Sigurbjörg Margrét Guðvaldsdóttir, kölluð Lilla, fæddist í Reykjavík 19. nóvember 1927. Hún lést á Hrafnistu Sléttuvegi 8. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Bergný Margrét Ólafsdóttir, f. 3. september 1896 á Skriðufelli í Þjórsárdal, og Guðvaldur Jónsson, f. 21. júní 1889, brunavörður frá Minna-Núpi í Gnúpverjahr. Uppeldisbróðir hennar var Gunnar Sæmundsson frá Selparti í Flóa, f. 17. febrúar 1935.

Margrét giftist 28. desember 1946 Guðmundi Árna Sigfússyni húsasmíðam. frá Garðbæ á Eyrarbakka, f. 9. október 1925, d. 8. desember 2014. Foreldrar hans voru Anna Tómasdóttir húsmóðir og Sigfús Árnason trésm. og bóndi í Garðbæ á Eyrarbakka. Guðmundur og Margrét eignuðust fimm drengi: 1) Ólafur Svavar vélv., f. 5. október 1947. F.k. Anna Lóa Aðalsteinsdóttir, þeirra börn eru 1a) Bergur verkefnastj., f. 1969, börn Sindri Snær nemi, móðir Hildur Birna Gunnarsdóttir, og Rúna Lóa nemi, móðir Ragnheiður Eiríksdóttir, núv. eigink. Bergs er Tinna Jóhannsdóttir. Stjúpsonur Bergs er Jóhann Páll Einarsson. 1b) Stúlka óskírð, f. og d. 1972. 1c) Margrét Linda ráðgj., f. 1973, synir Ragnar Gaukur, faðir Georg Mikaelsson, og Sigurberg Óli, faðir Ívar Logi Sigurbergsson. Kona Ólafs er Elísa Noophian Phuangpila, sonur hennar og kjörsonur Ólafs er Nikulás, f. 1988, eigink. Palika Phuangpila. 2) Sigfús Árni húsasmíðam., f. 11. júlí 1950, eigink. Eva Geirsdóttir, synir: 2a) Guðmundur Árni, sölum. og þjálfari, f. 1971, eigink. Linda Rós Magnúsdóttir, börn Róbert Árni, Sigfús Árni og Þóra Lind. 2b) Elmar Geir húsasmiður, f. 1976, sambýlisk. Berglind Eiríksdóttir, og 2c) Andri, íþróttafræðingur og þjálfari, f. 1985. 3) Drengur, óskírður, f. og d. 4. september 1953. 4) Valdimar Grétar, f. 13. nóvember 1955, byggingafr., eigink. Valgerður Marinósdóttir, börn: 4a) Hjördís Elva læknir, f. 1982, eiginm. Atli Már Ágústsson, dætur Hanna Sædís og Margrét Klara, 4b) Marinó Páll, verkfr. og framkvstj., f. 1988, sambýlisk. Herdís Helga Arnalds, dætur Snæfríður Yrsa og Melkorka Arney, og 4c) Bergný Margrét ferðamálafr., f. 1990, sambýlism. Egill Björnsson, börn Jökull Nói og Hekla. 5) Birgir, f. 4. maí 1962, byggingartækni- og rekstrarhagfr., eigink. Ágústa María Jónsdóttir, börn: 5a) Guðjón Árni kvikmyndafr., f. 1990, eigink. Elisabeth López Arriaga, synir Björn Santiago og Kjartan Rodrigo. 5b) Edda Karen verkfr., f. 1995, og Janus Bjarki nemi, f. 1998.

Margrét ólst upp í Reykjavík, fyrst á Ljósvallagötu 32 og síðan á Hringbraut 74. Þau Guðmundur byggðu sér hús í Heiðargerði 34 og bjuggu þar til ársins 2007 þegar þau fluttu á Sléttuveg 19. Hún var húsmóðir framan af en fór að vinna úti þegar drengirnir stálpuðust, fyrst í Tösku- og hanskagerðinni og síðan á lífefnafræðideild Háskóla Íslands, fyrst í Ármúla og síðar í Læknagarði allt til starfsloka. Hún starfaði í Kvenfélagi Grensáskirkju frá upphafi í 40 ár. Hún var trúuð og ötul í safnaðarstarfi eldri borgara í Grensáskirkju.

Útför Margrétar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 20. júní 2024, klukkan 13.

