Valdimar Ingi Gunnarsson
Valdimar Ingi Gunnarsson
Íslensku sjókvíaeldisfyrirtækin hafa litla möguleika á að keppa við laxeldisfyrirtækin þrjú sem eru í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta/sjóða.

Valdimar Ingi Gunnarsson

Í frumvarpi um lagareldi er gert ráð fyrir útboði á nýjum eldissvæðum og framleiðsluheimildum. Fyrst skulum við skoða hvernig tókst til með fyrra útboðskerfi.

Fyrra útboðskerfi

Lög um fiskeldi voru samþykkt á árinu 2019 og í framhaldinu var gefin út reglugerð nr. 588/2020 um útboð á eldissvæðum. Útboðið var sérstaklega hannað fyrir Arnarlax, Ice Fish Farm (Kaldavík) og Arctic Fish og opnað fyrir lokuðu útboði þar sem ákveðnum aðilum var gert mögulegt að bjóða í eldissvæðin og heimildirnar. Athyglisvert er að bæði Landssamband veiðifélaga og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gerðu alvarlegar athugasemdir við drög að reglugerðinni í umsögn sinni en ekkert var tekið tillit til þess. Í stuttu máli þá fór aldrei neitt útboð fram enda margt sem ekki stóðst skoðun sem ekki verður rakið hér.

Smitvarnarsvæðin

Ein af megintillögum í frumvarpi um lagareldi er smitvarnarsvæði, sem er afmarkað svæði á sjó þar sem heimilt er að stunda sjókvíaeldi. Skilgreiningu á smitvarnarsvæðum er m.a. ætlað að draga úr líkum á að sjúkdómsvaldar berist á milli ótengdra rekstraraðila. Gert er ráð fyrir aðeins einum rekstraraðila á hverju svæði þrátt fyrir að sérstakur starfshópur um smitvarnir í sjókvíaeldi legði það ekki til. Smitvarnarsvæðin, eins og lagt er upp með í frumvarpinu, munu litlu skila og mögulega munu þau einkum vera skilgreind til að verja hagsmuni ákveðinna laxeldisfyrirtækja. Það á að þvinga rekstraraðila til að aðeins einn verði á hverju smitvarnarsvæði og því verði lokið á árinu 2028. Þessi þvingunaraðgerð mun mögulega valda því að laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta/sjóða yfirtaki minni íslensk sjókvíaeldisfyrirtæki.

Útboð á nýjum svæðum

Á Vestfjörðum eru aðeins eftir Jökulfirðir og á Austfjörðum Mjóifjörður og Norðfjarðarflói. Í nýlegu strandsvæðaskipulagi fyrir landshlutana er ekki gert ráð fyrir fiskeldi í Norðfjarðarflóa og Jökulfjörðum og er þá Mjóifjörður einn eftir til að bjóða út. Í Mjóafirði mun líklega fylgja 5.000-10.000 tonna hámarkslífmassi og fjörðurinn skilgreindur eitt smitvarnarsvæði. Raunhæft mat er að aðeins Ice Fish Farm muni bjóða í Mjóafjörð. Nýtt félag þarf a.m.k. tvö smitvarnarsvæði til að verða rekstrarhæft og óhagkvæmt er fyrir fyrirtæki á Vestfjörðum að vera með eldi á Austfjörðum aðeins með eitt smitvarnarsvæði.

Útboð á ónýttum heimildum

Á Austfjörðum er um 8.000 tonna lífmassi til ráðstöfunar í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði og þar getur aðeins Ice Fish Farm tekið þátt í útboði og því engin samkeppni. Á Vestfjörðum er tæplega 10.000 tonna lífmassi í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði sem hægt er að bjóða út. Í Arnarfirði geta aðeins Arctic Fish og Arnarlax boðið í heimildirnar. Félögin hafa gert ýmiskonar samkomulag sín á milli til að tryggja og styrkja stöðu sína. Kann svo að vera að sama verði við útboð heimilda og þannig engin samkeppni. Í Ísafjarðardjúpi geta fjögur fyrirtæki boðið í heimildir; Arnarlax, Arctic Fish, Hábrún og Háafell. Ísafjarðardjúp er því í raun eina svæðið þar sem hugsanlega getur átt sér stað raunveruleg samkeppni.

Einn í útboði

Með rannsóknum í framtíðinni verður lagt mat á hámarkslífmassa á hverju smitvarnarsvæði og sú staða getur komið upp að hægt verði að auka heimildir. Á hverju smitvarnarsvæði er gert ráð fyrir aðeins einum rekstraraðila sem getur þá stjórnað því hve mikið er greitt. Stjórnvald getur vissulega farið þá leið að setja ákveðna lágmarksupphæð sem á að greiða fyrir hvert tonn af aukningu í hámarkslífmassa rekstrarleyfishafa, en það er ekki sett inn í frumvarpið. Ef rekstrarleyfishafa finnist upphæðin of há og er ekki tilbúinn að greiða getur sú staða komið upp að ekki sé verið að nýta hámarkslífmassa viðkomandi smitvarnarsvæðis. Rekstrarleyfishafi á smitvarnarsvæðinu gæti einnig farið þá leið að eiga samtal við stjórnvald og pressað verð niður með stuðningi m.a. sveitarfélaga sem vilja aukin umsvif sjókvíaeldis á sínu svæði.

Að lokum

Arnarlax, Arctic Fish og Ice Fish Farm eru komin með sterka eiginfjárstöðu með því að hafa farið með félögin á erlendan hlutabréfamarkað og gert eldisleyfin að u.þ.b. 100 milljarða króna verðmætum. Fyrir auðlindina íslenskir firðir hafa félögin lítið sem ekkert greitt. Íslensku sjókvíaeldisfyrirtækin og mögulega ný íslensk félög hafa litla möguleika á að keppa við laxeldisfyrirtækin þrjú sem eru í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta/sjóða.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og vinnur hjá Sjávarútvegsþjónustunni.