Finnur Jakob Guðsteinsson fæddist 25. febrúar 1948. Hann lést á líknardeild Landspítalans 2. júní 2024.

Athöfn á vegum Siðmenntar fer fram í Iðnó 18. júní og hefst klukkan 14.

Fyrsta minning mín um Finn Jakob bróður tengist því þegar Guðlaug systir var skírð í árslok 1949 á Víðimel 55 þar sem við áttum heima, en þá hefur Finnur verið tæplega tveggja ára. Ég er 602 dögum eldri en Finnur og hann var 602 dögum eldri en Guðlaug. Það verður að teljast mikil nákvæmni.

Mörg önnur atvik rifjast upp, s.s. þegar við bjuggum í Barðavogi 38 en fyrir ein jólin hafi pabbi keypt brauðrist sem mamma átti að fá í jólagjöf. Það vissi Finnur en gat ekki stillt sig um að hafa hafa orð á því en vegna ungs aldurs nefndi hann brauðristina „russara“. Þetta vakti mikla kátínu viðstaddra fullorðinna.

Finnur lærði að lesa ungur, og mér minnisstætt að það var ekki síst bókin „Kári litli og Lappi“ eftir Stefán Jónsson sem hann glímdi við. Guðlaug systir fylgdist með þeirri lestrarkennsku og lærði einnig að lesa án þess að mamma, kennarinn, veitti því athygli framan af.

Finni varð oft ekki orða vant þegar hann þurfti að svara fyrir sig. Í Langholtsskóla var hann eitt sinn í tíma eitthvað ódæll, þannig að Sigrún kennari lét hann fara fram á gang í refsingarskyni. Þar kom Gísli skólastjóri að honum og spurði hann af hverju hann væri þar. Finnur svari að bragði: „Við erum í leik, og ég er hann!“

Finnur fór í Menntaskólann á Akureyri og gekk námið vel, en ekki lauk námsárunum á Akureyri sem skyldi. Finni og fleiri skólabræðrum hans sinnaðist við þáverandi skólameistara MA, sem varð til þess að Finnur hvarf frá námi og hélt rakleiðis til Svíþjóðar, án þess að fjölskyldan vissi af í fyrstu. Finnur kom svo heim 1969.

Árið 1974 flytja þau Finnur og Fanney ásamt ungum syni sínum, Torfa, norður á Daðastaði í Kelduhverfi en þá höfðu þau ásamt tveimur félögum sínum, Pétri og Guðjóni, stofnað félagsbú með stórar hugmyndir um afar stórt fjárbú. Þar voru þau til ársins 1978 en þá ákváðu þeir félagar að slíta félagsbúinu. Þá flytja þau vestur að Hvilft í Önundarfirði og tóku að sér að sjá um fjarbúskap þar meðan móðurbróðir Finns, Gunnlaugur Finnsson, sat á Alþingi.

Við bræður höfðum ólíkar pólitískar skoðanir, áhugamál oft ólík, Finnur verulega vinstrisinnaður, um tíma í Æskulýðsfylkingunni og maóisti, ólíkt mér. Fylgni við íþróttafélög varð einnig ólík, en hann gerðist stuðningsmaður KR í körfubolta á seinni árum flestum að óvörum, en ég var stuðningsmaður ÍR og KA. Á fullorðinsárum tók Finnur að hlaupa sér til heilsubótar og ánægju. Ég man eftir honum taka þátt í 10 km hlaupi á menningarnótt í Reykjavík.

Nú er komið að leiðarlokum, Finnur bróðir kominn til sólarlandsins eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir illskeyttum sjúkdómi. Hugur minn og innileg samúð er hjá Fanneyju, sonunum Torfa og Oddi og þeirra fjölskyldum.

Hvíl í friði, elsku bróðir.

Geir Agnar
Guðsteinsson.

Kæri Finnur.

