Þingið þarf að hafa einhver ráð til aðhalds við ráðherra

Það fór fyrir vantrausts- tillögunni um Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra eins og við var að búast. Hún var felld með öllum atkvæðum stjórnarliða nema eins, en hjáseta hans mun vart hafa minnstu áhrif á stjórnarsamstarfið.

Stjórnarandstaðan studdi vantraustið með fororði um það snerist ekki um hvalveiðar, heldur embættisfærslu ráðherrans. Nema auðvitað Píratar, sem studdu vantraustið af því að ráðherra hefði ekki brotið lög!

Vörn stjórnarliða var þreföld: Í fyrsta lagi væri vegið að ríkisstjórninni og því yrðu stjórnarþingmenn að þétta raðirnar. Í öðru lagi hefði ráðherrann ekkert rangt gert eða a.m.k. tæplega unnist tími til þess. Og í þriðja lagi hefði ekki verið gripið til annarra „úrræða“ áður en vantraust var lagt til.

Það hreif, en stenst það?

Vantrauststillögunni var beint gegn ráðherranum, ekki stjórninni; það var hún sjálf, sem kaus að taka tillöguna til sín. Fyrir því eru góðar pólitískar ástæður vegna streitu í stjórnarsamstarfinu, en það eru ekki rök.

Við öllum blasir að ráðherrann braut meginreglur stjórnsýslu í pólitísku skyni. Það hafa margir stjórnarþingmenn viðurkennt og eins að hann gæti hafa bakað ríkissjóði stórkostlegan kostnað.

Það er engin vörn heldur, að ráðherrann hafi ekki setið í nema í 2½ mánuð. Hann gaf sér og öðrum aðeins nokkra daga til álits og umþóttunar um málið, loks þegar hann gat ekki tafið það meira.

Fáfengilegust voru þó rökin um að stjórnsýslan hafi ekki fengið næga umfjöllun aðra.

Ráðherrar sitja aðeins í skjóli þingsins; það eitt tekur ákvarðanir um það hverjir gegna þeim embættum við æðstu stjórn ríkisins. Ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða umboðsmaður Alþingis, ekki siðanefnd þingsins, jafnvel ekki Landsdómur. Alþingi eitt ræður því.

Vantraustsumræðu verður ekki slegið á frest vegna þess að einhverri málsmeðferð á öðrum stað sé ófullnægt, þannig liggur einfaldlega ekki í því. Eins og best sést á þeirri venju að vantrauststillaga er tekin fyrir svo skjótt sem auðið er. Það má ekki bíða.

Fyrir nú utan hitt að matvælaráðherra var ófús til svara þegar þingmenn reyndu að „efna til samtals við ráðherrann um embættisfærslu hans“, svo ekki tjóir að vísa til annarra úrræða þingsins. Enn síður í ljósi þess að ráðherrann hallaði þar réttu máli, en hefur hvorki leiðrétt orð sín né beðið Alþingi afsökunar.

Oft er nefnt að þingið sé of veikburða gagnvart framkvæmdarvaldinu, en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vék að því í ræðu sinni um vantraustið og minnti á að í núverandi ríkistjórnarsamstarfi hefðu ráðstafanir verið gerðar til að efla þingið.

Satt er það, en vantraustsumræðan í gær bendir til þess að ekki sé nóg að gert.

Varla leikur minnsti vafi á að embættisfærsla Svandísar Svavarsdóttur varðandi hvalveiðar í fyrra var ólögmæt. Fátt bendir til annars en að Bjarkey arftaki hennar hafi einnig virt lög að vettugi til þess að ná fram pólitískum markmiðum, sem vel að merkja eru ekki í samræmi við málefnasamning ríkisstjórnarinnar.

Gangi ráðherra gegn stjórnarsáttmála er það aðeins pólitískt innanhússvandamál ríkisstjórnarinnar, en fari hann á svig við lög í embættisfærslu sinni varðar það Alþingi ef ekki dómstóla. Og stjórnskipunin öll hvílir á því að þingið geti treyst því að ráðherra segi því satt.

Það er nákvæmlega það, sem 1. grein stjórnarskrárinnar felur í sér: Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

En það þýðir líka að ef stjórnarflokkur ákveður að vantraust á hvaða ráðherra sinn sem er jafngildi vantrausti á ríkisstjórnina alla – jafngildi stjórnarslitum – þá er í raun búið að taka meirihluta Alþingis í gíslingu.

Sú staða er ekki í samræmi við þá stjórnskipan sem stjórnarskráin mælir fyrir um, stuðlar ekki að góðri stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins og laðar frekar fram hið gagnstæða. Ábyrgð ráðherra gagnvart þinginu má ekki hanga á þolgæði annarra stjórnarflokka, hagsmunum um að halda völdum eða ótta við kosningar.

Það á ekki sérstaklega við þetta mál eða þessa ríkisstjórn, heldur er þetta vandi sem Alþingi verður að leysa eigi það að standa undir nafni og stöðu sinni í stjórnskipan landsins.