Sveinbjörg G. Ingimundardóttir, Bagga á Læk, fæddist á Melhól í Meðallandi í Vestur-Skaftafellsýslu 2. janúar 1931. Hún andaðist á dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 5. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Ingimundur Sveinsson, f. 1893, d. 1982, og Valgerður Ingibergsdóttir, f. 1905, d. 1994. Systkini hennar voru Guðjón, f. 1927, d. 2017, Guðlaugur Árni, f. 1935, d. 2017, og Bergur, f. 1942.

Sveinbjörg giftist Ólafi Jóni Jónssyni 25. janúar 1953. Ólafur var fæddur á Teygingalæk 2. nóvember 1927 og lést 28. júlí 2018. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, f. 1884, d. 1961, og Guðríður Auðunsdóttir, f. 1887, d. 1975.

Börn Sveinbjargar og Ólafs eru: 1) Valgeir Ingi, f. 1952, kvæntur Kristínu Anný Jónsdóttur, f. 1958. Börn Valgeirs eru Helga Berglind, f. 1974. Hennar börn eru Kristján Máni, f. 2002, og Soffía Hrönn, f. 2008. Jón Ómar, f. 1991. Maki hans er Margrét Helgadóttir, f. 1992. Börn þeirra eru Hafþór Helgi, f. 2021, og Birna Marín, f. 2023. Ólafur Jón, f. 1994. Maki hans er Harpa Lind Ólafsdóttir, f. 1994. Börn þeirra eru Ljósunn Arna, f. 2019, og Brynjar Logi, f. 2023. Vigdís Björg, f. 1997. Maki hennar er Hrólfur Geir Björgvinsson, f. 1994. Þeirra börn eru Gabríel Ingi, f. 2019, og Vordís Hanna, f. 2024. Stjúpbörn Valgeirs eru Ómar Örn, Anna Kristín og Tómas. 2) Margrét, f. 1954, er gift Inga Kristni Magnússyni, f. 1955. Börn Margrétar eru Rúna Björk, f. 1972. Börn hennar eru Smári, f. 1992, og Sigrún Margrét, f. 2003. Maki Smára er Anna Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1993, og barn þeirra er Harpa Rún, f. 2022. Arnheiður Björg, f. 1978. Maki hennar er Thomas Hansen, f. 1971. Börn Arnheiðar eru Margrét Lilja, f. 1996, og Ægir Þór, f. 2001. IngaRut, f. 1986. Maki hennar er Karl Andrésson, f. 1986. Börn þeirra eru Hafrún Mía, f. 2010, Eldey Myrra, f. 2012, og Kolbeinn Kári, f. 2015.

Sveinbjörg ólst upp á Melhól í Meðallandi hjá foreldrum sínum. Hún gekk í barnaskóla í Efri-Ey og síðan tók skóli lífsins við. Hún réð sig til starfa til héraðslæknisins sem þá var á Breiðabólsstað og sinnti þar ýmsum störfum sem féllu til á stóru heimili. Haustið 1951 réð hún sig sem vinnukonu á Teygingarlæk sem síðan endaði í hjónabandi þeirra Ólafs. Bjuggu þau myndarbúi á Læk alla tíð. Árið 2000 hættu þau hefðbundnum búskap og fluttu aðsetur sitt á Kirkjubæjarklaustur en héldu þó áfram að sinna jörðinni og hófu skógrækt. Jafnframt bústörfum og öðrum heimilisstörfum var hún virk í félagsstarfi sveitarinnar, m.a. kvenfélaginu sem hún starfaði í alla tíð og gegndi formennsku þar um tíma.

Sveinbjörg var mikil handavinnukona og prjónaði hún ófáar lopapeysurnar, vettlingana og sokka sem afkomendur og fleiri nutu um dagana. Einnig saumaði hún mikið og lék allt í höndunum á henni. Þá málaði hún á léreft og dundaði sér við að tálga fugla sem voru í sérstöku uppáhaldi hjá henni.

Útför Sveinbjargar fer fram frá Prestbakkakirkju á Síðu í dag, 18. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku besta mamman mín.

Nú hefur þú yfirgefið þessa jarðvist og ert komin á betri stað. Lokaspretturinn var þér erfiður en við börnin þín stóðum við hlið þér eins og við gátum. Ég minnist góðra æskuára þar sem þú varst alltaf til staðar fyrir mig. Einnig varstu alltaf til staðar fyrir dætur mínar sem dvöldu löngum stundum í sveitinni hjá ykkur pabba. Ég skil stundum ekki hvernig þú fórst að því að gera allt sem þú gerðir á hverjum degi enda var vinnudagurinn oft langur.

