Soly Rannvá Kjeld fæddist í Færeyjum 31. október 1935. Hún lést á líknardeild Landakots 26. maí 2024.

Rannvá var dóttir hjónanna Hans Jakobs Kjeld og Hansinu Hansen. Hún ólst upp í Funningsbotni á Austurey og var elst systkina sinna, þeirra Ingibjargar, Maritu og Martins. Ingibjörg og Martin eru látin en Marita býr í Færeyjum.

Rannvá stundaði nám í Danmörku en fluttist til Íslands sem ung stúlka og bjó á Íslandi mestan hluta ævi sinnar.

Rannvá giftist Jóni Ásgeirssyni 15. janúar 1960. Þau skildu. Börn þeirra eru Kristín, Hanna Charlotta og Ásgeir. Elst er Kristín. Hún er gift Ásgeiri Björnssyni og eiga þau þrjú börn, Jón Þórarin, Björn Inga og Elísabetu Charlottu. Kona Jóns Þórarins er Ína Ólöf Sigurðardóttir og börn þeirra eru Charlotta María og Emil Orri. Fyrir átti Ína Selmu Lind og Sigurð Bjarma. Björn Ingi er kvæntur Marín Jónsdóttur og synir þeirra eru Óliver og Breki. Elísabet Charlotta og hennar maður Maté Dalmay eiga tvö börn. Þau eru Kristín Sara og Ásbjörn Darri. Fyrir átti Maté Maríu Líneyju. Næst kemur Hanna Charlotta. Börn hennar og Edgars E. Cabrera eru Anna Sóley, Edgar Davíð og Daníel Andri. Anna Sóley er elst. Hennar maður er Bjarni Kristján Stefánsson og þeirra börn eru Elísabet Anna og Arinbjörn Helgi. Daníel Andri og kona hans, Katrín Þorgrímsdóttir, eiga einn son, Baltasar Hrafn. Yngstur er Ásgeir. Kona hans er Halla Grétarsdóttir og eiga þau þrjú börn, Jakob Martin, Grétar Karl og Gyðu Kristínu.

Rannvá starfaði sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands stuttu eftir að hún kom til Íslands og síðar í Úraverslun Pauls Heide, í Safamýrarskóla og á Hjúkrunarheimilinu Grund.

Útför Rannvár fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 20. júní 2024, klukkan 13.

Tengdamóðir mín til 40 ára er hnigin til foldar. Glæsileg, falleg og góð kona. Hún gaf fjölskyldu sinni alla ást sína og áhuga og fylgdist vel með öllum. Var umhugað um að öllum liði vel. Hún fékk á stundum ágjöf en stóð keik. Tengsl hennar við ættjörðina í Færeyjum var sterk og lagði færeyskan streng til barna og barnabarna. Tengdamóðir mín átti fallegt heimili og var gestrisni í blóð borin. „Elskurnar fáið ykkur meira, það er meira frammi.“ En hún gat verið föst fyrir. Man alltaf þegar ég impraði á því að hún skipti út gamla túpusjónvarpinu fyrir tæknina sem væri að taka við. Svarið var: „Kæri tengdasonur, ég vil ekki láta ráðskast með mig.“ Og hún stóð föst á sínu. Landsbankinn hjálpaði til við að halda henni í formi með því að leggja niður Vesturbæjarútibú. Nú þurfti hún að ganga niður í bæ. Greiðslukort og heimabanki voru ekki hennar tebolli. Ég áttaði mig fljótt á að betri tengdamóður væri ekki hægt að hugsa sér. Ég fann og vissi að henni þótti vænt um hjónaband okkar Kristínar. Og við áttum kankvísan húmor okkar í millum. Þegar ég skaut þá kom frá henni kankvíst hliðarbros og öfugt. Ég kveð tengdamóður mína með miklu þakklæti og kærleik fyrir samleið okkar öll þessi ár.

Ásgeir Björnsson.

hinsta kveðja

Elsku mamma.

Takk fyrir sögurnar. Takk fyrir hláturinn. Takk fyrir þögnina. Takk fyrir stuðninginn. Hlýjuna. Hógværðina. Glampann í augunum. Skilninginn. Húmorinn og alla elskuna.

Takk fyrir þig.

Jesus pápi verið hjá tær.

Hanna.