Sem gamall nágranni og vinkona úr Grjótaþorpinu langar mig að senda þér nokkur kveðjuorð. Ég minnist þín sem mjög skemmtilegs og yndislegs manns sem var alltaf til í að sjá spaugilegar hliðar á málunum. Þetta átti bæði við hversdagsleg mál eða alvörumál og jafnvel líka þegar aðfinnslur áttu sér stað vegna verka sem þú tókst að þér. Alltaf þetta góða, hlýja viðmót og hláturinn ógleymanlegi sem var með ótal blæbrigðum. Enginn gleymir glettninni í augunum á þér.

Nú ert þú farinn. Mér finnst þú nýlega vera búinn að drekka kaffi hjá mér, en það eru sennilega nokkur ár síðan. Við hugsuðum mikið til ykkar þegar þið fluttuð úr Grjótaþorpinu. Ykkar var alltaf sárt saknað.

Þú varst mikill heiðursmaður Finnur, ekki bara sem frábær verkmaður heldur líka sem manneskja. Þú hafðir mikla samkennd með fólki og innsæi í sálarlíf fólks. Það munu margir sakna þín en líka kannski finna fyrir vissum létti yfir að nú er meðferðum og þjáningum þínum lokið. Egill minn tekur örugglega vel á móti þér í sumarlandinu og þið haldið bara áfram að gantast og hlæja þangað til ég og Fanney komum til ykkar. Öllum ættingjum og vinum sendi ég og mín fjölskylda djúpar samúðarkveðjur.

Guðfinna Eydal.

Finnur var margt. Hann var sagnamaður af guðs náð. Líklega er þó óþarft að súta að sögur hans skuli ekki hafa verið skráðar eða hljóðritaðar. Hætt er við að botninn detti úr þeim þegar þær eru komnar á blað eða aðrir reyna að hafa þær eftir. Persónuleiki sagnameistarans er ómissandi hluti af galdrinum, uppljómað andlitið og kitlandi hláturinn fullkomna listaverkið.

Finnur var líka ástríðufullur hestamaður. Það var yndi hans að ferðast um landið á góðum hestum með góðum félögum. Þær ferðir urðu uppsprettur margra góðra sagna. En þær voru ekki bara um litríka ferðafélaga og fallegar reiðleiðir heldur ekki síður um hestana sjálfa. Hann leit ekki á hesta sem hjörð heldur safn margbreytilegra einstaklinga sem hann lagði sig fram um að kynnast og skilja. Hver hestur var sérstakur persónuleiki og Finnur var innlifaður í að skilja skapgerð og geðslag hvers um sig. Hestar áttu kröfu um að vera skildir og metnir á eigin forsendum rétt eins og mannfólkið. Finnur var hestahvíslari.

Aðalstarf Finns var endurgerð gamalla hús og sér verka hans á því sviði stað víða um land. Hann var eftirsóttur til slíkra verka, enda sannkallaður völundur. Hús voru áhugamál hans frá unga aldri og hann skynjaði líf þeirra og sál. Virðing hans fyrir góðu handverki nýju og gömlu var takmarkalaus. Af frásögnum hans mátti ráða þótt græskulausar væru að hann þurfti oft að standa fast í ístaðinu gagnvart þeim sem töldu allt sem komið var til ára sinna ónýtt og best komið á haugunum. Slík hugsun var Finni framandi. Gamalt handverk var fyrir honum ómetanlegur þáttur þjóðarsögunnar sem ber að virða og hafa í hávegum. Hann hafði líka venjulega sitt fram í sátt og naut þar óvenjulegra samskiptahæfileika sinna. Hann var þrjóskur en líka mannasættir.

Í störfum sínum sameinaði hann heimspekilega og listræna afstöðu á farsælan hátt.

Síðast en ekki síst var Finnur tryggur og ógleymanlegur félagi og vinur. Innilegar samúðarkveðjur sendum við til eiginkonu hans, sona og afabarna. Þeirra er missirinn sárastur.

Jón Guðni Kristjánsson,
Pétur Þorsteinsson.