Árið 1951 réðst þú þig sem ráðskona að Teygingalæk sem síðan endaði með giftingu ykkar pabba. Þar bjugguð þið allt til ársins 2000, þegar þið fluttuð aðsetur ykkar á Klaustur. Lengst af voruð þið með hefðbundinn búskap, bæði kýr og kindur, sem þú sinntir af alúð eins og öllu öðru sem þú tókst þér fyrir hendur. Þegar þið síðan hættuð í hefðbundnum búskap og fluttuð aðsetur ykkar á Klaustur hélduð þið samt áfram að sinna jörðinni og hófuð umfangsmikla skógrækt. Síðustu þrjú árin dvaldir þú á Hjúkrunarheimilinu Klausturhólum.

Þú varst mikill dýravinur og hændust öll dýr að þér. Sérstaklega þótti þér vænt um fuglana og einkum tjaldinn sem át nánast úr lófa þínum. Gott var því að heyra tjaldinn tísta fyrir utan gluggann hjá þér þegar þú varst orðin mjög veik og einnig heyrðir þú þá í maríuerlunni sem var að flögra þar líka.

Þú varst mikil handavinnukona og prjónaðir ógrynni af lopapeysum sem afkomendur og aðrir nutu góðs af, þá var alltaf til nóg af vettlingum og sokkum fyrir alla. Allur saumaskapur lék í höndum þér og þurftir þú oft ekki einu sinni snið heldur klipptir bara efnið til. Seinna, þegar ekki þurfti að sauma eins mikið á okkur krakkana, þá fórstu að mála á léreft og steina og svo að tálga fugla úr við úr skóginum.

Elsku mamma með stóra hjartað, takk fyrir alla umhyggjuna og ástina, öll símtölin og allt sem við höfum átt saman. Ég er þakklát fyrir að hafa átt þig að í 70 ár. Langar til að kveðja þig með bænunum sem þú fórst alltaf með fyrir mig þegar var lítil og var að fara að sofa.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson í Presthólum)

Guð geymi þig elsku mamma mín.

Þín

Margrét (Magga).

Elsku amma.

Þrátt fyrir fjarlægðina var nærvera þín alltaf stór hluti af mínu lífi. Þú skrifaðir mér bréf þegar ég var yngri, sendir pakka fyrir jólin fullan af brúnkökum, sultukökum og pökkum sem á stóð „má opna strax“ með hlýjum vettlingum og sokkum. Þegar ég varð eldri urðu símtölin lengri, hláturinn meiri, þú mundir alla afmælisdaga, alla viðburði og barst ómælda umhyggju fyrir fjölskyldunni þinni.

Allir voru velkomnir til þín og veittir þú öllum skjól sem vildu. Þú tókst fólki eins og það var og reyndir ekki að breyta því. Það er eitthvað gott í öllum. Þér þótti vænt um dýrin stór og smá, sérstaklega fuglana þína. Tjaldurinn mun alltaf minna mig á þig.

Flestar minningarnar koma frá dvöl minni í sveitinni með þér. Keyra um á Land Rovernum og leita að afvelta kindum. Þú varst fim að stökkva upp á húddið eða jafnvel þakið til að sjá betur yfir með kíkinum. Tína ber í hrauninu, taka upp gulrætur sem voru skolaðar í læknum og borðaðar með moldinni á, skera rabarbarann og borða með sykri. Fara í kaupstað og stemma af strimilinn þegar heim var komið. Sitja í eldhúsinu yfir kleinubakstrinum, pönnukökum og flatkökunum, hengja þvottinn út á snúru og strauja þvottapokana. Eitt sinn sátum við saman í hlöðunni og biðum eftir næsta heyvagni. Ég æpi upp yfir mig að það sé könguló í hárinu á þér. Þú varst sallaróleg og taldir það nú ekki tiltökumál; hún spinnur þá kannski meira hár.

Þú kenndir mér kvæði og vísur og uppáhalds var hann Kiddi á Ósi sem þú söngst með tilþrifum sérstaklega þegar nefið varð flatt og aumur var rassinn. Ég var matvandur krakki og þú hafðir áhyggjur af því að ég borðaði ekki allan mat. Þú reyndir iðulega að koma ofan í mig mjólkurvörunum, púðursykri með smá súrmjólk, og sagðir mér ævintýrið af Grámanni í Garðshorni. Það mátti vart sjá hvorri okkar fannst fyndnara þegar kom að því í sögunni að Grámann hellti graut í rúm konungshjónanna og drottning hélt að kóngur hefði gert í rúmið.

