Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Þó að atkvæði féllu að meginhluta eftir línum stjórnar og stjórnarandstöðu, þá voru viðbrögð þingmanna VG með þeim hætti að ósættið blasti við.

Þinglokin á laugardag voru að sumu leyti hefðbundin, en að mörgu leyti bara alls ekki. Þó að innri mein stjórnarflokkanna hafi orðið öllum ljós fyrir ári, þegar þingið var fyrirvaralaust sent heim og málum stjórnarinnar sópað í ruslafötuna vegna innbyrðis ósættis, þá var það ekkert á við það sem blasti við landsmönnum síðustu þingvikuna þennan veturinn.

Lokavikan hófst með framlagningu vantraustsyfirlýsingar á hendur matvælaráðherra, sem var afgreidd á fimmtudag. Þó að atkvæði féllu að meginhluta eftir línum stjórnar og stjórnarandstöðu, þá voru viðbrögð þingmanna VG með þeim hætti að ósættið blasti við.

Starfandi formaður VG, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sagði tvo þingmenn Sjálfstæðisflokksins óstjórntæka, þar sem annar þeirra hefði setið hjá en hinn varið matvælaráðherra vantrausti með atkvæði sínu.

Þetta þótti mörgum sérstakt í ljósi þess að tveir þingmenn VG greiddu atkvæði með vantrausti á dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sigríði Andersen, þegar atkvæði voru greidd um vantraust í garð ráðherrans í mars árið 2018.

Þá var vandalaust að þingmenn VG greiddu atkvæði með vantrausti á ráðherra Sjálfstæðisflokksins, en nú eru menn óstjórntækir fyrir það að verja ráðherra vantrausti, en halda til haga sjónarmiðum í atkvæðaskýringu og svo að sitja hjá. Reglurnar eru sannarlega ólíkar á milli stjórnarflokkanna.

En athyglisverðast var að fylgjast með hvað stjórnarliðar segja ástandið nú gott innan stjórnarinnar. Í þeim efnum gekk Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sennilega lengst með því að segja „andrúmsloftið í ríkisstjórninni hafa lagast eftir að Katrín hætti“. Ef sú afstaða dugar ekki til að gleðja þingmenn VG, þá veit ég ekki hvað gæti gert það.

Öll virðist þessi sátt stjórnarflokkanna hnýtt saman sem samkomulagi um þrjú mál, eitt fyrir hvern flokk. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hluta þess sem þarf að gera varðandi breytingar á útlendingalögum í gegn, Framsóknarflokkurinn fékk stóraukin útgjöld til listamannalauna, þegar slagurinn við verðbólguna stendur sem hæst, og VG fékk nýja stofnun, Mannréttindastofnun VG.

Það er hætt við að næstu misseri verði dýr fyrir okkur skattgreiðendur. Því verður kostað til sem þarf til að tryggja að stjórnin geti skakklappast fram á vor eða haust árið 2025, samfélaginu öllu til tjóns.

Rétt er að benda á í þessu samhengi að aðrir valkostir hafa verið í stöðunni hvað stjórnarsamstarf varðar, allt frá kosningunum 2021, það þýðir því lítið að kvarta yfir ósanngirni raunheima þegar mælistikan er lögð á árangur þeirrar stjórnar sem enn höktir áfram.

Eins og Helgi Björnsson söng; þá bera sig allir vel, þó (við stjórnarborðið) séu stormur og él.

Þau él mun stytta upp um síðir, þá mun muna um Miðflokkinn.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins.