Lilja Pálsdóttir fæddist 28. október 1955 á Skúfslæk í Villingaholtshreppi. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi 4. júní 2024 eftir hetjulega baráttu við krabbamein.

Foreldrar hennar voru þau Páll Axel Halldórsson og Halla Magnúsdóttir, bændur í Syðri-Gróf í Villingaholtshreppi. Lilja kom úr fimm barna systkinahópi. Eldri var Margrét sem er látin og yngri eru Bjarni, Guðríður Ingibjörg, látin, og Magnús Halldór.

Eiginmaður Lilju er Einar Ingi Reynisson vélstjóri og áttu þau saman sex börn, sex tengdabörn og 16 barnabörn. Börn Lilju eru: 1) Þórarinn Grettir, eiginkona hans er Margrét Rannveig Halldórsdóttir og þau eiga fjögur börn; Halldór Frey, Elísabetu Lilju, Þórdísi Birnu og Einar Ottó. 2) Óttar Reynir, eiginkona hans er Klara Jenný Sigurðardóttir og þau eiga þrjú börn; Benjamín Óliver, Anítu Ósk og Dísellu Nótt. 3) Ingunn Brynja, eiginmaður hennar er Fannar Jónsson og þau eiga tvö börn; Snædísi Birtu og Emelíu Björt. 4) Axel Páll, eiginkona hans er Elísabet Thorsteinsson og þau eiga þrjú börn; Lilju Maríu, Pál Axel og Guðmund Bjarka. 5) Hjalti, sambýliskona hans er Hanna Björk Kristjánsdóttir og þau eiga eitt barn, Sóleyju Rut, og annað á leiðinni. 6) Írena Bylgja, eiginmaður hennar er Elí Kristberg Hilmarsson og þau eiga þrjú börn; Evían Mána, Snærós Emblu og Hrafnþór Loga.

Lilja gekk í húsmæðraskólann á Laugarvatni 18 ára gömul og var það henni mikið gæfuspor. Hún festi rætur í Þorlákshöfn 1976 og bjó þar alla tíð og ól upp sín börn. Hún var fyrst um sinn heimavinnandi, svo starfaði hún við fiskvinnslu um tíð en hóf svo störf við Grunnskóla Þorlákshafnar sem skólaliði. Því starfi sinnti hún með miklu stolti í 13 ár fyrir veikindin.

Lilja verður jarðsungin frá Þorlákskirkju í dag, 19. júní 2024, klukkan 14.

Elsku hjartans mamma mín.

Mér líður eins og það hafi fallið það allra þyngsta farg sem til er ofan á hjarta mitt og brotið það í milljón hluta. Ég er búinn að vera að reyna mitt allra besta við að sópa brotunum af hjartanu upp einu af öðru. Með tárum, orðum, minningum, myndum, hlýjum hugsunum og faðmlögum en það virðist bara ekki ganga. Brotin eru bara of mörg. Ég held að ég geti aldrei komið því í orð og til skila hversu mikilvæg þú varst mér. Þú hefur verið mín allra mikilvægasta manneskja allt mitt líf, öryggisteppið mitt og ég mun aldrei fyllilega ná að kveðja þig í minningargrein eins og mér finnst þú eiga skilið og tómarúmið sem ég er að upplifa er eins og einhvers konar kviksyndi af sorg. Mér finnst það ólýsanlega ósanngjarnt að þú hafir þurft að berjast við þennan djöful svona lengi en get ekki annað en dáðst að því hvernig þú tæklaðir þetta. Þegar þú sast skælbrosandi í fundarherberginu með læknunum þegar þeir sögðu okkur að þeir ætluðu að hætta krabbameinsmeðferðinni! Því öll börnin þín og tengdabörn voru komin saman, það var miklu mikilvægara en „eitthvert bull“ í einhverjum lækni. Hvernig þú lýstist upp af gleði í hvert sinn sem maður kom til þín, sama hversu lasin, slöpp eða þreytt þú varst.

Það sem þú hefur kennt mér mun fylgja mér alla tíð, þessi endalausa þolinmæði, nægjusemi, æðruleysi, virðing, þrjóskan og þessi botnlausa auðlind af ást. Ást sem þú hefur sýnt mér og fólkinu þínu alla ævi og er hreint út sagt aðdáunarverð og smitandi. Það skein svo vel í gegn hvað þessi ást var og verður alltaf gagnkvæm þegar við eyddum síðustu dögunum sem þú áttir hérna með okkur saman. Þegar þú hafðir nánast enga orku eftir í líkamanum en notaðir allt sem þú áttir til að kreista fram „hæ“ og brostir með hlýju fallegu augunum þínum til manns. Ég er brotinn, brotinn af sorg yfir að þurfa að kveðja þig.

Ég trúi því að með tímanum nái ég að púsla hjartanu mínu saman aftur. Ég man það svo vel þegar afi dó, þá tókstu utan um mig þegar ég grét af sorg og þú sagðir við mig að þetta yrði allt í lagi, við yrðum bara að hlúa hvert að öðru og þá yrði þetta allt í lagi. Ég spurði þig hvort þú þyrftir ekki að leyfa þér að vera sorgmædd. Nei, þú þurftir að vera sterk fyrir börnin þín. Þú settir okkur alltaf framar þér og þínu. Núna er komið að mér að gera það sama við mína litlu fjölskyldu, taka utan um hana og vera sterkur fyrir þau eins og þú varst alltaf fyrir mig. Síðasta knúsið sem ég gaf þér var einmitt frá Sóleyju Rut þegar ég átti að skila til þín á spítalann að þú værir besta amman og hún elskaði þig, vonandi fylgir það þér hvert sem þú ferð með allri þeirri ást sem við erum með eyrnamerkta þér.

