Elva Rún Jónsdóttir og Straumur frá Hofsstöðum, Garðabæ, sigruðu í tölti T3 í unglingaflokki á Reykjavíkurmeistaramótinu nú á dögunum.
Elva Rún Jónsdóttir og Straumur frá Hofsstöðum, Garðabæ, sigruðu í tölti T3 í unglingaflokki á Reykjavíkurmeistaramótinu nú á dögunum. — Ljósmyndari/Anna Guðmundsdóttir
Straumur er algjör gæðingur og mjög skemmtilegur karakter. Hann er í algjöru uppáhaldi.

Elva Rún Jónsdóttir er önnur inn á Landsmót hestamanna í unglingaflokki með þá glæsilegu einkunn 8,71 á hestinum sínum Straumi frá Hofsstöðum, Garðabæ. Þetta er þriðja landsmótið sem Elva Rún hefur unnið sér sæti á en hennar fyrsta með Straum.

Straumur er heimaræktaður klár hjá fjölskyldu Elvu Rúnar sem hún tók í þjálfun á níunda ári en hann var þá sex vetra og hafa þau núna átt samleið í sjö ár.

„Ég er búin að vera að þjálfa og keppa á Straumi síðan árið 2017 og það hefur gengið mjög vel. Straumur er algjör gæðingur og mjög skemmtilegur karakter. Hann er í algjöru uppáhaldi. Svo er alveg extra sætt að fara með hest úr eigin ræktun á landsmót,“ segir Elva Rún.

Að sögn Elvu Rúnar hefur verið mjög auðvelt að vinna með Straum enda er hann mikil mannagæla og leggur sig allan fram í öllum verkefnum sem eru lögð fyrir hann, þá sérstaklega ef nammi er innan seilingar.

Elva Rún og Straumur hafa átt mjög farsælan keppnisferil en þau hafa orðið Íslandsmeistarar í tölti í barnaflokki og sigurvegarar á Reykjavíkurmeistaramótinu í þrígang, tvisvar í barnaflokki og nú á dögunum í unglingaflokki.

Stefnir alla leið

Aðspurð hvað sé skemmtilegast í hestamennsku segir hún að fátt sé skemmtilegra en að keppa enda mjög kappsöm.

„Mér finnst rosalega gaman að keppa, ég er með mjög mikið keppnisskap. Svo er auðvitað yndislegt að umgangast hestana dagsdaglega, reyndar er bara allt við hestamennskuna skemmtilegt.“

Mikið keppnisskap milli systranna

Elva Rún kemur úr mikilli hestafjölskyldu og segist hún hafa verið í hestum frá því hún man eftir sér. Hún á tvær systur, Guðnýju Dís og Kristínu Rut Jónsdætur, sem stunda báðar hestamennsku af jafnmiklum krafti og hún sjálf. Þær hafa báðar unnið sér sæti á landsmót með prýðiseinkunnum á keppnishestum fjölskyldunnar, þá Guðný Dís í ungmennaflokki á Hraunari frá Vorsabæ II og Kristín Rut í barnaflokki á Flugu frá Garðabæ.

Hún segir vera mikið keppnisskap á milli systranna þá sérstaklega þegar þær keppa í sama flokki.

„Þegar við Straumur urðum Íslandsmeistarar í tölti árið 2019 þá vann ég líka systur mína sem var í sama flokki svo það gerði sigurinn ennþá sætari,“ segir Elva Rún og hlær. „En núna keppum við hver í sínum flokki, sem léttir aðeins á keppnisskapinu okkar allra.“

Er markmiðið að fara alla leið á landsmótinu?

„Já markmiðið er að fara alla leið. Nú hefur farið mjög mikill tími í að undirbúa okkur fyrir mótið. Við stefnum hátt og ef við ætlum að ná markmiðunum okkar þá er bara að undirbúa sig mjög vel,“ segir Elva Rún að lokum.

Hestar alla daga

Elva Rún æfði fimleika á yngri árum sem hún segir hafa hjálpað jafnvæginu mikið. En ekki leið á löngu þar til hestarnir fóru að taka meira og meira pláss í huga hennar og á endanum tóku þeir alveg yfir. Nú eyðir hún flestum stundum í hesthúsinu með fjórfættu vinum sínum og fjölskyldu sinni. Í dag einkennist líf hennar alveg af hestamennsku og getur hún ekki ímyndað sér neitt skemmtilegra.