Lilja Björk Guðmundsdóttir
Lilja Björk Guðmundsdóttir
Í framkvæmd hafa komið upp hnökrar, enda umfangsmikill samningur, en segja má að í flestum tilvikum hafi þeir verið heimatilbúnir.

Lilja Björk Guðmundsdóttir

Fyrirsjáanleiki í starfsumhverfi fyrirtækja skiptir sköpum og leikur þar lagasetning og regluverk stórt hlutverk. Stjórnvöldum ber að leggja fram vandaðan og skýran lagatexta í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar til að sporna við réttaróvissu. Aðild Íslands að EES-samningnum kveður á um skyldu Íslands til að innleiða í löggjöf þær reglur sem samþykktar hafa verið á vettvangi EES-samstarfsins. Miklir hagsmunir eru í húfi að slík upptaka og innleiðing reglna í landsrétt sé vönduð og í samræmi við markmið EES-samningsins, að tryggja einsleitan innri markað.

Um þessar mundir er 30 ára afmæli EES-samningsins fagnað og vel við hæfi á slíkum tímamótum að rýna hvernig tekist hefur til. Óhætt er að segja að um er að ræða einn mikilvægasta viðskiptasamning sem Ísland er aðili að enda tryggir hann landi og þjóð aðgengi að innri markaðinum sem byggist á frjálsum vöruviðskiptum, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsu flæði fjármagns. Í framkvæmd hafa komið upp hnökrar, enda umfangsmikill samningur, en segja má að í flestum tilvikum hafi þeir verið heimatilbúnir.

Samtök iðnaðarins hafa um árabil verið ötul við að benda stjórnvöldum og Alþingi á tilvik þegar verið er að ganga lengra en lágmarkskröfur gera ráð fyrir, svokölluð gullhúðun, við innleiðingu á EES-regluverki í íslenskan rétt. Samtökin hafa bent á að gullhúðun dragi úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja þar sem þau standi höllum fæti gagnvart evrópskum samkeppnisaðilum. Dæmi eru um að ekki hafi verið tilgreint sérstaklega í frumvörpum hvort verið sé að innleiða Evrópugerðir eða hvort verið sé að leggja til sérstaka útfærslu sem gengur lengra en regluverkið gerir ráð fyrir. Í slíkum tilvikum getur tekið umtalsverðan tíma fyrir hagsmunaaðila að rýna hvers eðlis gullhúðunin er og skapar það aukinn kostnað og óhagræði fyrir atvinnulífið og þar með neytendur. Það er því mikið fagnaðarefni að utanríkisráðherra hafi skipað starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðun EES-reglna, sem mun kynna niðurstöður sínar á næstu dögum.

Íslenskur markaður er afar smár í alþjóðlegum samanburði. Þannig geta sérstök sjónarmið átt við um innleiðingu Evrópugerða hérlendis. Gullhúðun er ekki óheimil en gæta þarf þess að tilgreina slíkt ef svo ber undir með sérstökum rökstuðningi og ganga ekki lengra en þörf er á. Til þess að fækka hnökrum í framkvæmd þarf að hefjast handa á fyrstu stigum máls, þ.e. að rýna regluverk sem Evrópusambandið vinnur að og mun koma til með að verða innleitt hérlendis. Þar er ábyrgð stjórnvalda mikil sem og atvinnulífisins. Vegna smæðar Íslands er enn brýnna að samráð eigi sér stað til að auðkenna hagsmuni íslenskra fyrirtækja sem og almennings. Í því samhengi er mikilvægt að stjórnvöld hugi ávallt að þeim hagsmunum við innleiðingarferli og tryggi þannig að blönduð löggjöf virki sem skyldi. Til þess að svo verði þarf að nýta þær undanþágur sem samið hefur verið um í stað þess að hverfa frá þeim, huga að áhrifum tímasetningar á innleiðingu, gæta þess að ekki séu sett strangari viðurlög og að upplýsa hagsmunaaðila eins fljótt og unnt er og vekja máls á ef ástæða þykir til að gera ríkari kröfur en Evrópugerð kveður á um.

Smæð Íslands þýðir vissulega að færri hendur eru á dekki í hagsmunagæslunni ytra en á sama tíma er talsverður hraði í reglusetningum Evrópusambandsins. Vegna þessa er nauðsynlegt að stjórnvöld hugi að samráði og skilvirkni og forðist sértækar útfærslur með íþyngjandi áhrifum og kostnaðarsömum afleiðingum. Vonir eru bundnar við að skýrsla starfshópsins varpi ljósi á að hnökrar í framkvæmd eru heimatilbúnir, sem felur í sér tækifæri til að gera betur.

Höfundur er yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins.