Horft yfir Grindavík.
Horft yfir Grindavík. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
En hann tók þó eins konar skyndiákvörðun um kosningar og skoðanakannanir boða ekkert gott fyrir Sunak. Hann hefur leitað til Borisar um hjálp og sá hefur boðist til að gera sitt, en tíminn er naumur og allur þorri kjósenda sennilega búinn að gera upp hug sinn

Það er ekki allt sem sýnist, þegar horft er til heimsmyndar stjórnmálanna og þarf raunar ekki svo gleiða linsu til að verða undrandi. Það eru kosningar í Bretlandi eftir tæpar tvær vikur, en þær voru boðaðar með fimm vikna fyrirvara eða svo. Og þá er á fimmta mánuð í að bandarísku kosningarnar skelli á fyrirvaralaust, eftir að hafa verið háðar síðustu 18 mánuðina eða rúmlega það.

Þeir vestra skera ekki kosningabaráttu við nögl

Forseti er þar vestra kosinn til fjögurra ára í senn og af því valdaskeiði fer rétt tæpur helmingur í kosningabaráttuna. Reyndar er ekki kosið um forsetann einan, því að á tveggja ára fresti eru kosnir á fimmta hundruð manns í fultrúadeild þingsins, en þriðjungur á tveggja ára fresti til öldungadeildarinnar, enda kjörtími þeirra, hvers og eins, sex ár í senn og þessir geta svo sem setið endalaust og er það helst „karlinn með ljáinn“ sem ræður því, hvort þetta sé orðið gott.

Breska Íhaldsflokknum eru núna boðuð þannig úrslit, að íhaldsheimilin taka ekki í mál að ræða þær spár fyrr en dregið hefur verið fyrir og börnin eru komin í háttinn. En á meðan Kaninn boðar kosningar eftir tæp tvö ár (sem eru loks komin í tæpa fimm mánuði) og breski forsætisráðherrann eftir fáar vikur, þá náði Macron forseti Frakklands að slá öll met, með því að boða kosningar aðeins klukkustund eftir að hann frétti um þá útreið sem flokkur hans í Frakklandi hafði fengið þegar kosið var þar um hlutdeild þess lands í þingkraðakinu í Brussel, en þar var þingfulltrúum nýverið fjölgað upp í 720.

Þar af fékk heimsveldið með höfuðstöðvar í París og flokkur Macrons sérstaklega, eina 30 fulltrúa, en flokkur Marine Le Pen helmingi fleiri. Nú skiptu þessar niðurstöður nákvæmlega ekki neinu í Brussel, þar sem þarna var aðeins verið að kjósa um fulltrúa fyrir ESB þar í borg. Því þótt þeir sem öðlast sæti þar fái vissulega að klappa nokkrum sinnum í viku, þegar kommissararnir gefa merki, þá er ekki víst að það dugi þeim fulltrúum, sem metnaðarfyllstir eru.

Nefnt hefur verið, að úr vöndu yrði að ráða ef við Íslendingar slysuðumst inn í þennan stóra sal, sem sjaldan er setinn að ráði, og gæfum þar með í leiðinni það litla eftir, sem við höfum eitthvað enn um að segja og orðið er lítilræði til að sýnast gefi tilefni til.

Einhver reiknaði út að Ísland fengi hálfan þingmann gengi það þar inn, nema að þar yrði enn fjölgað í salnum, svo að hægt væri að tosa „eskimóann“ upp í heilan!

Og það er alveg óþarft að harma sinn ½ hlut, enda þykist bréfritari muna bærilega, eftir 20 ára þingsetu eða svo, sem var góður tími, að þá heyrðist stundum ofan í samþingmenn, sem hefðu flestir tekið því fegins hendi, að fá að verða hálfir í Brussel í fimm ár í röð og meira að segja verið sérstaklega kosnir til þess.

Það hefði svo sem ekki breytt miklu í tilviki bréfritara sjálfs, sem er meira eða minna hættur fyrir alllöngu að punta sig með slíkum hætti, en hann veit um ýmsa á þingi sem myndu bera sig prýðilega og verða hinir þörfustu menn, fengju þeir að verða gleðiríkir hálfir þingmenn í Brussel á fullum launum, auk sinna íslensku eftirlauna og myndu láta til sín taka í öllum þeim efnum, eins og til væri ætlast, sem er minna en lítið.

