Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Sönnum kærleika fylgir friður. Og sönnum friði fylgir virk hlustun, skilningur, virðing og vinátta, sanngirni, réttlæti og sátt.

Sigurbjörn Þorkelsson

Kæru vinir og samferðamenn á kærleikans braut!

Hjartans þakkir fyrir hlýhug og velvild alla fyrr og síðar. Takk fyrir alla ykkar mikilvægu og dýrmætu þjónustu við lífið, höfund þess og fullkomnara, ráðgjafa þess og innblástur. Takk fyrir alla umhyggjuna, skilninginn, stuðninginn, samstöðuna og bænirnar bljúgu fyrr og síðar sem munað hefur um og sannarlega hefur ekki veitt af á oft á tíðum á harðri og grýttri grund. Ég færi ykkur sumarsins kveðju með ósegjanlegu þakklæti og hlýjum faðmlögum frá mér.

Mætti kærleikans Guð fylla ykkur öll af von sinni og lífssýn, tilgangi og sínum heilaga og góða, heilnæma og fyrirgefandi, frelsandi, fyrirgefandi og lífgefandi anda.

Sannur listamaður

Hann talaði ekki endilega oft,

en sagði þeim mun meira.

Var ekki margmáll

og þurfti ekki alltaf

að eiga síðasta orðið.

En hann ræktaði með sér

þá gefandi list

að hlusta og sjá

með hjartanu.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Guð og góðir vinir

Því þegar þú í erfiðleikum átt, upplifir vanmátt eða vonbrigði er gott að koma því í orð og finna vináttuna og samkenndina um sig streyma. Mætti því Guð og góðir vinir verða þér samferða inn í sumarsins daga og nætur sem ég bið að þið getið notið sem allra best.

Vinir á kærleikans braut

Sönnum kærleika fylgir friður. Og sönnum friði fylgir virk hlustun, skilningur, virðing og vinátta, sanngirni, réttlæti og sátt. Samhugur, umburðarlyndi, systra- og bræðralag, samstaða og fyrirgefning, eining í hug og hjarta.

Kærleikur og friður eru dýrmætar gjafir sem eiga uppsprettu sína í hjarta Guðs og við megum hvert fyrir sig og saman taka á móti og þiggja, daglega og hverja stund í auðmýkt. Kærleikans Guð gefi ykkur öllum bjarta framtíð, í Jesú nafni.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.