Þú umvafðir börnin mín ást og umhyggju, gantaðist með þeim, kenndir þeim að spila og hjálpa kaplinum, prjóna og sýndir lífi þeirra áhuga. Flottari fyrirmynd og fallegri sál er vandfundin.

Það er sárt að fá aldrei aftur faðmlag þitt, finna vinnuhendurnar á kinnum mínum, heyra þig biðja guð að geyma mig, finna ömmulyktina, mjúku kinnarnar, litlu holuna í hálsinum og litlu hrukkurnar undir framhandleggjunum. Hláturinn okkar geymi ég í hjartanu og leyfi honum að fylgja mér mína ævidaga. Guð geymi þig elsku amma.

Inga Rut Ingadóttir.

Elsku fallega amma.

Mikið er skrýtið að geta ekki knúsað þig, hlegið með þér eða hringt í þig aftur. Þú vissir það sjálf að þinn tími með okkur væri að styttast og gátum við því kvatt hvor aðra vel. Við töluðum oft saman um hvað okkur þótti hvorri um aðra og vissir þú því vel hvers mikils virði þú ert mér. Þó þú hafir átt erfitt með að taka hrósi og góðyrðum sem þér voru veitt varst þú ófeimin við að hrósa öðrum og tala um hvað þú værir heppin með fólkið þitt.

Gabríel var heppinn að geta kynnst því sjálfur hve gott var að koma til þín og hlakkaði alltaf mikið til þess. Vordís mun kynnast þér í gegnum sögur sem við segjum henni en mikið þykir mér dýrmætt að þið hittust áður en þú kvaddir.

Þó að missirinn sé sár sitja eftir margar hlýjar minningar sem fylla hjartað. Margar minningar sem barn fyrir austan. Ýmist með þér inni í eldhúsi að tálga eða ykkur afa að planta trjám á Læk. Ég gleymi því ekki þegar við vorum að gróðursetja tré og það steyptist að þér kría en þú rakst hana í burtu eins og ekkert væri. Þarna horfði ég á þig og hugsaði með mér hvað amma mín væri hugrökk að hafa mætt kríunni í stað þess að hlaupa í burtu.

Margar minningar á ég einnig sem unglingur. Frá þeim tíma sem ég vann fyrir austan og bjó hjá ykkur. Mikið leið mér vel hjá ykkur og fannst mér ég alltaf vera velkomin. Allar dýrmætu samverustundirnar sem ég hef átt með þér á mínum fullorðinsárum eru ekki síst ofarlega í minni. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem ég hef fengið með þér. Þú kenndir mér svo margt. Þá á ég ekki bara við um hlutlæga þætti eins og að elda bleikju, baka, leggja kapal og prjóna, heldur einnig þætti hvað varðar hugsunarhátt, hvernig maður kemur fram við aðra og viðhorf til lífsins. Að lifa lífinu af miklu æðruleysi og að gleðjast yfir því sem hægt er að gleðjast yfir. Oftast var stutt í hlátur hjá þér og þótti mér alltaf jafn gaman að heyra þig segja frá einhverju fyndnu sem hefði gerst en það var engin leið að skilja það sem þú sagðir því þú hlóst ofan í eigin orð. Sem varð til þess að meira var hlegið og enn erfiðara að skilja orðin.

Þú varst mikill vinur vina þinna, hvort sem það voru menn eða dýr. Þú hugsaðir vel um alla fuglana sem komu á pallinn og áttir einstakt samband við tjaldinn þinn. Einnig var matarástin á milli þín og Míu einstök. Þú tókst alltaf frá matarbita til að lauma niður af borðinu til hennar þar sem hún sat þétt upp við þig og beið.

Þú talaðir við plöntur í von um að fá fallegri blóm og betri ber. Þú sagðir að þó það væri kjánalegt værir þú ekki frá því að plönturnar döfnuðu betur. Hlóst svo að því þegar ég sagði að þeim veitti ekkert af því að hafa einhvern skemmtilegan til að tala við.

Það er engin eins og þú. Þú hefur verið mér stoð og stytta þegar erfiðleikar bjáta á. Hvatt mig áfram í þeim ákvörðunum sem ég hef tekið. Verið mikil vinkona mín í gegnum árin og mín helsta fyrirmynd.

