Sveinn Guðmannsson fæddist á Blönduósi 3. september 1990. Hann lést 2. júní 2024.

Foreldrar hans eru hjónin Guðmann S. Jóhannesson, f. 5. júní 1959, og Rósa Fanney Friðriksdóttir, f. 13. janúar 1962. Nú búsett í Reykjavík

Dóttir hans er Rakel Birna, f. 25. maí 2009. Móðir hennar er Steinunn Anna Steingrímsdóttir og eru þær mæðgur búsettar á Blönduósi.

Systur hans eru: a) Katrín Ósk, f. 3. desember 1981. Eiginmaður hennar er Björn Eyþór Benediktsson, f. 27. nóvember 1985. Sonur þeirra er Benedikt Kári. Börn Katrínar úr fyrra sambandi eru Emma Karen, Ísak Ernir og Katla Ísold Kjartansbörn. Öll búsett í Reykjavík nema Emma Karen sem býr í Danmörku. b) Inga Rut, f. 28. september 1983. Eiginmaður hennar er Hafsteinn Þorsteinsson, f. 31. desember 1975. Búsett í Reykjavík.

Sveinn ólst upp á Hvammstanga en var búsettur í Reykjavík síðastliðin ár.

Útför hans fór fram í kyrrþey 13. júní 2024 frá Guðríðarkirkju og jarðsett var í Gufuneskirkjugarði.

Elsku hjartans Svenni okkar.

Með tárum sitjum við hér að skrifa okkar hinstu kveðju til þín. Að fá þær fregnir að þú værir látinn er það sárasta og erfiðasta sem við höfum nokkurn tíma upplifað. Hversu sárt að eiga ekki von um að síminn hringi og við fáum að heyra röddina þína aftur og spjalla við þig lífið og tilveruna, og þú kveðjir svo með orðunum „heyrumst á morgun“ eins og þú gerðir alltaf.

Að fá þig í fangið fyrir tæpum 34 árum var svo yndislegt, þú varst svo fallegt ljós sem komst inn líf okkar og systur þínar svo glaðar að eignast lítinn bróður. Æska þín var gleðirík, þú varst mikill prakkari og uppátækin endalaus sem mætti skrifa heila bók um. Þú varst fyndinn, hress, lífsglaður og hjartahlýr.

Áhugamálin voru mörg, t.d. bíladellan. Svo komu kassabílar og skellinöðrur um leið og þú hafðir aldur til, bílprófið og fyrsti bílinn.

Tónlistin var mikilvæg, þú hlustaðir mikið og eitt sem margir vita ekki var að þú samdir texta, og vinur þinn samdi fallegt lag við einn þeirra. Uglustytturnar þínar krúttlegu, stórt safn gsm-síma sem þú dundaðir þér við að gera við, gamlir þættir sem þið systkinin gátuð leikið fyrir fjölskylduna við mikla kátínu.

Þú elskaðir kisur og engin vandræði hjá þér að finna nöfn á þær, t.d. Böðvar Bjarki, hverjum öðrum dettur það í hug! Húmorinn þinn var ótrúlegur og þú varst stríðinn með eindæmum. Já þær eru ótalmargar gleðistundirnar með þér, elsku drengurinn okkar, sem við getum yljað okkur við.

En lífið lék ekki alltaf við þig, þú háðir harða baráttu við Bakkus sem litaði líf þitt og við vitum að þú reyndir að gera þitt besta til að losna við hann.

Þú áttir trausta og sanna vini sem reyndust þér vel, og varst mikið í sambandi við þá.

Aðeins 18 ára gamall varðstu faðir. Hinn 25. maí 2009 fæddist yndislega Rakel Birna. Demanturinn þinn. Þú varst að rifna úr stolti yfir elsku fallegu stúlkunni þinni og elskaðir hana svo heitt. Hún kom oft til okkar frá því hún var pínulítil og þá var ýmislegt brallað.

Nýlega fékkstu draumaíbúðina þína sem þú gerðir svo fína og það sást vel að þarna bjó snyrtimenni. Allt svo hlýlegt og notalegt, kaffi og nammi í skál handa gestum, og með garði. Þú sagðist vera svo hamingjusamur þarna og loksins gæti elskan þín hún Rakel Birna komið til þín í gistingu og þú hlakkaðir svo óendanlega mikið til þess. Þú varst svo uppfullur vonar og bjartsýni á framtíðina.

