Skrílslæti Hælisleitandi hleypti þingfundi upp með ólátum nýverið.
Skrílslæti Hælisleitandi hleypti þingfundi upp með ólátum nýverið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Öryggisráðstafanir á Alþingi, þ.m.t. viðvera lögreglu inni í þinghúsinu, eru almennt til umræðu á fundi forsætisnefndar Alþingis. Náið er fylgst með öryggismálum í og við þinghúsið og er málaflokkurinn í sífelldri endurskoðun. Þetta segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Öryggisráðstafanir á Alþingi, þ.m.t. viðvera lögreglu inni í þinghúsinu, eru almennt til umræðu á fundi forsætisnefndar Alþingis. Náið er fylgst með öryggismálum í og við þinghúsið og er málaflokkurinn í sífelldri endurskoðun. Þetta segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis.

Viðvera lögreglu inni í þinghúsinu í tengslum við öryggisgæslu á ráðherrum hefur verið til umræðu að undanförnu eftir að Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata hóf að tjá sig um málið á samfélagsmiðlum. Sagði hann öryggisgæslu lögreglu með forsætisráðherra inni í Alþingishúsinu „ólíðandi“ og lið í „lögregluvæðingu“ hjá ríkisstjórninni.

Þessi ummæli þingmannsins hafa vakið hörð viðbrögð hjá lögreglumönnum. Hafa sumir þeirra sett sig í samband við Fjölni Sæmundsson, formann Landssambands lögreglumanna, að undanförnu og lýst yfir undrun á málflutningi þingmannsins. Sjálfur sagði Fjölnir hér í Morgunblaðinu að ummæli Andrésar Inga væru „algerlega ömurleg“ og að lögreglumenn hefðu árum saman staðið vaktina af virðingu inni í Alþingishúsinu, Stjórnarráðinu og á Bessastöðum. Það að lögregla gæti öryggis ráðamanna sé ekkert nýtt.

Birgir segist ekki hafa áhuga á að munnhöggvast við Andrés Inga um öryggismál þingsins í fjölmiðlum. „Við eigum í reglulegum og tíðum samskiptum við lögreglu vegna þeirra atvika sem átt hafa sér stað. Og þegar uppákomur verða þá kallar það gjarnan á meiri viðbúnað tímabundið. En það er háð mati á aðstæðum hverju sinni og frá degi til dags,“ segir Birgir.

Ekki útbreidd skoðun

Stutt er síðan hælisleitandi veittist að þingmönnum með hrópum og köllum frá þingpöllum. Gekk hann svo langt að klifra yfir handrið og var um tíma tvísýnt hvort maðurinn myndi kasta sér inn í sjálfan þingsalinn.

Spurður hvort það sé útbreidd skoðun meðal þingmanna að nærvera lögreglu við þingsalinn sé „ólíðandi“, líkt og þingmaður Pírata heldur fram, segist Birgir ekki vilja tjá sig um það.

Morgunblaðið hefur hins vegar heimildir fyrir að fæstir þingmenn séu mótfallnir nærveru lögreglu.