Sævar Örn Bergsson fæddist á Akureyri 8. mars 1965. Hann lést á heimili sínu, Klettaborg 43 á Akureyri, 4. júní 2024.

Foreldrar hans eru Sóley Friðfinnsdóttir, f. 8. nóvember 1944, d. 21. júní 2017, og Bergur Ingólfsson, f. 19. janúar 1938. Alsystir Sævars er Eygló, f. 21. júlí 1972, maður hennar er Sigurður Jóhannsson, f. 16. nóvember 1968. Eiga þau tvö börn: Sóleyju Kristínu, f. 21. ágúst 1990, og Jóhann, f. 1. janúar 1997. Sóley á fjögur börn: Sigurð Barða, f. 2010, Magna Frey, f. 2013, Jóhann Andra, f. 2018, og Ísabellu Maríu, f. 2023. Jóhann á tvö börn: Sólveigu Benný, f. 2018, og Söru Björk, f. 2021. Hálfsystir Sævars er Lilja Hrönn Bergsdóttir, f. 25. október 1977, og maður hennar er Bernharð Grétar Þorsteinsson, f. 14. apríl 1976. Eiga þau tvö börn: Berglindi Söru, f. 19. janúar 1997, og Þorstein Örn, f. 19. ágúst 1999.

Sævar átti þrjú stjúpsystkini frá seinni konu Bergs, Regínu Pétursdóttur, f. 5. júlí 1947, d. 14. júlí 2020. Það eru Rannveig Friðþjófsdóttir, f. 1965, Aðalheiður Sigurjónsdóttir, f. 1967, og Magnús Sigurjónsson, f. 1970.

Sævar var alla sína tíð á Akureyri. Hann bjó á sambýlinu í Vanabyggð og síðar á sambýlinu í Jörfabyggð. Árið 2020 flutti hann í íbúðakjarnann Klettaborg 43, þar sem hann bjó til dánardags. Sævar stundaði boccia í mörg ár og keppti víða um land. Hann hafði áhuga á flestum íþróttum og hélt sérstaklega upp á Manchester United. Hann fór á ófáa fótboltaleiki bæði innanlands og utan. Sævar var mjög listrænn og hélt myndlistarsýningu, enda voru verkin hans vinsæl.

Útför hans fer fram frá Glerárkirkju í dag, 20. júní 2024, klukkan 13.

Óðum steðjar að sá dagur,

afmælið þitt kemur senn.

Lítill drengur, ljós og fagur

lífsins skilning öðlast senn.

Vildi ég að alltaf yrðir

við áhyggjunar laus sem nú

en allt fer hér á eina veginn:

Í átt til foldar mjakast þú.

Ég vildi geta verið hjá þér

veslings barnið mitt.

Umlukt þig með örmum mínum.

Unir hver með sitt.

Oft ég hugsa auðmjúkt til þín

einkum, þegar húmar að.

Eins þótt fari óravegu

átt þú mér í hjarta stað.

Man ég munað slíkan,

er morgun rann með daglegt stress,

að ljúfur drengur lagði á sig

lítið ferðalag til þess

að koma í holu hlýja,

höfgum pabba sínum hjá.

Kúra sig í kotið hálsa,

kærleiksorðið þurfti fá.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Þinn

pabbi.

Við Sævar byrjuðum á því að vera miklir vinir þegar við vorum á boccia-móti á Selfossi árið 2009.

Sævar var yfirvegaður og traustur maður og það var alltaf hægt að treysta honum. Við Sævar brölluðum ýmislegt skemmtilegt saman og ég mun sakna hans mikið. Ég veit að nú er Sævar kominn til mömmu sinnar, Matta og Kibbu og farið að líða betur. Hvíl í friði kæri vinur.

María Dröfn.

Fíngerður maður, faðmaði hlýtt

með fallega sál og hjarta svo blítt

fylginn sér var hann og fastur í lund,

friðsæl var mörg hans næðisstund

Skapandi hugur, skapandi hönd

Skógarlundur með tryggðabönd

Litríkar myndir og leiftrandi sýn

lifna svo við þegar sólin skín

Opinn var hugur um alls konar mál

ánægju veitti og nærði sál

löggur og leikmenn með kylfu eða knött

litríkan búning og jafnvel með hött

Kveð ég nú vininn kæra minn hér

kærleikans faðir tekur við þér

Minningar góðar margar ég á

megir þú eilífðarfriðinn nú fá.

(SGS)

Fyrir hönd starfsmanna Klettaborgar,

Óla Margrét Sigvaldadóttir og Áslaug Védís
Valdemarsdóttir.