Inga Þórhildur Jónsdóttir fæddist 12. október 1929. Hún lést 11. maí 2024.

Útför hennar fór fram 23. maí 2024.

Nú er ástkær amma okkar fallin frá. Við eigum ófáar góðar minningar af og einnig með henni. Við áttum ógleymanlegar stundir með henni þar sem hún bjó í Hnífsdal. Við fórum með henni í göngutúra meðfram ánni, kíktum á Ísafjörð, fórum í bókabúðina og enduðum á því að fara í Gamla bakaríið þar sem við fengum okkur bakkelsi. Í einni göngunni þverneituðum við systur að fara á klósettið áður en við legðum af stað sem endaði með því að við komum heim í blautum buxum. Þegar mamma og pabbi keyrðu svo inn á hlað sáu þau þrennar sokkabuxur hanga á snúrunni.

Hún var alla tíð áhugasöm og fylgdist vel með því sem gekk á í okkar lífi. Henni var mjög annt um heilsu okkar og velferð og passaði alltaf að við fengjum nóg að borða. Amma var mikill sælkeri og átti alltaf ógrynni af alls konar gotti sem hún heimtaði að við hjálpuðum henni að borða. Hún hafði líka mjög sterkar skoðanir á kaffi og vildi sko ekkert „Pálshúss-piss“ eins og hún kallaði það en við systurnar virtumst ekki geta lagað neitt annað en það.

Védís minnist þess þegar hún fór með ömmu ásamt litlu föruneyti að Gilsbrekku, þar sem hún ólst upp að hluta til. Áður en bíllinn hafði stansað reif hún sig úr sætisbeltinu, en það var ansi algengt að hún gerði það, opnaði dyrnar og rauk af stað út í móa. Amma var með tilþrif á við fjallageit hvernig hún hoppaði á milli steinanna og náði enginn að halda í við hana. Hún var á níræðisaldri á þessum tíma en það var eins og vestfirskra loftið gæfi henni aukna orku. Þegar hún loksins stoppaði lagðist hún í faðmlag við stóran stein og hvíslaði að honum, en hún var að tala við huldufólkið sem hún vingaðist við í æsku.

Amma var sjálfstæð kona og bjó ein í Sóltúninu þar til hún var orðin 94 ára. Hún fékk heimilisþrif og átti það til að laga aðeins til áður en þær kæmu og passaði upp á að eiga fyrir þær djús í ísskápnum. Heilsu hennar hrakaði hratt síðastliðin tvö ár en hún passaði alltaf upp á að vera vel tilhöfð og fór reglulega í lagningu. Þegar „gemsarnir“ voru tiltölulega nýtilkomnir átti amma bleikan samlokusíma og það þótti okkur systrum alveg geggjað. Við sögðum alltaf að við ættum eina „sveitaömmu“ og eina „skvísuömmu“ en amma Inga var alltaf með puttann á púlsinum þegar kom að tísku og útliti. Hún var líka alltaf mjög tæknileg miðað við aðrar ömmur og kunni vel á tölvur. Hún kunni þó ekkert rosalega vel á sjónvarpið og ef einhver okkar systra reyndi að hjálpa henni með það sagði hún okkur að hún vildi frekar fá karlmann í verkið. Þrátt fyrir það var amma nútímakona og voru kvenréttindi henni ofarlega í huga. Það var hægt að tala við hana um allt á milli himins og jarðar og hún skildi aldrei af hverju hlutir eins og tíðamál kvenna væru svo mikið feimnismál þegar hún ólst upp, enda eðlilegasti hlutur í heimi.

Amma kom manni reglulega á óvart, hún var rosalega skemmtileg og hláturmild.

Við munum sakna hennar gífurlega.

Herdís Inga, Ásdís Ragna og Védís Fríða.