Það þarf að losa um hömlur og fjötra í atvinnulífinu

Samkeppnishæfni er lykilatriði eigi íslenskt efnahagslíf að dafna. Í gær var sagt frá úttekt, sem viðskiptaháskólinn IMD í Sviss gerði um samkeppnishæfni milli landa og samantekt Viðskiptaráðs um úttektina.

Samkvæmt úttektinni fellur Ísland um eitt sæti milli ára í heildina og er nú í 17. sæti af þeim löndum, sem úttektin náði til.

Ýmsir þættir eru mældir í úttektinni, meginþættir og undirþættir og skemmst frá því að segja að á flestum sviðum stendur Ísland verr að vígi en árið á undan.

Ýmislegt getur valdið því að Ísland fellur um eitt sæti og það í sjálfu sér er ekki ástæða til uppnáms. Það er þó umhugsunarvert hvað Ísland er neðarlega á listanum í þáttum á borð við skattastefnu (40. sæti) og í alþjóðlegum fjárfestingum (60. sæti) og alþjóðaviðskiptum (59. sæti). Þá er verðlagið kapítuli út af fyrir sig því þar fellur Ísland um 25 sæti og er í því 60. Þá er Ísland neðst Norðurlandanna á listanum.

Þessi úttekt ber því ekki vitni að undanfarið ár hafi öllu hrakað á Íslandi. Hún er frekar til marks um kyrrstöðu.

Mikið hefur verið rætt um að losa þurfi um hömlur og fjötra í íslensku efnahagslífi og það er rétt. Iðulega er allt of flókið, kostnaðarsamt og íþyngjandi að hreyfa sig á Íslandi.

Gunnar Úlfarsson hagfræðingur Viðskiptaráðs segir í viðtali í Morgunblaðinu í gær að til dæmis yrði til bóta að samræma íslenskt regluverk því sem gerist á Norðurlöndum þannig að leikreglur væru samræmdar milli markaða.

Lykilatriði er þó að regluverkið gangi ekki lengra en gerist í grannlöndunum, að látið verði af hinni svokölluðu gullhúðun, sem nær væri að kenna við blý, og undið ofan af því fargani, sem þegar hefur verið lagt á atvinnulífið.