List Ástu Ólafsdóttur hefur lengi tekist á við margþætta rýmisskoðun þar sem sagan, fortíðin og efnisheimurinn birtast í skýrt framsettum sviðsetningum. Hér sjáum við leikræn vídeóverk hennar þar sem veruleiki listarinnar, mannvera og kvenvera, birtist á táknrænan hátt. Framlag hennar var áhugavert í upphafi vídeólistar hér á landi þótt hún hafi síðar einbeitt sér í meira mæli að póetískum innsetningum.
Tvö verk Rúríar, til vinstri „Gullinn bíll“ frá 1974-2010, til hægri „Blær“ frá árinu 1980.
Ljósmynd/Hlynur Helgason
Brynhildur Þorgeirsdóttir er einn af þeim listamönnum sem sköpuðu myndheim og framgangsmáta snemma á ferlinum sem þeir þróa og endurvinna út starfsævina. Verk hennar í Ólgu sýna þetta vel, skúlptúrar mótaðir í leir og annan efnivið þar sem formgerðin sækir í goðsagnavísanir, forsöguleg dýr eða skrímsli; í sumum rísa sérkennilegar trjónur upp úr jörðinni, aðrar sverja sig meira í ætt við loðfíla.
Verk Erlu Þórarins sýna hvernig hún hóf feril sinn. Hún vann í anda nýja málverksins við að skoða manninn og náttúruna á tjáningarfullan máta. Verkin skoða kynverund kvenna og karla á táknrænan hátt, orkuna sem í heiminum felst. Í tímans rás hafa verk hennar þróast yfir í hófstilltari tjáningu þar sem litur og efni tekst á við hið háleita.
Verk Gerlu sýna fjölbreytilega tjáningu; ljósmyndir, hugmyndateikningar og textílverk. Textíltilraunir hennar á þessum tíma voru sérlega áhugaverðar þar sem hún nýtir vefnað og efni til að móta einhverskonar hirslur, borðbúnað og tuskur í yfirstærð. Hlutirnir vekja með áhorfanda hugrenningar um snertingu fremur en sjón. Hér ræður efniskenndin ríkjum. Á þessum tíma var mörgum konum mikilvægt að aðskilja sig frá karllægum myndheimi með því að vinna með aðra miðla sem sögulega voru konum fremur eiginlegir en körlum.
Verk Hörpu Björnsdóttur á sýningunni eru látlausar tilraunir með stíl. Annars vegar eru expressjónísk málverk þar sem erótísk viðfangsefni eru meðal annars tekin fyrir. Hins vegar sjáum við grafíkverk þar sem fjölfeldi ljósmynda skapar ítrekun á fleti. Hér er hún greinilega enn að hefja feril sinn og móta sína sjálfsmynd.
Textílverk á stöplum og ljósmynd á vegg til vinstri eftir Gerlu; málverk að baki eftir Erlu Þórarinsdóttur.
Ljósmynd/Hlynur Helgason
Málverk Margrétar Jónsdóttur eru öllu sterkari og sýna að hún hafði náð góðum tökum á malerískum frásagnarmáta sínum. Þetta eru dramatísk málverk þar sem mýtólógískar verur eru mótaðar í þrívídd á eintóna fleti, einhvers konar náttúruverur og ókindir. Þetta eru póstmódernísk verk þar sem formgerð og fantasía ræður ríkjum, ekki ósvipað því sem á sér stað í verkum Brynhildar.
Rúna Þorkelsdóttir sækir í grafíkhefðina, líkt og Harpa, í bland við fínlegt málverk. Verk hennar eru í grunninn form- og efnisrannsóknir þar sem aðferðir mismunandi tækni eru skoðaðar náið. Hún vinnur með samspil jarðar og efnis í smágerðum textílverkum, en samhliða þessu skoðar hún myndræna möguleika fjölföldunaraðferða offsetprentunar. Niðurstaðan í báðum tilvikum eru skýr, formræn og mínimalísk verk.
Verk Rúríar eru flestum kunn. Á sýningunni fáum við fjölbreytt innlit í gjörninga hennar í upphafi ferilsins. Þar eru mest áberandi ljósmyndaröðin af eyðingu gylltu Benz-bifreiðarinnar og ákall til náttúruaflanna í kvikmyndinni af brennandi regnboga. Hér birtast bæði pólítískar áherslur hennar og þörf fyrir að vekja fólk til vitundar um náttúruna og öfl hennar.
Það er erfitt að skilgreina áherslur Svölu Sigurgeirsdóttur á þessum tíma, þótt víða megi greina pólitískan og femínískan undirtón. Hún sýnir dæmi úr mismunandi myndröðum, litaðar ljósmyndir, silkiþrykk, klippimyndir og málverk unnin með blandaðri tækni. Hér býr undir fjölbreyttur frásagnarmáti og ljóðrænar áherslur í framsetningu.
Í heildina er sýningin áhugaverð tilraun til að lýsa tíðaranda og kynna myndræna sýn kvenna á níunda áratugnum. Þessar níu konur komu fram á sviðsljósið upp úr annarri bylgju femínisma. Sýningin er til marks um hvernig þær voru meðvitað að skapa sér svigrúm og möguleika í listheimi þar sem karllægar áherslur voru ráðandi. Sýningin rekur hvorki feril þessara kvenna né þróun, heldur virkar sem eins konar sneiðmynd af stöðu listar þeirra á þessum tíma. Í henni er til sýnis upphaf á ferli þeirra, ferli sem átti eftir að þróast á ólíka vegu næstu fjóra áratugi.