Húmorinn þinn, hlýja hjartað og sýn þín á lífið situr eftir í hjörtum okkar sem eftir erum. Takk elsku amma.

Minning þín er ljós í lífi okkar.

Guð geymi þig.

Vigdís Björg.

Í dag fylgi ég elsku ömmu síðasta spölinn, nú er hún komin í Sumarlandið til afa og þau sameinuð á ný.

Amma var alveg einstakur karakter, hún var alltaf glöð, sá alltaf björtu hliðarnar og kunni að samgleðjast. Hún var hreinskilin og kom alltaf til dyranna eins og hún var klædd.

Hún tókst á við lífið af miklu æðruleysi og með báða fætur á jörðinni. Raunsæ og raungóð.

Hún hafði einnig gaman af því að fíflast og í raun krafðist þess að maður fíflaðist á móti við hana. Að láta ömmu hlæja var svo gaman, því hún hló alltaf að vitleysunni í manni.

Ég á margar góðar minningar úr barnæsku þegar ég fékk að gista hjá ömmu og afa á Læk, það var alltaf gaman. Amma leyfði oftast allt en afi var aðeins strangari (að okkur frænkunum fannst). Það sem amma nennti að leyfa okkur að brasa, það var stundum alveg ótrúlegt. Bara til dæmis að leyfa okkur að vera með búið á tröppunum, með tilheyrandi drasli og drullumalli.

Ég sagði ömmu alltaf allt og það var heldur betur hægt að treysta henni fyrir leyndarmálum, hún sagði alltaf að ef henni væri sagt að þegja yfir einhverju þá myndi hún ekki orða það við nokkurn mann, en ef það fylgdi ekki sögunni að hún mætti ekki segja frá þá sagðist hún ekki geta verið viss um að hún talaði ekki um það.

Amma var alltaf jafn hissa hvað við ættingjarnir nenntum að koma austur og heimsækja hana. Ég sagði nú alltaf við hana að það væri nú hún sjálf sem væri búin að leggja inn fyrir þessu með sinni hlýju, væntumþykju og skemmtilegheitum. Enda fórum við ekki til ömmu bara af skyldurækni, heldur einungis af því að okkur langaði virkilega til að hitta hana.

Að ná að koma austur og kveðja hana nokkrum dögum fyrir andlát var svo ómetanlegt og er ég svo óendanlega þakklát fyrir það og að ná að spjalla við hana því hún var alveg með á nótunum eins og hún var alla tíð. Hún reyndi að stappa í okkur stálinu og sagði þetta yrði allt í lagi, hún væri búin að eiga langt og gott líf. Ég held að það hafi líka verið gott fyrir hana að fá að kveðja okkur öll á þennan hátt. Hún passaði nú samt upp á að enginn skyldi fara án þess að skrifa í gestabókina, já það var enginn eins og amma.

Hún var sannarlega mín fyrirmynd í lífinu og vonandi hef ég erft eitthvað af eiginleikum hennar eða næ að læra að tileinka mér þá.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Takk fyrir allt elsku amma, það verður tómlegt að koma á Klaustur og þú ert ekki þar.

Þín

Helga Berglind.

Elsku besta amma í heimi er nú fallin frá, þegar ég hugsa um þig þá fyllist hjartað mitt af gleði, væntumþykju og ást. Mér leið alltaf vel í kringum þig, það var alltaf stutt í brosið og grínið sem gerði þig svo einstaka. Þú hafðir mikið gaman af því að láta fíflast í þér, sem mér þótti nú ekki leiðinlegt, enda var mikið grín og gaman þegar við komum saman. Mér er minnisstætt þegar þú varst að baka pönnukökur og baðst mig að horfa eftir hversu mikið magn af vanilludropum þú myndir setja í, þú byrjaðir að hella úr glasinu og ég fór að hlæja, þá hættir þú og spurðir mig hvort þú hefðir sett of mikið, sem ég svaraði neitandi og sagði þér bara að setja smá meira, þú byrjaðir að hella aftur úr glasinu þangað til ég sprakk úr hlátri, þá sagðir þú, ah, setti ég of mikið núna? En þá spurði ég þig hvort þú værir alveg búin að missa sjónina því glasið væri búið að vera tómt allan tímann. Ég reyndar fékk ekki svar við því hversu lengi þú notaðir þetta tóma glas við bakstur.