Og yrði þess gætt tefja ekki mikilvæga ástundun golfvallanna og könnun allra þeirra glæsilegu veitingastaða, sem hrósað er í hástert að verðleikum.

Fram af brúninni?

En þótt ESB-kosningarnar hafi sannarlega ekki snúist um ESB, þá velta ýmsir fyrir sér í kjölfar þeirra, hvort hin óvenjulegu taugaveiklunarviðbrögð, við því sem gerðist, einkum í frönsku forsetahöllinni, muni duga til að að ýta Evrópusambandinu fram af hengifluginu.

Það væri auðvitað gustuk fyrir alla.

Kosningar til franska þjóðþingsins, sem Macron boðaði til, sumir segja í undrun hans og óðagoti, geti nefnilega auðveldlega ýtt ESB út í efnahagslegar ógöngur, með ófyrirsjáanlegum eftirköstum.

Myndin, eftir hin vanhugsuðu viðbrögð er engin smásmíði og mun skjóta flestum ríkjum álfunnar skelk í bringu. Það versta og vandræðalegasta við þessi viðbrögð forsetans er, að ekki verður betur séð en að þau hafi veið algjörlega óþörf.

Macron var fjarri því að vera einn evrópskra ráðamanna um að horfa framan í hin aumu úrslit í kosningum til Evrópuþingsins. Allir vita að þær kosningar höfðu enga þýðingu, sem fyrirbæri, nema nafnið eitt. Þær hafa, öfugt við margar aðrar kosningar, aldrei skipt nokkru einasta máli.

Og það er ekkert áfall fyrir elítuna í Brussel. Þannig var stofnað til þess frá fyrsta degi. Auðvitað var vottur af gleðibrag á meðal þeirra „hægri flokka“ sem sáu að þeir eru ekki lengur forboðnir og dritaðir skít upp fyrir höfuð, eins og hinir gömlu, þreyttu og þekktu flokkar meginlandsins hafa gengið út frá hingað til. Olaf Scholz kanslari Þýskalands fór ekki betur út úr þessu en Macron gerði. En hann blés ekki til kosninga eins og Macron, enda hefur Olaf Scholz ekki örugga sessu með plussi til að sitja á í nýju Kanslarahöllinni, nærri Brandenburgar-hliðinu, eins og Macron hefur í Élysée, hinni 300 ára gömlu forsetahöll.

Scholz var samstundis spurður um það, hvort hann myndi ekki fylgja hinni virðingarverðu ákvörðun starfsbróður síns í París, en bandaði því frá sér, eins og hverri annarri vitleysu, sem verðskuldaði ekki umsögn.

Eins og fyrr hefur verið sagt, boðaði Macron forseti kosningar aðeins klukkutíma eftir að tölurnar bárust. Líklegast er, að hann hafi ætlað sér að hræra rækilega upp í tilfinningalífinu í landinu, örskömmu fyrir setningu Ólympíuleikjanna. Hann mat það svo, að nú yrði að skjóta öflugustu aðvörunarskotum úr stærstu fallbyssum franska ríkisins, sem væru á lausu, svo að kjósendur sæju sitt óvænna og brygðust til varna og létu þegar í stað af allri léttúð heima fyrir, sem truflaði þó ekki nokkurn skapaðan hlut í gervilýðræðinu í Brussel. Það er í eðli þeirra þar að láta sér ekki bregða.

Óðagoti hafnað

En þótt Olaf Scholz hafi hafnað óðagotsaðferð Macrons, þá er Macron ekki einn um hituna, þó að í því tilviki sé allt annað mál uppi. Það mál hafði ekkert með Evrópusambandið að gera. Landið sem á í hlut, hafði haft mikið fyrir því að koma sér út úr því bandalagi.

