Stækkun gjaldskyldra svæða í Reykjavík er ágeng og óbilgjörn

Gjaldsvæði fyrir bílastæði í Reykjavík þenjast út um þessar mundir. Nú líða aðeins nokkrir mánuðir milli þess að tilkynnt er að nýjar götur og svæði verði gjaldskyld. Gjaldskyldan er löngu hætt að eiga eingöngu við þar sem mikið er af verslunum og stofnunum og er farin að ná inn í hrein íbúðahverfi.

Gjaldskyldu á afmörkuðum svæðum fylgir sá vandi að mikið er lagt í jaðri þeirra. Við þessu hafa borgaryfirvöld brugðist með því að stækka gjaldsvæðin. Gallinn er að þá verður til nýr jaðar þar sem fólk leggur bílum í gríð og erg og aftur stækkar gjaldsvæðið.

Þeir sem eru innan gjaldsvæðanna eru ekki alls kostar ánægðir. Vissulega eiga þeir auðveldara með að finna stæði, en það þarf leyfi til að leggja heima hjá sér og það kostar skildinginn. Að auki er aðeins veitt eitt leyfi á hvert heimili, ekki hvern íbúa. Ef það eru fleiri en einn bíll á heimili verður því til vandamál.

Í Morgunblaðinu í gær er rætt við Friðrik R. Jónsson, sem býr innan gjaldsvæðis sem varð til í júní í fyrra. Hann kveðst meira að segja nokkurn veginn sáttur við „andbílastefnu borgarinnar“, en finnst „þeir núna bara vera að ganga alltof hart að saklausum íbúum í úthverfum. Þótt þessi svæði séu ekki formlega úthverfi, þá eru þau það samt.“

Friðrik bendir á að fólki finnist íþyngjandi að gjaldskyldan sé um helgar og fram á kvöld þannig að ættingjar og vinir þurfi að greiða fyrir að koma í heimsókn til íbúa. Þá séu tveir bílar á hans heimili og það sé orðið mjög kostnaðarsamt. Friðrik gagnrýnir sérstaklega skortinn á samráði við íbúa í þessum aðgerðum borgarinnar.

Þessi gagnrýni á fullan rétt á sér. Framganga borgarinnar í þessum gjaldskyldumálum er óbilgjörn og til vansa. Viðtalið, sem vitnað er í hér að ofan, sýnir að framgangsharkan er slík að ráðamönnum í borginni tekst jafnvel að fá stuðningsmenn stefnu sinnar upp á móti sér.