Örn Bjarnason fæddist 20. júní 1934. Hann lést 16. maí 2024.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Kær tengdafaðir minn Örn Bjarnason læknir er látinn á 90. aldursári.

Það var sárt að horfa upp á þennan glæsilega mann lúta í gras eftir tiltölulega skamma sjúkdómslegu.

Örn og Áslaug kona hans voru einstaklega samrýnd hjón. Var umhyggja þeirra hvors fyrir öðru okkur til eftirbreytni. Börn og barnabörn sýndu föður, afa og langafa mikla ástúð og umhyggju, alveg eins og hann sýndi þeim alla tíð.

Fyrstu minningar mínar af Erni eru frá Vestmannaeyjum þar sem hann var héraðslæknir. Skólaskoðanirnar voru ekki í uppáhaldi, sérlega hjá okkur stráknum, þar sem þessi virðulegi brúnaþungi maður sat fyrir framan okkur í hvítum slopp með hlustpípu um háls, Einnig man ég mislingafaraldur sem gekk í Eyjum. Foreldrar mínir áttu þá þrjár ungar dætur, mikið veikar. Það var mikið að gera hjá Erni sem þeyttist í vitjanir um alla eyna. Hann vitjaði systra minna og kom síðar sama dag, óbeðinn, „hann var jú hvort sem var á leiðinni heim“. Ég man hversu oft foreldrar mínir minntust þessa. Örn var samviskusemin uppmáluð og ég veit að Vestmannaeyingar minnast hans enn vegna þess.

Örn hafði þau áhrif á mig að ég valdi að feta í fótspor hans.

Örn var mjög bóngóður. Við Edda bjuggum sex ár á Hornafirði, í einu víðfeðmasta læknishéraði landsins. Þar leysti hann mig af í tvígang, en þá var orðið langt síðan hann hafði verið í „héraði“ eins og sagt er. Í annað sinnið vildi svo til að Áslaug, sem alltaf studdi sinn mann, þurfti skyndilega að fara til Reykjavíkur. Örn sat því einn uppi með héraðið og þrjú barnabörn. Allt gekk þetta að óskum, bæði læknis- og heimilisstörf, sem hann hafði þó minni þjálfun í.

Örn var öflugur í félagsmálum Læknafélags Íslands og var lengi ritstjóri Læknablaðsins. Eftir hann liggja vönduð skrif svo sem um heimspeki læknisfræðinnar og siðfræði auk ýmissa þýðinga. Erni var umhugað um að íslenska sem mest af íðorðum læknisfræðinnar og vann hann ötullega að því. Örn var kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Íslands vegna starfa sinna að félagsmálum lækna, einkum á sviði útgáfu- og siðamála.

Erni var mjög umhugað um hag barna sinna og barnabarna. Þau voru ófá skiptin sem hann spurði hvort okkur vanhagaði um eitthvað. Honum var umhugað um velferð okkar alla tíð.

Söknuðurinn er mikill eftir öll þessi ár en mestur er missir Áslaugar.

Tengdaföður míns minnist ég með virðingu og dýpsta þakklæti fyrir samfylgdina.

Guðmundur Olgeirsson.

Þar sem afi sat við skrifborðið sitt og talaði við bækurnar og sjálfan sig fylgdist ég oft með honum af forvitni og aðdáun. Stóran hluta barnæskunnar og unglingsáranna dvaldi ég mikið hjá afa og ömmu og naut þess að fylgjast með störfum hans. Á þessum tíma átti gerð íðorðasafns læknisfræðinnar hug hans allan heima við skrifborðið samhliða dagvinnu hans sem trúnaðarlæknir Ríkisspítalanna og læknir Sjálfsbjargarheimilisins m.a. Íðorðasmíðina sagði hann nauðsynlega til að geta sem ritstjóri Læknablaðsins framfylgt stefnu blaðsins um að allt efni þess kæmi út á íslensku. Þetta hugsjónastarf er líklega það verk sem hann var stoltastur af á starfsævinni – og af mörgu er þar að taka.

Á heimilinu léku tónlist og bækur af öllum toga stórt hlutverk. Blaðsíðurnar í bókum afa voru eins og listaverk; litríkar því hann notaði áherslupenna óspart – allt eftir fáguðu litakerfi. Spássíurnar fullar af hans eigin hugleiðingum um textann. Fróðleiksfýsnin var endalaus. Vandaðar barnabókmenntir voru alltaf á jafnháum stalli hjá afa og heimsbókmenntir og fræðirit; Lísa í Undralandi, Bangsímon, Litli prinsinn og Mark Twain voru í sérstöku uppáhaldi hjá okkur. Afi kunni að meta einlæga forvitni og barnslegar hugleiðingar. Hvort tveggja fannst honum að fleiri fullorðnir mættu tileinka sér. Eins fannst honum engin þekking eða fræði vera börnum óviðkomandi. Þannig voru öll bindi Encyclopaedia Britannica höfð í neðstu hillunum. Mikilvægt var að við börnin næðum til þeirra ef okkur ræki í vörðurnar.

Samtölin við afa voru oftar en ekki um stóru málin; siðfræðina sem hann lagði svo margt til, en líka stjórnmál, trúmál og heimspeki. Í ungæðishætti fannst mér ég stundum hafa fundið svörin við stóru spurningum lífsins. Afi var alltaf til viðræðu en oft fljótur að skáka mér með því að benda á vinkla sem ég sá ekki sjálf. Besta skólastofa lífs míns var stofan hjá afa.

Ofar öllu var hann fjölskyldumaður og einstakur klettur okkar allra. Hann og amma voru alltaf sem eitt, bæði með blik í auga eins og þau hefðu nýlega kynnst eftir tæplega 70 ár saman.

Ég kveð hann með þakklæti fyrir öll þau stóru og fallegu spor sem hann markaði í líf mitt og okkar fjölskyldunnar.

Arna Ösp Herdísardóttir.