Kristín Brynja Þorvaldsdóttir
Kristín Brynja Þorvaldsdóttir
Blóðgjafamánuður Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskólans og með það markmið að hvetja stúdenta til að gefa blóð og gerast reglulegir blóðgjafar.

Kristín Brynja Þorvaldsdóttir

Blóðgjafamánuður Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskólans og með það markmið að hvetja stúdenta að gefa blóð og gerast reglulegir blóðgjafar.

Blóðgjafamánuðurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2008 og var haldinn árlega í mars þar til fyrir nokkrum árum þegar hann lagðist í dvala. Í ár var ákveðið að taka upp þráðinn að nýju og er það Lýðheilsufélag læknanema sem stendur fyrir viðburðinum í nánu samstarfi við Blóðbankann og Blóðgjafafélag Íslands.

Í mars var efnt til keppni á milli nemendafélaga innan Háskólans þar sem stúdentar voru hvattir til að gefa blóð og safna stigum fyrir sitt nemendafélag í leiðinni. Gefin voru stig fyrir hverja blóðgjöf en einnig fyrir nýskráningar í bankann. Það nemendafélag sem stóð uppi sem sigurvegari fékk svo þann heiður að velja góðgerðarfélag og runnu allir styrkir verkefnisins óskiptir til þess félags.

Í heildina heimsóttu 110 stúdentar Blóðbankann á meðan átakið stóð yfir. 61 stúdent mætti í nýskráningarviðtal og blóðprufu og 49 komu í blóðgjöf. Í lok mánaðar hófst talning og var það Félag læknanema sem vann afgerandi sigur og fékk því að velja góðgerðarfélag til að styrkja. Tvö fyrirtæki voru styrktaraðilar verkefnisins í ár, Sjóvá og Deloitte, og runnu styrkir þeirra óskiptir til Krafts – stuðningsfélags krabbameinsveikra og aðstandenda þeirra.

Að gefa blóð er einföld athöfn sem tekur aðeins nokkrar mínútur en áhrifin eru ómetanleg og tilfinningin sem fylgir er afar góð. Þegar þú mætir í blóðgjöf tekur yndislegt starfsfólk Blóðbankans á móti þér með bros á vör og það ríkir jákvæður andi yfir staðnum þar sem allir koma saman til að láta gott af sér leiða.

Lífið er ófyrirsjáanlegt, það er aldrei að vita hvenær þú eða einstaklingur náinn þér gæti þurft á blóðgjöf að halda. Þessi stutti tími sem það tekur að gefa blóð gæti lengt líf annarra til muna.

Með því að gefa blóð getur þú haft jákvæð áhrif á aðra í kringum þig. Með því að vera fyrirmynd geturðu hvatt fjölskyldu, vini eða samstarfsfélaga til að vera með. Þetta er samfélagsverkefni sem við þurfum öll að standa saman í, þannig komumst við lengst.

Ef þú hefur aldrei gefið blóð áður þá er tækifærið núna. Gefðu blóð, bjargaðu lífi og upplifðu hversu góð tilfinning það er að gefa af sér.

Höfundur er stjórnarkona í Blóðgjafafélagi Íslands.