Hinn 1. júní var Rakel Birna komin suður og við héldum upp á 15 ára afmælið hennar. Þetta var svo skemmtilegur dagur og svo gaman að allir hittust. Þetta er okkur öllum svo dýrmætt því þetta var í síðasta skiptið sem við hittum þig og föðmuðum þig. Þú þakkaðir okkur fyrir yndislegan dag, og við sögðumst elska hvert annað, það voru síðustu orðin okkar hvert við annað elsku Svenni okkar. Það er svo gott í hjartanu því þú varst kallaður frá okkur daginn eftir.

Nú ertu kominn í sumarlandið elsku drengurinn okkar, megi sál þín fljúga þar í hæstu hæðir.

Við elskum þig og minningarnar um þig geymum við í hjörtum okkur, söknum þín, og sjáumst síðar.

Þín

mamma og pabbi.

Elsku besti pabbi minn.

Sveinn Kubbur Guðmannsson fór í draumalandið 2. júní 2024.

Þótt hann væri ekki alltaf til staðar þá var hann alltaf að reyna sitt besta. Hann vissi alltaf hvernig hann átti að gleðja mig og láta mig hlæja. Honum þótti svo vænt um mig, hann var besti pabbi í heimi og það mun aldrei breytast. Hann var svo ljúfur og góður og mér leið svo vel í kringum hann og hann var svo fyndinn og gat alltaf fengið alla til að brosa og skellihlæja í kringum sig. Ég leit svo mikið upp til hans og geri það alltaf. Hann elskaði mig eins og ég er.

Þegar ég kom út sem trans breytti hann meira að segja á facebook-síðunni hjá sér að ég væri sonur hans. Mér þótti svo vænt um það að ég fór næstum að gráta þegar ég sá það. Það verður erfitt að lifa án hans, en ég mun gera mitt besta fyrir pabba minn.

Enginn getur tekið plássið hans í hjartanu mínu, það mun alltaf tilheyra elsku pabba mínum.

Ég mun aldrei hætta að elska hann og sakna hans. Hann mun alltaf vera með mér í huga og hjarta mínu. Ég elska þig til tunglsins og til baka að eilífu elsku besti pabbi minn. Sofðu rótt.

Þín

Rakel Birna.

Elsku litli bróðir minn, mikið er sárt að kveðja þig úr þessum heimi svona langt fyrir aldur fram. Ég man svo vel þegar ég sá þig í fyrsta skipti, nýfæddan glókoll. Ég var svo montin af þér enda sætasta barn í heimi. Þú varst strax mikill dundari og bíladellukall, purrandi af krafti þangað til þú varst blautur niður á maga, það var fyndið að fylgjast með því, endalaust verið að skipta um föt. Að alast upp með þér gat verið ansi krefjandi þegar unglingaveikin fór að láta á sér kræla hjá mér. Þú hafðir yndi af því að hrekkja okkur systurnar frá því að þú varst pínulítill og sérstaklega af því að slökkva á sjónvarpinu og hlaupa í burtu, tæta í herberginu mínu þegar ég var ekki heima og þegar ég fékk gesti þurftir þú að sjálfsögðu að vera viðstaddur inni í herberginu og það var mikið bras að koma þér út. Þú skellihlóst auðvitað allan tímann og naust þín í botn við athyglina. Það var oft mikill hamagangur á heimilinu og mikið fjör, alltaf nóg að gera í kringum þig.

