Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
Margt hefur áunnist á þessu eina ári en ljóst er að verkefnin framundan eru ærin. Ég mun hér eftir sem hingað til vinna heilshugar að framfaramálum fyrir íslenskt samfélag.

Um þessar mundir hef ég verið í embætti dómsmálaráðherra í eitt ár. Þetta ár hefur verið afar viðburðaríkt fyrir íslenskt samfélag og einnig hafa verið sviptingar á hinu pólitíska sviði.

Ég ákvað í upphafi að leggja sérstaka áherslu á að koma í gegn breytingum á bæði útlendingalögum og lögreglulögum, en einnig vildi ég leggja áherslu á endurskoðun fullnustukerfisins og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Þegar litið er yfir farinn veg er ljóst að mikill árangur hefur náðst í þessum málaflokkum.

Íslenskt samfélag er að takast á við flókna stöðu í málefnum útlendinga sem kallar á skýra sýn og aðgerðir. Um það sammæltist ríkisstjórnin með heildarsýn í málefnum útlendinga í því augnamiði að ná betri stjórn á málaflokknum. Stórt skref var stigið þegar Alþingi samþykkti frumvarp mitt um nauðsynlegar breytingar á útlendingalögunum sem hafa það markmið að fækka umsækjendum um alþjóðlega vernd, auka skilvirkni í málsmeðferð og ná niður kostnaði. Það var mikið heillaskref og einar veigamestu breytingar sem gerðar hafa verið á málaflokknum frá upphafi, en málaflokkurinn þarfnast stöðugs endurmats og endurskoðunar og því hef ég þegar boðað að ég mun leggja fram frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni á næsta þingi.

Alþingi samþykkti á síðasta degi þingsins frumvarp mitt um aðkallandi breytingar á lögreglulögum, en unnið hefur verið að breytingum í þessa veru í áraraðir. Með breytingunum eru lögreglunni veittar nauðsynlegar heimildir til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi og koma í veg fyrir athafnir er geta haft áhrif á öryggi ríkisins. Það er ein af frumskyldum mínum sem dómsmálaráðherra að tryggja öryggi borgaranna og það er óásættanlegt að íslensk lögregla sé eftirbátur kollega sinna í nágrannaríkjunum þegar kemur að nauðsynlegum heimildum til afbrotavarna og þess vegna var mikilvægt að þetta skref hafi verið tekið.

Ég hef hafið vinnu við endurskoðun fullnustukerfisins og nú þegar er hafin vinna við að stórbæta aðstöðu í fangelsum landsins. Þar er stærsta verkefnið bygging nýs fangelsis að Litla­ Hrauni og sú uppbygging mun grundvallast á nútímaþekkingu á sviði endurhæfinga og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga.

Mikilvægt er að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi og þegar hefur verið varið 200 milljónum kr. í að fjölga stöðugildum í meðferð kynferðisbrota hjá lögreglu, ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Þetta hefur stytt málsmeðferðartíma kynferðisbrota og fækkað opnum kynferðisbrotamálum töluvert.

Að lokum vil ég minna á mikilvægt hlutverk almannavarna. Sjö sinnum hefur gosið á Reykjanesskaga og við sjáum ekki fyrir endann á því ástandi sem nú varir. Varnargarðarnir hafa ótvírætt sannað gildi sitt en ekki verður nógsamlega þakkað þeim viðbragðsaðilum sem hafa staðið vaktina undanfarna mánuði.

Margt hefur áunnist á þessu eina ári en ljóst er að verkefnin framundan eru ærin. Ég mun hér eftir sem hingað til vinna heilshugar að framfaramálum fyrir íslenskt samfélag.

Höfundur er dómsmálaráðherra.