[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar maður liggur andvaka reikar hugurinn víða. Í nótt rifjaðist t.d. upp að ég fékk stundum bágt fyrir að ofnota hið sjálfstilvísandi fornafn maður, í skóla. Þá þurfti að umorða, manni kom þó aldrei í hug að sleppa því alveg

Tungutak

Sigurbjörg Þrastardóttir

sitronur@hotmail.com

Þegar maður liggur andvaka reikar hugurinn víða. Í nótt rifjaðist t.d. upp að ég fékk stundum bágt fyrir að ofnota hið sjálfstilvísandi fornafn maður, í skóla. Þá þurfti að umorða, manni kom þó aldrei í hug að sleppa því alveg.

Í framhaldinu datt í mig að játa, þótt aldrei sé víst of varlega farið á hálu skautunar-svelli samtímans: Ég elska orðið maður. Mér finnst kvenmaður allt í lagi, ekkert spes, mér finnst karl síðra, minnir mig á karlfausk, ungir karlar eiginlega þversögn, mér finnst kona fínt. Mér finnst ég tilheyra mönnum, nema þegar talað er um konur og menn, það er vegna þess að maður merkir stundum karlmaður og stundum manneskja í málvitund okkar sem uppi höfum verið hér um hríð. Þetta get ég allt sagt án þess að vera á móti einum né neinum, því máltilfinning er staðreynd, hefð er staðreynd og svo bætist fagurfræði við, sem er persónuleg.

Mér er minnisstæð hátíðarræða sjómannadagsins í Reykjavík í fyrra. Ræðumaðurinn, kona, tók skýrt fram að hún væri sjómaður, það væri ríkur þáttur í sjálfsmyndinni, sjómannadagurinn væri hennar og hún kvaðst myndu margsnúa sér í gröfinni ef niðurstaða framtíðar yrði að tala um t.d. sjófólk. Þetta var hennar skýra upplifun. Á móti þekki ég konur sem kveðast þreyttar á að bera titla á borð við forstöðumaður, þær samsami sig ekki. Jafn sönn upplifun.

Vissulega getur valdið misskilningi þegar orð hafa fleiri en eina merkingu, mér finnst það þó furðu sjaldan í tilvikinu maður. Við skynjum yfirleitt mjög vel hver merkingin er, og með samhengi og tón er orðið sérlega margnota.

Stefna þeirra sem vilja draga úr notkun orðsins maður byggist á upplifun þeirra sem horfa meira á merkinguna karlmaður en mannvera; karlmenn hafi jú mótað samfélagið sem málhefðin er sprottin úr. Æsingabelgir héldu reyndar að verið væri að banna orðið maður og risu upp, en þeim má virða til vorkunnar að áratugamálvitund er erfitt að breyta. Enda vandséð að þess þurfi, ef krafan er einungis umburðarlyndi. En það er ekki alveg einfalt. Þar sem hér er á ferð e.k. réttlætiskrafa, fremur en fallegt/ljótt, getur maður ekki varist því að skynja undirtexta: Jú, tala þú áfram um sjálfa þig sem mann, en ég veit að þú veist að það styrkir krumlu feðraveldisins, o.s.frv. … Og hvað á maður þá að gera?

Afstaða margra kvenna er að líta á innreið sína á öll svið karlmanna, þ.m.t. í orðaforða þeirra, sem sigur – það að konur og kvár séu formenn og þingmenn og leikmenn vikunnar sé magnaðra en þessi fremur seint fram komna fyrirhöfn að hreyfa við grónum málstoðum. Er sú upplifun síður gild?

Auðvitað hef ég (líka) áhyggjur af því að textar frá nýliðnum áratugum virki úreltir ef málið tekur þennan snúning, kannski verður þessi pistill einn af þeim, hver veit, ég vil bara benda á að við sem ekki erum karlmenn höfum á málinu mismunandi skoðanir og það má.