Í dag kveð ég yndislega tengdamömmu mína með miklum söknuði. Lilla hefur gefið mér og fjölskyldu minni svo mikið. Þó svo að hún væri orðin tæplega 97 ára og eflaust hvíldinni fegin þá bar þetta ansi brátt að. Þegar við komum til hennar á hjúkrunarheimilið sat hún í stólnum sínum og leið alltaf vel. Hún kvartaði sjaldan og sagði alltaf að hún hefði það bara mjög gott. Lilla var líka heppin að það var ekki mikið sem hrjáði hana og ég hélt hreinlega að hún yrði hundrað ára.

Þegar við Biggi byrjuðum saman leigði ég í bænum ásamt nokkrum vinum. Lilla og Gummi voru ekki lengi að bjóða okkur að vera á efri hæðinni í Heiðargerðinu þar sem fór mjög vel um okkur. Lilla var yndisleg kona og gott að spjalla við hana og ég minnist þess sérstaklega að þegar við komum heim seint af djamminu fórum við iðulega inn í svefnherbergi til þeirra hjóna og sögðum þeim hvar við hefðum verið og hvernig var. Þau höfðu mikinn áhuga á að heyra okkar frásögn.

Það vakti athygli mína hvað Lilla lagði mikla áherslu á að borða hollan mat. Hún sauð fjallagrös og aðrar jurtir sem hún drakk af miklum móð. Hún reyndi að sjálfsögðu að beina mér í svipaða átt með misjöfnum árangri.

Þegar við eignuðumst börnin okkar var aldrei neitt mál fyrir Lillu að passa jafnvel þegar þau voru ekki nema nokkurra vikna gömul. Hún var alltaf fús til að hjálpa og vildi öllum vel.

Lilla var dugleg að koma til okkar um jól og áramót og líka eftir að Gummi dó og við eigum eftir að sakna þess að hafa þig ekki hjá okkur um næstu jól. Það var komin falleg rútína á jólin, þegar allir voru komnir í sparifötin var hefðin sú að fara og sækja ömmu. Fyrst ömmu og afa í Heiðargerðið og síðar á Sléttuveginn og þegar Lilla var komin á Sléttuna var hún að sjálfsögðu sótt þangað. Þetta var bara eitthvað sem mátti alls ekki sleppa og nutum við öll samveru hennar vel og við borðuðum og opnuðum pakkana saman.

Elsku Lilla mín, ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið en ég veit að nú ert þú komin á góðan stað þar sem Gummi þinn tekur flautandi á móti þér. Það vantar mikið í líf okkar þegar þú ert ekki með okkur og ekki síst barnanna okkar sem þótti óskaplega vænt um þig.

Ég mun minnast þín á hverjum degi og sérstaklega á jólum þar sem þín verður sárt saknað á heimili okkar.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Far þú í friði, elsku Lilla.

Þín tengdadóttir,

María.

Það er sælla að gefa en þiggja. Þessi orð held ég að hafi verið einkunnarorð tengdamóður minnar Margrétar Guðvaldsdóttir, eða Lillu eins og hún var kölluð af flestum sem þekktu hana. Ljúf kona er fallin frá, fulltrúi þeirrar kynslóðar sem þekkti tímana tvenna. Hún var af þeirri kynslóð sem ólst upp við miklar breytingar, skort á nauðsynjum og lífsbaráttu sem við í dag, nútímafólkið, þekkjum ekkert til. Sem dæmi má nefna að á unglingsárum Lillu voru válegir tímar og pabbi hennar starfandi brunavörður með mikla tengingu við setuliðið og taldi hann öruggara að fjölskyldan væri ekki í bænum á sumrin og útbjó fjölskyldunni tjaldbúðir í skóginum á Laugarvatni. Hann kom svo austur þegar hann var á frívakt. Þetta tímabil í lífi sínu var Lillu tíðrætt um, útsjónarsemi og nýtni einkenndi þessa veru fjölskyldunnar. Hún var einkabarn foreldra sinna, augasteinn þeirra og yndi og varð henni tíðrætt um móður sína alla tíð enda um margt líkar þær konur. Æðruleysi, almenn umhyggja fyrir sínum nánustu en líka þessi litla þörf fyrir að vera að skipta sér af lífi annarra. „Það er þeirra að finna út úr því hvernig þau vilja haga sínu lífi,“ sagði hún ef einhver nefndi hvað hinn eða þessi væri að bjástra við í sínu daglega lífi.
Lilla var stolt af sínu ævistarfi, kom fjórum drengjum til manns, en þrátt fyrir að vera „bara“ húsmóðir þeirrar kynslóðar þá fór hún líka út á vinnumarkaðinn þegar yngsti sonurinn náði þeim aldri að hann teldist vel sjálfbjarga. Fyrst fór hún að vinna í Tösku- og hanskagerðinni, smáfyrirtæki sem staðsett var í nærumhverfi hennar, en þar bankaði hún upp á og bað um vinnu enda saumakona góð. Síðar vann hún á Lífefnafræðideild Háskóla Íslands, fyrst í Ármúla og síðar í Læknagarði þar sem hún var til starfsloka. Þar var hún mikils metin fyrir vandvirkni og nákvæmni. Samstarfsfólk Lillu á hrós skilið fyrir þá væntumþykju, trygglyndi og hlýju sem þau sýndu henni alla tíð. Í síðustu orðum Lillu áður en hún sofnaði svefninum langa baðst hún afsökunar á öllu þessu stússi í kringum sig. „Það hlýtur að vera einhver sem þarf meiri aðstoð en ég.“ Mjög einkennandi fyrir þessa góðu konu sem ég kveð í dag með þakklæti eftir áralöng kynni.

