Jón Pálmi Pálmason fæddist í Reykjavík 8. mars 1958. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans Fossvogi 28. maí 2024 eftir stutt veikindi.

Foreldrar hans voru Brynhildur Sigtryggsdóttir, f. 21.9. 1932, d. 30.9. 2000, og Jón Pálmi Steingrímsson, f. 22.6. 1934, d. 16.6. 2001.

Jón Pálmi var næstelstur fjögurra systkina, hin eru: Kolbrún Dýrleif, f. 12.4. 1953, d. 24.8. 2022, Aðalsteinn Leví, f. 11.3. 1959, kvæntur Kristínu Þorsteinsdóttur og Helga Ingibjörg, f. 16.5. 1964, sambýlismaður Örn Felixson.

Börn Pálma eru tvö: 1) Hugrún Pálmey, f. 21.9. 1982, móðir Hugrún Hugadóttir, f. 12.4. 1954. Hugrún Pálmey á eina dóttur, Kristbjörgu Ósk Atladóttur, f. 9. júlí 2016. Barnsfaðir hennar er Atli Heiðar Gunnlaugsson. 2) Pálmi Ernir, f. 4.2. 1993, móðir Ásdís Erna Guðmundsdóttir, f. 17.2. 1954, d. 9.1. 2021. Hann átti eina fósturdóttur, Polinu Maríu Viktorsdóttur, f. 21.5. 2007.

Pálmi ólst upp í Kópavogi frá þriggja ára aldri. Fyrst á Sunnubraut til fimm ára og síðan á Ásbraut þar til hann var 13 ára en þá flutti fjölskyldan að Hávegi 15. Hann bjó um stundarsakir í Grundarfirði og í nokkur ár í Grafarvoginum þar sem hann byggði einbýlishús í Gerðhömrum. Síðustu árin bjó hann svo aftur í Kópavoginum í Lækjasmára 17 með smá millilendingu í Hafnarfirði.

Sem ungur drengur brallaði Pálmi margt í skúrnum við Háveg og fékkst þar við bílaviðgerðir með bróður sínum. Pálmi var sendur í sveit á sumrin norður í Húnavatnssýslu sem unglingur. Hann vann við ýmis störf framan af. Meðal annars hjá Rarik við byggðalínu á Vesturlandi og Norðurlandi, við ýmis störf. Hann vann líka hjá föður sínum við alls konar jarðvegsvinnu á tækjum svo sem gröfum, jarðýtum og þess háttar. Pálmi lærði svo vélstjórann og var mikið á sjó en síðustu árin vann hann mikið við smíðar á vélum fyrir fiskiðnaðinn og hannaði og smíðaði netafellingarvélar. Hann stofnaði fyrirtækið Iceman ehf. í kringum þessa vinnu sína sem einnig fékkst við að gera upp báta og stálsmíði á handriðum og stigum o.fl.

Pálmi var dýravinur mikill og átti nokkra hunda í gegnum tíðina, sérstaklega schäfer. Hann var einstaklega hæfileikaríkur við þjálfun hunda og gegndu þeir honum í öllu. Hann skilur eftir sig traustan vin, hann Trygg, sem er orðinn 10 ára.

Pálmi eignaðist afaprinsessu árið 2016 og áttu þau alveg einstakt samband og naut hann sín mjög í því nýja hlutverki.

Útför hans fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 18. júní 2024, klukkan 15.

Minninganna blíður blær

blæs svo geðið hlýnar.

Engin tunga túlkað fær

tilfinningar mínar.

(Steingrímur Davíðsson)

Elsku Pálmi, í dag kveðjum við þig í hinstu ferð þína.

Við kynntumst fyrir 47 árum þegar ég og Steini bróðir þinn urðum kærustupar. Í byrjun varstu ekki alltof ánægður með þessa stelpuskjátu sem var að stela bróður þínum frá þér en það varði ekki mjög lengi. Þú varst mjög hvatvís, hreinskilinn og skoðanafastur og áttu sumir erfitt með það. Þú varst ævintýragjarn og gast verið fljótfær sem kom þér stundum í koll en alltaf reistu upp aftur. Þú framkvæmdir ýmislegt sem annað fólk hefði látið ógert. Þú sýndir ekki miklar tilfinningar en ég man eins og það hefði gerst í gær þegar börnin þín komu í heiminn hvað þú varst stoltur og ekki síður þegar þú varðst afi. Þú og afastelpan áttuð alveg yndislegt samband.

Síðustu tvö árin varstu farinn að venja komur þínar til okkar Steina á laugardagsmorgnum í kaffi og Tryggur í lifrarpylsu. Mikið eigum við eftir að sakna þessara stunda. Núna síðast í mars þegar þið bræður áttuð afmæli komstu í kaffi og ekki spillti fyrir að ég var búin að baka uppáhaldstertuna ykkar, sem Steini sagði ég hefði bakað sérstaklega fyrir þig en ekki hann. Þú varst mjög glaður yfir því. Eða þegar þú mættir til okkar í júní ár hvert og tilkynntir strax úti á plani að þú værir ekki að koma í afmælið mitt heldur í afmæli pabba þíns og heimtaðir kökur og kaffi, enda áttum við tengdapabbi sama afmælisdaginn. Eða þegar þú kvartaðir yfir því að ég væri heima um helgar, af hverju í ósköpunum ég væri ekki fyrir norðan að slá gras eða dytta að hjólhýsinu þínu eða bera á húsið og svo þegar ég var fyrir norðan þegar þú komst og kvartaðir yfir því að ég væri aldrei heima. En auðvitað var þetta allt í gamni sagt.

Þú hafðir einstakt lag á dýrum og áttir hunda (Mollý, Flóki og Spori) sem þér tókst alveg sérstaklega vel upp að þjálfa og voru þeir þér miklir félagar og nú sá síðasti, Tryggur, sem skildi við þetta jarðlíf tveimur vikum eftir að þú fórst.

Ég veit að mamma þín, pabbi þinn, Kolla systir þín, Mollý, Flóki og Spori tóku á móti þér og þú svo tekið á móti Trygg.

Elsku Hugrún Pálmey, Pálmi Ernir og Kristbjörg Ósk, þið eigið stórt pláss í hjörtum okkar.

Elsku Pálmi, hvíl í friði, minning þín lifir í hjörtum okkar.

Ljúfar voru stundir

er áttum við saman.

Þakka ber Drottni

allt það gaman.

Skiljast nú leiðir

og farin ert þú.

Við hittast munum aftur,

það er mín trú.

Hvíl þú í friði

í ljósinu bjarta.

Ég kveð þig að sinni

af öllu mínu hjarta.

(Maren Jakobsdóttir)

Þín mágkona,

Kristín
Þorsteinsdóttir.