Það var notalegt að geta komið og kvatt þig áður en kallið kom. Núna skrifa ég síðustu kveðjuna í þína gestabók með sorg í hjarta. Síðasta sem ég sagði við þig var að við sjáumst í sumar en það verður að vera í Sumarlandinu.

Takk fyrir allt elsku amma, þangað til næst,

Jón Ómar Valgeirsson.

Ég bjó hjá ömmu í tvö ár þegar ég var smábarn og varði eftir það öllum sumarfríum og páskafríum í sveitinni hjá henni. Vegna þessa hefur mér alltaf fundist amma vera bæði mamma mín og amma.

Mínar bestu æskuminningar eru með ömmu. Það var alltaf mikið að gera hjá henni en hún hafði samt tíma til að hlusta, hugga og sýna ást og umhyggju. Þegar ég var lítil elti ég ömmu á röndum og vildi alltaf vera þar sem hún var. Þegar ég var smábarn var aldrei hægt að skilja mig eftir hjá öðrum svo amma varð að taka mig með í öll störf sem var örugglega mjög erfitt. Af þessu komu ýmsar sögur eins og þegar ég datt úr vagninum fyrir fæturna á belju í fjósinu og komst ómeidd frá. Amma sagði mér þessa sögu oft og hún var viss um að það væri vakað yfir okkur.

Allar mínar minningar um ömmu eru góðar. Ég man þegar ég hjálpaði henni að ná lambi úr kind sem lenti í vandræðum í fæðingu, þegar ég sat í eldhúsinu meðan hún steikti flatkökur og fékk heita köku með rabarbarasultu, þegar ég sneri við kleinum og amma steikti, þegar við reyttum arfa í matjurtagarðinum, þegar við fórum að tína ber í hrauninu, þegar hún tók á móti mér úr rútunni hjá brúsapallinum, þegar hún gaf mér grænkál með sykri og fleira og fleira.

Amma hafði eitthvað fallegt að segja um allt og alla og hún sagði alltaf að það væri eitthvað gott í öllum. Hún var besta amma sem hægt er að hugsa sér og ég er þakklát fyrir að hafa átt hana að í rúmlega 51 ár.

Elsku amma, takk fyrir allt, ég sakna þín og geymi allar minningarnar um þig í hjartanu.

Guð geymi þig.

Rúna.

Elsku amma mín.

Mikið mun ég sakna þín, hlýjunnar þinnar, hlátursins og samræðnanna. Ég er viss um að afi hafi tekið vel á móti þér.

Það sem ég er heppin að hafa fengið að hafa (lang)ömmu mína langt fram á þrítugsaldur. Ennþá heppnari er ég að hafa fengið að eyða heilu sumrunum hjá henni og afa. Við vorum nánar og mun ég að eilífu vera þakklát fyrir það.

Amma kenndi mér svo margt, meðal annars jákvæðni, bjartsýni, hreinskilni og að það kostar ekkert að vera góð við náungann. Hún var með mikinn húmor, einnig fyrir sjálfri sér, og átti það til að vera stríðin – þó aldrei þannig að það særði.

Amma var góð í gegn. Heiðarleg og hlý. Söknuðurinn er gríðarlegur en ég veit að hvar sem hún er þá passar hún upp á fólkið sitt.

Takk fyrir allt elsku amma.

Kveðja til ömmu

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlést okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Margrét Lilja

Aðalsteinsdóttir.

Kynslóðir koma, kynslóðir fara,

allar sömu ævigöng.

Gleymist þó aldrei eilífa lagið

við pílagrímsins gleðisöng.

(Matthías Jochumsson)

Þessi sönnu og áhrifamiklu orð Mattíasar Jochumssonar koma í huga mér er ég skrifa þessar línur til minningar um yndislegu frænku mína. Hún kvaddi þennan heim í faðmi fjalla og fallegrar náttúru á Hjúkrunarheimilinu Klausturhólum 5. júní síðastliðinn.

Alla ævi sína bjó Bagga, eins hún var oftast kölluð, í Vestur-Skaftafellssýslu, fyrst í Meðallandi þar sem hún ólst upp með systkinum sínum, pabba, Bergi og Árna auk Sveinbjörns sem var fósturbróðir þeirra.

Seinna flutti hún á Teygingalæk þar sem hún og maðurinn hennar Ólafur Jónsson voru með myndarlegan búskap í mörg ár. Eftir að hefðbundnum búskap lauk gerðust þau skógræktarbændur og plöntuðu trjám af miklum dugnaði.