Lífið fór ekki alltaf um þig ljúfum höndum og þú glímdir við þín vandamál frá því að þú varst unglingur, það hafði því miður mikil áhrif á samskipti okkar í seinni tíð. En það eru ekki þær minningar sem þú skilur eftir þig elsku Svenni minn. Þegar ég hugsa um þig stendur upp úr hversu hjartagóður og ljúfur þú varst. Þú varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa til ef þú mögulega gast. Þú varst mættur manna fyrstur daginn eftir brúðkaupið okkar Eyþórs að hjálpa okkur að ganga frá salnum. Mér þótti innilega vænt um það. Fjölskyldan skipti þig alltaf miklu máli. Þú varst fyndinn og mikill húmoristi. Þú vildir alltaf vel og gerðir eins og þú gast. Ég veit þú vildir gera meira og betur. Þú reyndist mörgum vel og ég er stolt af því hversu margir fundu góðan vin í þér. Þú vissir hvað lífið gat stundum verið erfitt og þú vildir hjálpa þeim sem áttu erfiða tíma. Þú varst mikill dýravinur og elskaðir kisur, stoltari pabba var ekki hægt að finna. Ég man hver þú varst og hvaða mann þú hafðir að geyma en ekki hvernig þinn sjúkdómur gerði þig. Og ég mun alltaf muna þig litli glókollur.

Ég er þakklát fyrir góðu stundirnar og hláturinn saman. Minningarnar eru óteljandi og ómetanlegar. Ég veit þú hefur loksins fengið friðinn sem þú þráðir svo heitt.

Ég kveð þig, elsku bróðir minn, með erindi eftir Bubba sem var einn af þínum uppáhaldstónlistarmönnum.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Þín stóra systir,

Katrín Ósk.

Enn og aftur hefur óréttlætið sigrað. Elsku bróðir minn, þú fékkst stærri verkefni í þessu lífi en margir en barðist fram á síðasta dag, staðráðinn í að vinna. Íslenska heilbrigðiskerfið reyndist þér því miður ekki alltaf nógu vel og það var sárt að horfa upp á.

Þrátt fyrir allt skein þó ávallt í gegn þinn sterki og einstaki persónuleiki. Þú varst svo ólýsanlega hjartahlýr, umhyggjusamur og örlátur. Því fengu margir að kynnast. Vildir alltaf allt fyrir alla gera og ef þú áttir lítið gafstu það þeim sem þér fannst þurfa meira á því að halda. Þú dæmdir engan betri né verri, mættir öllum á þeim stað sem þeir voru á.

Hjálpsemi þín, nákvæmni og vandvirkni fór heldur ekki fram hjá neinum sem þig þekktu. Alltaf boðinn og búinn að hjálpa. Við hjónin fórum svo sannarlega ekki varhluta af því þegar kom að flutningum hingað og þangað eða þegar við keyptum risastórt og handónýtt hús.

Frá því ég man eftir þér hafðir þú alltaf dálæti á dýrum. Elskaðir öll dýr hvort sem þau voru þín eigin eða annarra, enda hringdirðu oft bara til að vita hvernig kisurnar okkar Hafsteins hefðu það.

Þrátt fyrir að vera sá allra vanafastasti maður sem ég hef kynnst leyndist líka lítill ævintýrasveinn í þér. Ógleymanlegt að upplifa með þér Ítalíu, svo margt öðruvísi og nýtt. Þar var vissulega stundum krefjandi að mjólkin, smjörið og brauðið var ekki alveg eins og í KVH.

Við elskuðum að borða saman góðan mat, reyndar ekki allir sammála um uppáhaldsmatinn okkar, skötuna. Það verður skrýtið að elda skötu næst, vitandi að þú ert ekki slefandi af öfund í símanum eða mættur á fiskispaðann með sólskinsbros og eftirvæntingu sem ekki er hægt að lýsa. Dálætið á matnum og aðdáunin á eldamennsku Hafsteins var einnig alltaf jafn skemmtileg og þú spenntur, eins og smákrakki, að fá tilraunasmakkið.

Það verður erfitt og skrýtið að læra að lifa við þann veruleika að þú sért ekki hér lengur. Erfitt að geta ekki tekið upp símann og heyrt í þér. Erfitt að heyra símann hringja og það ert ekki þú. Erfitt að geta ekki tekið með þér endalaus hlátursköst yfir öllu og engu. Erfitt að hafa engan með nákvæmlega sama húmorinn.

Án efa var þitt allra mesta stolt í lífinu dóttir þín Rakel Birna og ég lofa þér að gera mitt allra besta til að vera til staðar fyrir hana og segja henni sögur af þér.

Ég ætla að einbeita mér að því að vera þakklát fyrir alla þá 12.326 daga sem ég fékk að vera systir þín. Þakklát fyrir þær óteljandi minningar sem ég á um þig og þær sem við sköpuðum saman. Þakklát fyrir allan hláturinn og grátinn. Þakklát fyrir allt sem gerði mig og þig að okkur.

