Sjálfstæðisbaráttan er eilíf – á það er jafnan minnt 17. júní. Ávallt er þörf á að huga að rótunum sem gefa baráttunni kraft, þar skipta sagan og tungan mestu.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Þegar 75 ár voru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi árið 2019 var með stuðningi ríkisstjórnarinnar hleypt af stokkunum rannsóknarverkefni um ritmenningu íslenskra miðalda (RÍM). Var markmiðið að varðveita, rannsaka og miðla menningarsögu og -minjum fjögurra staða á landinu þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Þessir staðir eru Oddi á Rangárvöllum, Reykholt í Borgarfirði, Staðarhóll í Dölum og Þingeyraklaustur í Húnaþingi. Þá var stefnt að því að fleiri staðir, t.d. Viðeyjar- og Helgafellsklaustur, yrðu einnig hluti þessa verkefnis og sameiginlegs vettvangs um þessar einstöku menningarminjar þegar fram liðu stundir.

Þeir sem beittu sér fyrir verkefninu tengdu það ekki einungis 75 ára afmæli lýðveldisins heldur einnig húsi íslenskra fræða. Bygging þess var þá hafin og var húsið opnað undir nafninu Edda sumardaginn fyrsta árið 2023.

Í tengslum við verkefnið var vakið máls á því að lokamarkmið rannsóknanna yrði að ritmenning íslenskra miðalda og staðir henni tengdir kæmust á yfirlitsskrá yfir fyrirhugaðar tilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO.

RÍM-verkefnið hefur nú staðið í fimm ár. Árlega hefur verið varið fé til að styrkja árangursríkar rannsóknir undir merkjum þess í umsýslu Snorrastofu í Reykholti. Rannsóknirnar hafa verið þverfaglegar m.a. á sviði fornleifafræði, sagnfræði, handritafræði, textafræði og bókmenntafræði.

Fullyrt skal að rannsóknir af þessu tagi á menningarlegum miðaldarótum þjóðarinnar skerpi sjálfsmynd hennar og styrki hana. Skiptir það miklu á tímum þegar jafnframt er talið brýnt að ná út á jaðrana í nafni fjölmenningar. Öflugir trjástofnar með djúpar rætur bera sterkar greinar sem þola verulegt álag. Þannig er því jafnframt háttað um stofn þjóðmenningar, aflvaka sjálfstæðis.

Undanfarið hefur áhorfendum ríkissjónvarpsins boðist að sjá þrjá þætti af sex sem danski sagnfræðingurinn Cecilie Nielsen gerði undir heitinu Ráðgátan um Óðin (d. Gåden om Odin). Þar leitar hún svara við spurningunni um uppruna „danska ríkisins“ og hvort Haraldur blátönn hafi lagt grunn að því með kristni á miðöldum.

Á tíma Haraldar voru aðrar hugmyndir um ríki eða þjóð á en nú á dögum. Það var ekki fyrr en að miðöldum liðnum við endurreisnina á 14. öld sem siðir og menning lögðu grunn að þjóðarvitund eins og við þekkjum hana. Löngu síðar sameinuðust Danir um sjálfsmynd sína í krafti kirkju, menningar og tungu.

Leitin í dönsku sjónvarpsþáttunum liggur um íslenska ritmenningu á miðöldum og verk Snorra Sturlusonar í Reykholti. Við það ómetanlega framlag er staðnæmst við rannsóknir á rótum vestrænnar menningar og áhrifum hennar. Íslendingar geta því auðveldlega staðsett sig í heimsmenningunni.

Í stofninum sem stendur að Íslendingum sem þjóð eru tungan og ritmálið meginstrengir. Varðstaða um þá hefur gildi fyrir aðra en þó mest fyrir okkur Íslendinga sjálfa.

Baldur Hafstað, fyrrv. prófessor í íslensku, sagði í Tungutaki hér á síðunni laugardaginn 1. júní:

„Rifjum aðeins upp: Örsmáum þrýstihóp tókst fyrir nokkrum árum að smeygja sér inn í sjálft Ríkisútvarpið, okkar helgasta vé, og fá nokkra starfsmenn þar til að taka upp mál sem enginn Íslendingur hafði talað áður. Þeir stærðu sig síðan í öðrum miðlum af þessari nýjung sinni.“

Höskuldur Þráinsson, fyrrv. prófessor í íslensku nútímamáli, varaði 10. júní á vefsíðunni Vísi við þessari nýju málnotkun eða tilraunastarfsemi sem felst í „að nota hvorugkyn fleirtölu eins og öll, sum en ekki karlkyn fleirtölu allir, sumir þegar merkingin er almenn“. Í viðvörun Höskuldar segir að fáir hafi leitt hugann að því hvaða áhrif tilraunastarfsemin geti haft: „Þarna er nefnilega verið að reyna að búa til málnotkun sem er ekki móðurmál neins, búa til tilbrigði í málinu sem eiga sér enga hliðstæðu.“

Í fyrrnefndri grein taldi Baldur Hafstað að tekist hefði að snúa vörn í sókn gegn þessu málbrölti, sem nefnt hefur verið nýlenska. Landsmönnum væri nóg boðið. Vonandi hefur hann rétt fyrir sér. Forkastanlegt er að blása á pólitískum forsendum á viðvörunarorð færustu manna, eins og gert er, og telja við hæfi að leika sér með grunn tungumálsins í sjálfu ríkisútvarpinu. Í lögum segir að ríkisútvarpið skuli leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Segja má að með ríkisútvarpinu haldi ríkið úti stofnun í anda RÍM-verkefnisins. Fyrir skattfé sé henni ætlað að skerpa vitneskju og vitund um stöðu þjóðarinnar í bráð og lengd.

Í nýlegri forsetakosningabaráttu birtist vanþekking, jafnvel frambjóðenda, á því hvaða stöðu íslenska lýðveldið valdi sér í samfélagi þjóðanna. Viti þeir sem telja sig verðuga til að sitja í forsetaembættinu ekki hvað felst í aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningnum við Bandaríkin og þátttöku í norrænu varnarsamstarfi, hvað þá með aðra?

Það er beinlínis rangt að halda því fram að Ísland sé hlutlaust af því að það er herlaust eða að herleysið leiði til þess að við eigum ekki að leggja okkar af mörkum til stuðnings Úkraínumönnum í sjálfstæðisbaráttu þeirra nema það falli alfarið að okkar hagsmunum en ekki þeirra sem þurfa á hjálpinni að halda.

Sjálfstæðisbaráttan er eilíf – á það er jafnan minnt 17. júní. Ávallt er þörf á að huga að rótunum sem gefa baráttunni kraft, þar skipta sagan og tungan mestu. Þá ber að standa vörð um landið, undanbragðalaust í liði með þeim sem verja frelsi, frið og sjálfstæði þjóða.

Gleðilega þjóðhátíð!