Sveinbjörg eða Bagga hafði ljúfa lund og okkur kom vel saman. Þegar ég var 12 ára langaði mig að fara í sveit til Óla og Böggu. Það voru margar ástæður fyrir sveitarlöngun minni. Brennandi bílaáhuginn var þegar kominn í mig og sá ég í hillingum hvað það væri gaman að fá að keyra dráttarvél. En sjálfsagt var það líka stór ástæða að geta hitt föðurömmu mína og afa. Hún og afi fluttu á Teygingalæk eftir að þau hættu búskap á Melhól í Meðallandi.

Bagga hafði gaman af mér og hugsaði vel um mig. Henni þótti það skemmtilegt hversu glaðlyndur ég var þótt hún vissi að ég væri ekki sérlega hrifinn af því að moka kindaskít úr fjárhúsinu. Ég hugsaði bara um hvenær ég fengi að keyra dráttarvél þar sem ég var frekar hávaxinn miðað við aldur. Óli og Bagga hugsuðu vel um drenginn mig og það var gaman að prófa sveitalífið.

Bagga og Óli elskuðu fjölskyldu sína. Það sást langar leiðir. Það var mikið áfall fyrir Böggu þegar Óli féll skyndilega frá. Hann hafði verið með eindæmum hraustur. Þrátt fyrir söknuðinn bar Bagga sig vel. Það var alltaf stutt í brosið og kímnigáfuna.

Við pabbi fórum nokkrum sinnum í heimsókn til þeirra á Kirkjubæjarklaustri. Ávallt fengum við hlýlegar móttökur. Síðar þegar Anna var komin inn í líf mitt fórum við í heimsókn til þeirra, og síðar til hennar þegar Óli var fallinn frá. Síðasta heimsókn mín og Önnu til hennar var fyrir u.þ.b tveimur árum. Hún var ánægð og þakklát að vera komin inn á Klausturhóla þar sem var hugsað vel um hana

Þegar ég fékk sms-skilaboð frá Möggu dóttur hennar um að hún væri látin fylltist hugurinn ljúfum minningum um frábæra konu sem var svo mikil blessun til allra sem á vegi hennar urðu. Hún gerði gott úr öllu og sá alltaf björtu hliðarnar á tilverunni.

Orð Salómons konungs sem er að finna i Orðskviðunum, 16. kafla, versi 24, eiga svo vel við Böggu: „Vingjarnleg orð eru hunang, sæt fyrir góminn, lækning fyrir beinin.“

Ég get ekki komið tölu á öll þau vingjarnlegu orð sem hún hefur gefið samferðamönnum sínum á 93 árum. Á þeim tíma hafa mörg bein verið læknuð.

Með þessum fátæklegu minningarorðum kveð ég yndislegu frænku mína.

Guð blessi minningu hennar.

Stefán Ingi Guðjónsson.

Bagga, eins og hún var alltaf kölluð, var einstök kona, það má segja að hún hafi gert lífið betra og skemmtilegra fyrir alla þá sem umgengust hana. Ég var í sveit hjá Óla og Böggu á Teygingalæk í fjögur ár, frá 1973 til 1976, þetta var frábær tími fyrir ungan dreng. Á Læk kynntist maður gestrisni sem á engan sinn líka, alltaf pláss fyrir alla við matarborðið eða til að gista, allir boðnir velkomnir, sama hvaða stöðu þeir höfðu í þjóðfélaginu, háir sem lágir, komu af Kleppi eða fullir, sama fyrir alla; virðing, væntumþykja og léttleiki.

Bagga var mjög hreinskilin, hún kom öllu svo vel frá sér og gat sagt allt án þess að særa nokkurn, aldrei heyrði ég hana tala illa um nokkurn mann, hún reyndi að draga það besta fram í öllum. Þegar ég var á Læk notaði Bagga alltaf einn dag í viku til að baka og þvílíkar kræsingar sem við fengum að njóta, allt bakkelsi og matur heimagert, þvílík veisla alla daga að ég hef aldrei séð annað eins.

Eftir að ég var í sveit á Læk fór ég minnst einu sinni á ári að heimsækja Óla og Böggu, alltaf fékk maður hlýtt faðmlag og fann hvað maður var innilega velkominn og þeim þótti gaman að sjá mann. Við Bagga töluðum reglulega saman í síma og oft var mikið hlegið.

Ég vil enda þetta á að þakka veru mína á Læk og allar þær yndislegu stundir sem Bagga gaf mér. Þótt Bagga sé dáin lifir minning um góða konu. Takk fyrir mig, Bagga.

Þorvarður.