Ég er rosalega þakklátur fyrir þann tíma sem ég fékk með þér og þá ást sem þú gafst mér allt þitt líf. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur, við hlúum hvert að öðru fyrir þig og „hugsum vel um hann pabba þinn“ eins og þú minntir okkur alltaf á. Þú varst besta mamma, besta amma og besta manneskjan mín, ég elska þig alla eilífð og lengur.

Þinn dekurbossi,

Hjalti.

Elsku mamma mín.

Tómleikinn eftir að þú kvaddir er yfirþyrmandi. Ég vissi að veikindin væru að ágerast en vonin um aukatíma var ávallt afar sterk og skrítið hvað það er engan veginn hægt að undirbúa sig fyrir áfallið að kveðja mömmu sína. Þinn helsta aðdáanda og þann sem elskar þig alltaf skilyrðislaust. Ég verð aldrei tilbúin að kveðja þig en ég þarf að tileinka mér þitt einstaka æðruleysi og sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.

Líf okkar snerist á hvolf þegar þú veiktist skyndilega. Brekkurnar voru óteljandi sem þú þurftir að klífa en þú varst gædd svo miklum hæfileikum í að horfa á björtu hliðarnar. Þú hataðir þennan sjúkdóm sem við nefndum aldrei á nafn enda hafðir þú misst systur þína unga úr þessum óvætti. Þú ætlaðir sko ekki að deyja úr þessu. Það var aldrei til umræðu enda fannst þér læknarnir mjög neikvæðir og leiðinlegir stundum. Þú hættir bara að hlusta og einbeittir þér að því góða og jákvæða sem þú áttir. Þú sýndir líka öllum hvað vonin og lífsviljinn skiptir miklu máli í þessari baráttu. Við vorum aldrei tilbúin og vonin var það sem við ríghéldum í allan tímann.

Þú grínaðist oft með hvað ég væri mikil pabbastelpa þar sem ég kallaði alltaf á pabba ef ég meiddi mig en varð reið við þig eins og þú hefðir átt að passa mig betur. Ég gerði alltaf meiri kröfur til þín sem gat verið ósanngjarnt en þannig var það bara. Þér fannst þetta sérstaklega fyndið eftir að mínar stelpur fæddust að þær væru alveg eins og mamma þeirra.

Ég hef lært í gegnum tíðina að naflastrengurinn milli okkar var stuttur. Fyrstu árin mín gat enginn passað mig af því ég vildi bara hafa mömmu. Ég var eina barnið þitt sem grenjaði stanslaust ef þú fórst út úr húsi. Við vorum mjög næmar á líðan hvor annarrar alla tíð. Ef þér leið illa leið mér illa og öfugt. Ef mér leið illa var eins og þú vissir það bara og gerðir eitthvað ótrúlega krúttlegt án þess að vera beðin. Þú vissir bara hvað ég þurfti til að líða betur. Þegar ég var 10 ára þurftir þú að leggjast inn á spítala í nokkra mánuði og ég var bókstaflega veik allan tímann. Ég gat ekki án þín verið þótt ég vildi ekki viðurkenna það þá. Mér þótti rosalega erfitt að heimsækja þig á spítalann af því ég gat ekki séð þig líða illa. Þessar tilfinningar vöknuðu sterkt aftur síðustu árin. Við heyrðumst daglega um líðan þína og sveiflaðist líðan mín algjörlega með þér. Ef þér leið betur leið mér betur, ef þér leið verr leið mér verr. En bakslögin voru svo ótal mörg og brött að tilfinningarússíbani síðustu ára var rosalega erfiður. Þú varst samt alltaf svo sterk! Ég mun aldrei gleyma augunum þínum þegar þú lentir á gjörgæslu fyrir þremur árum. Við vorum öll svo hrædd en auðvitað hughreystir þú okkur og sagðir „ég verð miklu betri á morgun“.

Þú varst hjarta og sál fjölskyldunnar. Mitt öryggi alltaf.

Elsku mamma takk fyrir allt. Takk fyrir að vera alltaf svona góð við stelpurnar mínar og leyfa þeim að upplifa hlýjuna og ástina frá þér. Þú lifir áfram í hjörtum okkar og minningum. Elska þig að eilífu.

Þín dóttir,

Ingunn Brynja Einarsdóttir.

Elsku Lilja.

Það er svo óraunverulegt að þú sért farin frá okkur. Það var okkur öllum mikið gæfuspor að verða hluti af hópnum þínum, stóra hópnum okkar sem þú varst svo stolt af. Við munum löngu samræðurnar í síma klukkutímum saman, á rúmstokknum og í sófanum í Setberginu. Við varðveitum allar góðu minningarnar og allar prjónagersemarnar sem þú hristir fram úr erminni á engum tíma. Fjölskylduboðin þar sem borðin svignuðu af veitingum, afi búinn að elda læri og amma búin að gera bestu sveppasósu í heimi. Rjómabollurnar þínar voru svo af öðrum heimi.

Fjölskyldan er það dýrmætasta sem við eigum, við munum halda áfram að passa hópinn þinn, styrkja tengslin og passa upp á Einar þinn.

Takk af öllu hjarta fyrir þetta magnaða ferðalag sem við höfum átt með þér, alla ástina, traustið og vináttuna. Þangað til við hittumst næst.

Þínar tengdadætur,

Elísabet, Hanna, Klara og Margrét.