vel að nýta lög úr ólíkum áttum til að varpa ljósi á tilfinningalegt ferðalag söngdrottningarinnar, og hin mörgu hamskipti Ásbjörns Kristinssonar kölluðu á fjölda leikenda til að taka á sig mynd á ólíkum æviskeiðum.
Þessi listræna djörfung og smekkvísa alvara er enn að verki núna, þegar Vala Kristín Eiríksdóttir hefur gengið til liðs við Ólaf við að finna upp þriðja hjólið: form sem hæfir jafnvel enn „margbrotnari“ persónu en Bubba. Útkoman er – enn og aftur – hreint afbragð.
Tvær grundvallarhugmyndir halda utan um galskapinn að þessu sinni – og það er óhjákvæmilega umtalsverður galskapur. Annars vegar viðtal sem veislustjórinn Vala Kristín tekur við Þórhall Sigurðsson um ævi hans og starfsferil, nokkuð greinilega í anda þáttanna gömlu með Hemma Gunn, og hins vegar aðkoma hinna fjölmörgu ástsælu persóna úr galleríi Ladda að því að segja sögu hans, innan sviðs og utan. Þær eru leiknar af vel skipuðum leikhópnum, sem hlýtur að hafa verið taugatrekkjandi fyrst í stað: að mæta sjálfum skaparanum í gervi Marteins Mosdal, Skúla rafvirkja, Saxa læknis, Eiríks Fjalars, Elsu Lund og Dengsa, svo helstu stjörnur séu nefndar. Öll klára þau sig vel af því, og þegar mikið liggur við tekur Laddi sjálfur á sig mynd valinna karaktera, og alltaf er það jafn mögnuð stund; að sjá þennan hlédræga mann umturnast fyrir augum manns í eitthvað kunnuglegt, óþolandi, ástsælt og engu líkt.
En mestan part er Þórhallur þó kominn til dyranna eins og hann er klæddur. Sem hann sjálfur. Sýningin er varla byrjuð þegar Vala Kristín byrjar að hóta því að ganga nærri viðmælanda sínum, kryfja hann og greina og komast þannig að leyndarmálinu um hina einstöku hæfileika og drifkraftinn mikla. Það er óhætt að segja að okkar maður ókyrrist nokkuð, og þessi yfirvofandi djúpköfun er bráðgóður framhaldsbrandari. Þangað til hann er ekki brandari lengur, og sár sannleikurinn brýtur sér leið í gegnum gervin. En líka í krafti gervanna.
Lengst af ríkir þó fíflagangurinn hreinn og tær, og er á mörgum og stórum köflum alveg dýrðlegur. Samsetningin er snjöll, samspil Ladda og sköpunarverkanna er yndislegt og fjörið lengst af allsráðandi. Elsa Lund er að minnsta kosti jafn óforskömmuð og forðum í meðförum Björgvins Franz og Dengsi með jafn lausleg tengsl við raunveruleikann og áður hjá Villa Neto. Öll í leikhópnum eiga glansnúmer, öll þurfa að spreyta sig á fleiri en einum karakter, og mörg þurfa að vera Laddi sjálfur á ýmsum æviskeiðum. Þannig verður hann sjálfur í raun einn af persónugalleríinu, ein af týpunum, með sams konar brellum og allir hinir birtast.
Talandi um það: Laddi sjálfur. Það er gaman að sjá hann spreyta sig á „straight man“-hlutverkinu á móti sprúðlandi og kraftmikilli Völu Kristínu í spyrilshlutverkinu. Hann reynist kunna það líka.
Orkan í sýningunni dalar nokkuð þegar sígur á seinni hlutann. Það er dvalið óþarflega mikið við gerð Deió-plötunnar, og upphafleg áform Ladda að hafa hana með öllu grín-lausa. Aðdragandinn að því þegar alvaran nálgast af alvöru undir lokin verður nokkuð teygður, en það verður á endanum ljóst af hverju það hlaut að þurfa að vera nákvæmlega svona. Og bláendirinn, þar sem Laddi kveður leikhúsgesti, er eins hreinræktaður leikhúsgaldur og hægt er að fara fram á.
Það er óviðeigandi að ljóstra upp meiru um hvernig það gengur fyrir sig, og það sama má segja um tvö fullkomlega óborganleg óvænt atriði: innkomu Magnúsar bónda, og uppgjörið við lögin tvö á efnisskránni sem hafa elst hvað verst.
Yfir öllu sjóinu er skemmtilega lausbeislaður blær, sem er mjög í anda hins anarkíska gríns sem einkenndi svo margt af afrekum Ladda. Þótt týpugerðin sé fáguð og nákvæm er alla jafna einskis svifist til að kalla fram hlátur, sem birtist hvað best í Roy Rogers-númerinu og hjá hinum kafloðnu systrum úr Tungunum. Að ógleymdu Gervahverfinu. Búningar Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur, leikgervi Elínar S. Gísladóttur og dansar Lees Prouds negla þennan groddalega stíl, og það sama gerir makalaust ævintýraleg leikmynd Evu Signýjar Berger. Sviðsetning Ólafs Egils virðist sömuleiðis vera mun lausbeislaðri en hún vafalaust er undir niðri. Svolítið eins og Laddi sjálfur þegar mest gengur á. Tónlistin var aftur á móti ákaflega og augljóslega fagmannlega flutt, eins og hún hefur að ég held alltaf verið á ferli Þórhalls, sama hvað hefur gengið á í gríninu. Perlur eins og einkennissöngur Eiríks Fjalars og hið dýrðlega „Austurstræti“ hljóma eins og þau eiga að hljóma í flutningi hljómsveitar Jóns Ólafssonar og vel syngjandi leikhópsins.
Þetta er Laddi er þegar heilt er á litið firnaskemmtileg kvöldskemmtun með fálmara sem snerta við ólíkum hlutum taugakerfisins. Hláturtaugunum auðvitað, en líka myrkari og sárari hlutum. Að ógleymdum þeim hluta sem nýtur þess að sjá úthugsað listaverk lifna við. Sjá sanna umbreytingu í krafti lúinnar hárkollu og gleraugna. Eða jafnvel án þeirra. Sjá galdurinn.