Þú munt að eilífu lifa í hjarta mínu og ég mun heyra hlátur þinn svo lengi sem ég lifi. Elsku litli hjartans bróðir minn, ég vona svo innilega að þér líði vel þar sem þú ert núna. Veit ég þarf ekki að syngja fyrir þig Dvel ég í draumahöll, því ég veit þú sefur rótt.

Ég mun elska þig alltaf.

Þín

Inga Rut.

Elsku Svenni minn.

Svo skrýtin tilfinning sem um
mig fer,

nú farinn ertu frá mér nýjan veg.

Hann tekur á móti þér hinumegin við

veginn mun vísa þér, þér við hlið.

Í annan heim hann fylgir þér.

Á vængjum tveim vísar þér.

Það eitt mun ylja mér að vita af þér,

fylgja mér hvert sem er í hjarta mér.

Láttu mig vita ef ég get hjálpað þér,

og vinda sendu mér hvar sem er.

Í annan heim hann fylgir þér,

á vængjum tveim vísar þér.

(Birgitta Haukdal)

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið það hlutverk að vera stóra frænka þín. Þú varst svo ótrúlega góð sál, með hjarta úr gulli og með einstaklega skemmtilegan húmor.

Ég er þakklát fyrir alla samveruna okkar, ævintýrin og öll símtölin, sem voru aldrei stutt. Við gátum talað endalaust saman, bæði á léttu og djúpu nótunum.

Takk fyrir allt elsku Svenni minn. Ég mun halda þétt að mér dýrmætu minningum um þig. Ég veit að við munum hittast aftur, bless í bili.

Þín frænka,

Birgitta Maggý.

Elsku Svenni frændi minn.

Það er í raun alveg ótrúlegt að hugsa til þess að þú sért bara farinn, við náðum bara að gera brotabrot af því sem við ætluðum okkur. En ég er mjög þakklátur fyrir þetta einstaka samband sem við deildum, bæði að geta kallað þig frænda og minn besta vin. Vinur sem var alltaf tilbúinn að gefa sér tíma fyrir okkur, sama hvort það var til að sitja í sófanum og ræða allt milli himins og jarðar eða taka rúntinn og keyra ófáa kílómetra og hlusta á góða tónlist í botni.

Það er stórt skarð sem þú skilur eftir þig elsku frændi en minningin lifir. Takk fyrir ferðalagið, elsku vinur minn, þín verður sárt saknað og eins og þú sagðir svo oft við mig þá þykir mér ofboðslega vænt um þig.

Sigurvin Dúi Bjarkason.

Elsku hjartans Svenni minn.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Þung eru sporin og hjartað fullt af sorg, en margar minningar bærast í huga mér.

Ég fékk að vera þér samferða í lífinu frá fyrstu stundu og tengdumst við góðum böndum.

Við Rósa systir að ala ykkur upp, börnin okkar.

Sérlega alla tíð náðuð þið Sigurvin minn ekki bara frændsambandi heldur myndaðist einstök vinátta ykkar á milli. Hans missir er mikill.

Þú varst oft í pössun hjá Ernu frænku þegar þú varst yngri eða bara komst í heimsókn.

Hjarta þitt var einstaklega stórt og fallegt, þú vildir allt fyrir alla gera ef þú gast.

Þegar frumbernsku lauk og þú varðst að ungum manni héldum við sambandi alltaf, mismiklu en alltaf. Þegar ég hafði áhyggjur af velferð þinni og við töluðum saman sagðir þú oft: Frænka, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér en ég var þver og sagði: Jú ég má og hef það. Þá hlóstu yfir þvermóðsku minni en varst í senn þakklátur.

Duglegur varstu að lofa mér að fylgjast með þér, hvort sem var í mynd, spjalli eða símhringingum.

Þú varst einstaklega stoltur af einkadóttur þinni, Rakel Birnu, og einnig af fjölskyldu þinni, sem þér þótti afar vænt um.

Ég mun ætíð minnast þín, elsku glókollurinn minn, með þakklæti og góðum minningum og þú verður eitt af ljósunum mínum í minningunni.

