Ingvar Guðmundsson fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 4. febrúar 1956. Hann lést 30. maí 2024.

Foreldrar hans voru Guðmundur Ingvarsson og Ólöf Ólafsdóttir.

Jarðarför hans fór fram í kyrrþey miðvikudaginn 12. júní 2024.

Ingvar vinur minn varð bráðkvaddur í svefni aðfaranótt 30. maí. Það var óvænt högg, því þrátt fyrir nokkurn lasleika vikurnar á undan var ekkert sem benti til þess að hann væri á förum. En enginn ræður sínum næturstað. Eftir lifa góðar minningar um ógleymanlegan vin sem á einstakan hátt naut lífsins og var hamingjusamur, þrátt fyrir að lífið hafi ekki úthlutað honum tómum tromspspilum. Við leiðarlok er margs að minnast.

Ingvar hneigðist snemma til tónlistar, lék bæði á gítar og flautu og stofnaði fleiri en eina danshljómsveit sem spiluðu við góðar undirtektir. Hann samdi lög og texta og allt lífið átti tónlistin hug hans. Seinni árin skrifaði hann gjarnan stikkorð á blað, svaf á því og spilaði svo af fingrum fram það sem hugarflugið lagði honum til út frá blöðunum. Hljóðfærin voru ýmist gítar, bassi, hljómborð, flauta eða bongótrommur. Bækur og tónlistardiska átti hann í hundraðatali og notaði mikið. Stundum teiknaði hann alls kyns myndir, iðulega litríkar, í stíl við eigin karakter.

Hann veiktist af erfiðum geðsjúkdómi um tvítugsaldurinn og var af þeim sökum lengstum félagslega einangraður. Hann heimsótti Davíð bróður minn og móður okkar iðulega fyrir vestan, hlustaði á tónlist, horfði á kvikmyndir og ræddi málin yfir eldhúsborðinu. Við Ingvar fórum í bíltúra og þegar leið hans lá til Danmerkur í nám og mín til Noregs skrifuðumst við á um lífið, hvor í sínu útlandinu. Þráðurinn gisnaði um nokkurra ára bil þegar hann veiktist og flutti heim til Íslands, en þegar ég flutti heim eftir tæplega áratugar útlegð bauð hann mér í heimsókn og síðan slitnaði þráðurinn aldrei.

Við stunduðum saman bíltúra, kaffihús, listasöfn, bíó og leikhús í rúma þrjá áratugi. Alltaf vorum við sammála um leiðar- og staðarval, sem og kvikmynda- og leikrita. Margar gamanmyndir og flestallar íslenskar bíómyndir sáum við, enda iðulega bæði fyndnar og rómanstískar. Leikritavalið var fjölbreytt, jafnt barna sem fullorðins, og síðast sáum við Bubba og Deleríum Búbónis á fjölunum, enda tónlist þar í hávegum höfð.

Ingvar fylgdist vel með, ekki síst því sem efst var á baugi á hverjum tíma, sem og linnulitlu heimshornaflakkinu á mér. Gegnum víðáttur veraldarvefjarins fylgdist hann með tónlist víða um heim, ekki síst tónleikahaldi. Hann var ófeiminn og heilsuðum við gjarnan upp á aðra gesti heimsóknarstaða okkar og er eftirminnilegt sumt heiðursfólk úr þeim hópi, bæði starfsfólk og gestir, sem sýndu elskulegheit og gott viðmót.

Starfsfólki þeirra stofnana sem voru heimili hans um áratugaskeið er þökkuð fórnfús og elskuleg þjónusta. Á engan er hallað þótt starfsfólki Markarinnar sé sérstaklega þakkað fyrir að skapa honum heimilið þar sem honum leið best.

Ingvar verður okkur mörgum ógleymanlegur og góðar minningar munu lifa með okkur um ókomna tíð. Aðstandendum hans sendum við Hrefna mín innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning góðs drengs.

Kristján Þ. Davíðsson