— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Reykvíkingur ársins er Marta Wieczorek, grunnskólakennari í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og aðstoðarskólastjóri við Pólska skólann. Var það Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar sem tilkynnti valið í gærmorgun við opnun Elliðaánna

Reykvíkingur ársins er Marta Wieczorek, grunnskólakennari í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og aðstoðarskólastjóri við Pólska skólann. Var það Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar sem tilkynnti valið í gærmorgun við opnun Elliðaánna. Er þetta í fjórtánda sinn sem Reykvíkingur ársins er valinn.

Marta er sögð hafa unnið dýrmætt starf í þágu barna í Reykjavíkurborg sem kennari við Hólabrekkuskóla, en hún hefur einnig unnið á leikskóla í Breiðholti. Þá hefur hún unnið ötullega við að efla móðurmálskennslu í Pólska skólanum sem stofnaður var árið 2008. Þar er lögð áhersla á pólskukennslu samhliða því að veita mikilvægan stuðning fyrir tvítyngda nemendur á Íslandi.

Marta kennir einnig íslenskunámskeið fyrir börn sem eru nýkomin til Reykjavíkur og er menningarsendiherra Póllands í Breiðholti. Venju samkvæmt var rennt fyrir lax við opnunina.