Valgerður Marinósdóttir.

Elsku amma Lilla.

Takk fyrir allar góðu minningarnar og hlýjuna sem þú veittir okkur. Það var alltaf jafn gaman að koma í heimsókn hvort sem það var í Heiðargerðinu eða á Sléttuveginum, okkur leið alltaf jafn vel. Þú varst alltaf jafn þolinmóð og það sást best þegar þið afi tókuð vikulanga siglingu til að koma og heimsækja okkur í Bretlandi. Við eigum líka góðar minningar frá því að hafa gist hjá ykkur sem krakkar, borðað hafragraut með afa og þú gafst okkur alltaf bláber með rjóma. Við vitum að þú ert komin á góðan stað með afa Gumma þar sem þið vakið yfir okkur.

Þín barnabörn,

Guðjón Árni, Edda Karen og Janus Bjarki.

Amma Lilla var góðhjörtuð og hlý. Hún hafði góða nærveru og tók öllum opnum örmum og það var alltaf gott að koma í heimsókn eða pössun í Heiðargerðið þegar við vorum yngri og njóta gestrisni og hugulsemi ömmu Lillu og afa Gumma. Þau voru bæði jákvæð og æðrulaus og það er margt sem við systkinin höfum lært af þeim.

Amma Lilla var barngóð og börnin okkar nutu þess einnig að heimsækja hana á Sléttuveginn eftir að þau afi fluttu þangað og einnig eftir að afi lést. Þau fengu iðulega eitthvað gott í gogginn og áttu notalegar stundir að spjalla við ömmu við borðstofuborðið, lita, föndra og leika.

Nú eruð þið loks sameinuð á ný, afi Gummi eflaust tekið blístrandi á móti þér elsku amma okkar.

Það er erfitt að kveðja en við hlýjum okkur við góðar minningar og erum þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu.

Hvíldu í friði, elsku amma Lilla.

Hjördís Elva, Marinó Páll og Bergný Margrét.

Það er erfitt að hugsa til þess að elsku amma Lilla er fallin frá. Yndislegri og elskulegri ömmu er vart hægt að hugsa sér. Lilla vildi allt gera fyrir barnabörnin sín enda einstök, heilsteypt, fórnfús, hjálpsöm og alltaf með hugann við velferð vina, vandamanna og fjölskyldu. Sögurnar, fræðslan og væntumþykjan var endalaus. Ótal minningar rifjast upp þegar við lítum um öxl. Samveran í Heiðargerðinu og síðar á Sléttuveginum var ómetanleg. Helgarferðirnar á Eyrarbakka voru eftirminnilegar þar sem margt var brallað og alltaf til kandís í skápnum. Við eigum góðar minningar af ferðum upp í Þjórsárdal og að Minna-Núpi. Þess utan hafði amma alltaf mikinn áhuga á ferðalögunum okkar og merkti alltaf áfangastaðina þegar við ferðuðumst erlendis í heimsatlasinn sinn.

Við bræðurnir kveðjum elsku ömmu Lillu með miklu þakklæti og söknuði en vitum að afi Gummi tekur vel á móti henni og þau verði saman á ný í draumalandinu.

Andri, Elmar og
Guðmundur (Mummi).