Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Forseti Íslands ávarpaði þingheim við þinglok í fyrrakvöld en forsetinn kemur ekki til þingfrestunar nema hann sé að láta af embætti.

Forseti Íslands ávarpaði þingheim við þinglok í fyrrakvöld en forsetinn kemur ekki til þingfrestunar nema hann sé að láta af embætti.

Guðni Th. Jóhannesson sagði við þetta tilefni meðal annars:

„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Hér á hinu háa Alþingi er þungamiðja hins pólitíska valds. Hingað sækja ráðherrar umboð sitt en þingmenn sækja sitt umboð til þjóðarinnar. Því er svo brýnt að fólk geti borið traust til Alþingis, að hér sé unnið að almannaheill, hlúð að hagsmunum þeirra sem byggt hafa upp okkar öfluga samfélag og búið í haginn fyrir næstu kynslóðir.“

Í huga okkar í Samfylkingunni snúast stjórnmálin öðru fremur um að tryggja almannahagsmuni. Að stuðla að umbótum og framförum öllum til heilla, ekki fáum útvöldum. Þetta á við í öllum málaflokkum; heilbrigðisþjónustu, menntun, auðlindanýtingu, uppbyggingu samgangna, og þannig mætti áfram telja. Ákvarðanir okkar verða að standast skoðun með kynjagleraugum, frá sjónarhóli umhverfisverndar og síðast en ekki síst próf jafnaðarstefnunnar um sanngjarna tekjuöflun hins opinbera til að fjármagna þjónustu sem allir íbúar þessa lands hafa aðgengi að og jafnan rétt til að njóta.

Það er gagnlegt að skoða afgreiðslu nokkurra þingmála í þessu ljósi. Ný löggjöf um örorkulífeyriskerfið var samþykkt og markar tímamót eftir áralangan aðdraganda. Í þessu mikilvæga máli lögðu stjórnarandstöðuflokkarnir undir forystu Samfylkingarinnar til breytingar til bóta. Tillögur um hækkun heimilisuppbótar, að enga mætti þvinga í svokallað samþætt sérfræðimat og að útfærsla þessa nýja mats verði kynnt og rædd í þinginu fyrir innleiðingu þess. Víðtæk samstaða er um löggjöfina en það skiptir miklu fyrir innleiðingu hennar og framhaldið. Við þessa afgreiðslu voru almannahagsmunir sannarlega lagðir til grundvallar, enda örorkukerfið forsenda þess hægt sé að kenna samfélagið við velferð.

Sama verður ekki sagt um ýmis önnur þingmál. Samgönguáætlun strandaði í þingnefnd annan veturinn í röð vegna innbyrðis deilna á milli stjórnarflokkanna. En þessir sömu flokkar náðu saman um að tryggja tiltekna sérhagsmuni með því að kvótasetja grásleppuveiðina og við afgreiðslu búvörulaga fyrr í vor, svo að tvö dæmi séu tekin. Varla þarf að minna lesendur á efnahagsástandið. Viðvarandi hávaxtastig sligar þau sem bera þungar húsnæðisskuldir og há verðbólga árum saman dregur jafnt og þétt úr kaupmætti almennings, auk þess að lenda af mestum þunga á þeim sem minnstar hafa tekjurnar.

Þriðji þingvetur þessa kjörtímabils var langur og á köflum þungur undir fæti. Fátt bendir til þess að umbætur í þágu almannahagsmuna verði leiðandi í stjórnarsamstarfinu á komandi vetri en alltaf má vona að hann verði stuttur og að það vori snemma í pólitíkinni.

Höfundur er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. tsv@althingi.is