Elsku Rósa, Guðmann, Rakel Birna, Katrín, Inga og fjölskylda, missir ykkar er mikill en við munum ylja okkur í framtíðinni við fallegar og skemmtilegar minningar.

Erna frænka
á Hvammstanga.

Elsku Svenni okkar.

Það er erfitt að trúa því að þú sért farinn og söknuðurinn er mikill. Líf þitt var ekki alltaf auðvelt. En þrátt fyrir það varstu vinalegur og aldrei langt í hláturinn þegar þú varst nálægt.

Það er sárt að sjá þig fara svona snemma á lífsleiðinni. Við vildum óska þess að við fengjum eitt augnabik í viðbót með þér, eitt knús eða samtal en það er nú ekki hægt. Við vonum að þú finnir loksins fyrir friði og ró, þó þú sért ekki lengur hér með okkur. Það var svo gott að sjá hvað þú varst hamingjusamur á seinustu dögunum þínum og verðum við að eilífu þakklát fyrir það. Takk fyrir allt, við elskum þig. Þar til næst, besti Svenni.

Emma Karen,
Ísak Ernir
og Katla Ísold.

Það var okkur mikil sorgarfrétt að heyra af andláti Svenna. Hann var aðeins ungur drengur þegar við heimsóttum Ísland síðast, og ennþá of ungur til að yfirgefa þetta líf.

Við minnumst Svenna sem einstaklega ljúfs ungs manns. Við Rick töluðum við hann síðast í fyrra. Hann hringdi í okkur á facetime og við spjölluðum nokkuð lengi. Hann gekk með okkur um og sýndi okkur skipið sem hann var að vinna á og lærðum við mikið um svæðin sem við höfðum ferðast um. Nokkrum sinnum voru orð eða orðasambönd sem við gátum ekki skilið svo Rick notaði hin alræmdu orð á íslensku „ég skil ekki“ og við hlógum að því og létum það ekki stoppa okkur.

Við vildum bara að við hefðum fengið annað tækifæri til að tala og hlæja saman. Kannski var þetta leið Guðs til að gefa okkur annað tækifæri til að vera með honum sem fullorðnum manni og við erum þakklát fyrir það.

Brandi og Tiffany eru mjög leiðar að hafa aldrei fengið tækifæri til að heimsækja Ísland og ekki hitt og kynnst Svenna. Við höfum deilt sögum af heimsókn okkar þegar hann var ungur og kvöldverðinum sem Rósa hélt fyrir okkur á heimili sínu.

Við sendum Rósu, Guðmanni, Rakel, Ingu Rut og Katrínu og allri fjölskyldunni á Íslandi samúðarkveðjur. Þetta er erfiður tími. Við elskum hvert og eitt ykkar.

Rick, Judy, Brandi,
Tiffany og öll
fjölskyldan í BNA.

Það er aldrei hægt að búa sig undir svona fréttir, jafnvel þótt líkur væru á að þetta myndi gerast of snemma. Sorg og söknuður aðstandenda er ekkert minni fyrir vikið. Svenni var svo góðhjartaður og hjálpsamur alla tíð og mikill húmoristi. Alltaf var hægt að leita til hans með spurningar um allt í sambandi við bílamál, enda byrjaði áhugi hans á bílum fljótlega eftir að hann kom í heiminn.

Æskuheimili Svenna var mitt annað heimili þar sem við Inga Rut systir hans höfum nánast verið óaðskiljanlegar síðan hann fæddist. Svenni var orkumesta barn sem ég hafði kynnst á þeim tíma, en sjálf var ég afskaplega róleg og heldur orkulítil. Mér fannst hann því spennandi rannsóknarefni og gerði ýmsar tilraunir til að róa hann. Tvær aðferðir báru árangur og voru því stundum notaðar þegar við Inga Rut vorum að passa hann. Önnur var auðvitað sú að fara í bílaleik, en hin var að syngja fyrir hann „Dvel ég í draumahöll“ þar til hann sofnaði.

Elsku Svenni, ég vona að þú dveljir nú í draumahöll með frið í hjarta. Kærar þakkir fyrir allt, þín verður sárt saknað.

Kveðja,

Marta.