Sigurður Eiríkur Aðalsteinsson fæddist 19. maí 1953. Hann lést 25. maí 2024.

Útförin hans fór fram 4. júní 2024.

Gamli.

Það að við þurfum að halda lífinu áfram án þín! Það er alveg galið.

Þessi stuttu og ósanngjörnu veikindi, þegar loksins átti að fara að lifa lífinu. Við áttum eftir að gera svo margt.

Hvernig í ósköpunum eigum við og krakkarnir að vera án þín. Þú vast afi í 100% starfi! Þú náðir í þau út um allt sama hvað og hvenær það var. Skaust með nesti handa þeim ef þau þurftu að taka tvöfalda æfingu. Þú gerðir alltaf allt fyrir þau. Svarið þeirra var alltaf: Ég hringi bara í afa. Þú ert afinn sem réttir ekki skjá að börnunum.

Þú vast afinn sem fórst með þau út í bílskúr að tálga sverð, búa til báta eða gera eitthvað úr grjóti og þú gafst þeim allan þinn tíma alltaf!

Þau voru öll svo hænd af þér og vildu alltaf fara til afa að brasa.

Þegar þú gafst Arnþóri Inga allt úrasafnið þitt, og mömmur hér í bæ að senda á mig og spyrja hvort það geti staðist að sonur minn hafi verið að gefa þeim armbandsúr. Ég hringdi í þig og bað þig vinsamlegt að hætta að senda drenginn heim með dót og drasl því hér væri nóg til af því. Þetta þótti þér mjög fyndið.

Þegar við vorum að spila Kana og þú sagðir Kani og það stóðst ekki… Er ekki enn búin að jafna mig. Tánaglasagan mun aldrei gleymast, Siggi segir hana oft í partíum með mjög leikrænum hætti við mikil hlátrasköll.

Gamli hvernig eigum við að gera þetta án þín! Þú vast í mínu lífi í 18 ár, og vorum við miklir mátar. Þvílíkt og annað eins gæðablóð sem þú vast. Það verður erfitt fyrir okkur að finna taktinn aftur, við pössum uppá Ernu.

Vona að þú fylgist með okkur öllum.

Gamli

Í hjartað berðu birtu inn

og von sem vill ei víkja.

Eitthvað fallegt í þér finn,

engum við að líkja.

Takk fyrir stuðning og styrk þinn mikla,

Sterk ég horfi framtíðar til.

Þú sýnir mér lífið sem ótal lykla

Sem ganga að hverjum þeim lás sem ég vil.

Þú ert bara þannig maður

Þú ert bara þannig sál

Þú ert aldrei með neitt þvaður

Þú meinar allt þitt mál.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um
gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku tengdapabbi minn.

Góða ferð gamli minn.

Ávallt saknað og aldrei gleymdur.

Þín tengdadóttir,

Hulda Björk.