Margur segir, að Boris Johnson sé mikið ólíkindatól. Þó að þeim Winston Churchill verði ekki endilega líkt saman, þá er margt sem þeir eiga sameignlegt, Boris og Winston, og þótt þeir séu um margt ólíkir, þá voru þeir báðir ólíkindatól – (og Boris er það enn).

Churchill var snillingur á fjölmörgum sviðum, því neitar enginn og þar sem hann var bestur stóð enginn honum snúning. Þegar Bretar áttu minnst undir tilveru sinni, hvort hún yrði áfram eða gufaði upp, gripu leiðtogarnir til Churchills. Meira að segja á þessari úrslitastundu í tilveru þjóðarinnar voru ekki allir landar hans, fjarri því, sannfærðir um að þar væri rétti maðurinn fundinn og ef sá brigðist væru endalokin skammt undan.

Meira að segja Georg VI., faðir Elísabetar drottningar, hafði lengi miklar efasemdir um að þar væru menn að veðja á réttan hest.

Churchill var fæddur inn í Íhaldsflokkinn, en fór þaðan sem ungur maður í Frjálslynda flokkinn og komst þar til mikilla metorða, þótt ekki yrði hann formaður í þeim flokki. Fyrri heimsstyrjöldin brast á og David Lloyd George var forsætisráðherra. Churchill komst til æstu metorða og varð m.a. flotamálaráðherra. Hann var óneitanlega öflugur ráðherra fyrri part stríðsins mikla, en árásin á Gallipoli 1915 fór illa og Churchill var sakaður um galla í skipulagi árásarinnar. Skömmu síðar sagði hann sér úr ríkisstjórninni og skráði sig í herinn og barðist á vesturvígstöðvunum í sex mánuði.

Fyrirsát frekar en málefnaleg atlaga

Þegar að seinni heimsstyrjöldin skall á varð Churchill ráðherra, en hann var illa séður af mörgum stuðningsmönnum Chamberlains forsætisráðherra, enda hafði Churchill lengi gagnrýnt harðlega slælegan undirbúning styrjaldar, sem hann taldi óhjákvæmilegt að skylli á og óþolandi að Bretar hefðu ekki tekið að vígbúast fyrir löngu.

Chamberlain og hans ráðherrar gagnrýndu Churchill harðlega og sögðu hann stríðsæsingamann, ekki síst eftir að þeir Hitler og Chamberlain höfðu árið 1938 gert samning „sem tryggðu Bretum frið um okkar daga!“ Tilburðir til að vígbúast myndu falla illa í kramið hjá Hitler, sögðu þeir, sem væri hinn aðilinn að friðarsamningunum! Mjög hörð gagnrýni Churchill í þinginu, sem hafði lítinn stuðning í byrjun, fékk smám saman byr og varð til þess að augu margra opnuðust.

Þegar Chamberlain sagði loks af sér þá var álitamál uppi um hver af þremur ætti að verða forsætisráðherra. Vitað var að Georg VI. konungur hafði ekki gott álit á Churchill. Hann féllst þó á niðurstöðu þessa þriggja manna hóps og skipaði Churchill forsætisráðherra.

Það er skemmst frá því að segja, að ált konungsins á Churchill átti eftir að gjörbreytast og hann viðurkenndi að þeir hefðu aldrei getað fengið betri mann í þennan erfiða starfa, upp á líf og dauða þjóðar.

Dóttir hans, síðar Elísabet II. hafði alla tíð mikið dálæti á Churchill, sem varð fyrsti forsætisráðherra hennar.

Boris Johnson er fjarri því að vera gallalaus frekar en fyrrnefnda stórmennið, en það sem notað var til að fella hann var mjög smátt í sniðum og virkaði meira sem fyrirsát en málefnaleg atlaga.

Boris vann glæsilegri sigur en nokkur annar um langa hríð. Rishi Sunak núverandi forsætisráðherra hafði vissulega ekki eins mikið svigrúm og Macron forseti hafði. En hann tók þó eins konar skyndiákvörðun um kosningar og skoðanakannanir boða ekkert gott fyrir Sunak. Hann hefur leitað til Borisar um hjálp og sá hefur boðist til að gera sitt, en tíminn er naumur og allur þorri kjósenda sennilega búinn að gera upp hug sinn.