Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Okkar stef er og verður alltaf að skattahækkanir séu aldrei eina rétta svarið eins og öðrum flokkum verður tíðrætt um.

Þingveturinn sem lauk aðfaranótt sunnudags var í senn viðburðaríkur og afkastamikill. Eldsumbrot á Reykjanesi settu einna mestan svip á þingstörf og samþykkti Alþingi fjölmargar stuðningsaðgerðir við fólk og fyrirtæki vegna ástandsins í Grindavík. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið og verður áfram að tryggja öryggi fólks og fyrirsjáanleika fyrir heimili og fyrirtæki í Grindavík eftir fremsta megni. Síðastliðið ár hefur enn og aftur minnt okkur á að náttúran ræður hérna á Íslandi.

Á vormánuðum náðust langtímakjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Stöðugleiki á vinnumarkaði er hagur þjóðarinnar allrar. Á meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar til stuðnings kjarasamningum var hækkun hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði, sem að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins mun ná til allra þeirra sem eiga rétt á greiðslum vegna fæðingarorlofs. Á næstu þremur árum verða hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði þannig hækkaðar um helming. Um er að ræða mikilvægt mál sem er til þess fallið að styðja við nýja foreldra og stuðla að aukinni fæðingartíðni sem hefur aldrei verið lægri á Íslandi.

Endurnýjaðar áherslur

Ríkisstjórnarflokkarnir sameinuðust um tiltekin forgangsmál í apríl þegar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tók við embætti forsætisráðherra. Umrædd forgangsmál voru einkum að ná saman um skilvirkari útlendingalöggjöf, græna orkuöflun og ná tökum á vöxtum og verðbólgu með ábyrgri efnahagsstjórn. Það var því sérstaklega ánægjulegt þegar ný útlendingalöggjöf var samþykkt á Alþingi í júní. Ný útlendingalög munu auka skilvirkni í kerfinu, stytta málsmeðferðartíma umsækjenda um alþjóðlega vernd og eru til þess fallin að fækka umsóknum um vernd hér á landi, sér í lagi meðal þeirra sem þegar hafa fengið hæli í öruggu landi. Kostnaður vegna málaflokksins hefur aukist gífurlega á síðustu árum og álagið á félagslega innviði hefur verið of mikið. Samþykkt nýrrar útlendingalöggjafar er mótsvar við því ástandi sem skapast hefur og afrakstur áralangrar baráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir skilvirkari stjórn á málaflokknum.

Samhliða samþykkt nýrra útlendingalaga eru líkur á því að ársverðbólga fari niður fyrir 6% í júnímánuði. Það er því tilefni til að vera bjartsýn á vaxtalækkanir á haustmánuðum sem heimilin í landinu munu njóta góðs af. Það er ánægjulegt og hagsmunamál allra að staða efnahagsmála á Íslandi er áfram góð á alla helstu mælikvarða. Kaupmáttur er mikill, laun eru há og þjóðfélagslegur jöfnuður er einna mestur hér á landi. Það er verk að vinna að stuðla að áframhaldandi lækkun verðbólgu og þar munum við í Sjálfstæðisflokknum áfram tala fyrir ábyrgri forgangsröðun útgjalda í stað hærri skatta á fólk og fyrirtæki. Okkar stef er og verður alltaf að skattahækkanir séu aldrei eina rétta svarið eins og öðrum flokkum verður tíðrætt um.

Málin segja söguna

Á meðal annarra mála sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á eru ný lögreglulög sem veita lögreglu tilteknar og skilyrtar heimildir í breyttum og harðnandi heimi til eftirlits með einstaklingum vegna gruns um skipulagða brotastarfsemi eða ógn við öryggi ríkisins, lög um heimild til sölu á eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, sameining stofnana á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála til að auka meðal annars skilvirkni í leyfisveitingum, langtímastuðningur við Úkraínu vegna innrásar Rússlands og loks veigamikil og tímabær endurskoðun á örorkukerfinu. Það er af mörgu að taka – málin hafa verið mörg og fjölbreytt og taka mið af margbreytileika samfélagsins.

Nýtt árangurstengt fjármögnunarlíkan háskólanna var þannig kynnt, tveir nýsköpunarsjóðir voru sameinaðir í einn undir hatti Kríu og kvótasetningu á grásleppu varð loks komið á. Húsnæðisbætur og barnabætur voru hækkaðar verulega ásamt því að dregið var úr tekjuskerðingum svo fleiri fjölskyldur fái notið stuðnings í formi barnabóta. Við fylgdum fordæmi ríkja Evrópu með stofnun Mannréttindastofnunar og stóðum þar við alþjóðlegar skuldbindingar sem við undirgengumst árið 2016 um réttindi fatlaðs fólks. Fjárfestingaheimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í fyrirtækjum á leigumarkaði voru auknar og listamannalaun voru hækkuð í fyrsta sinn í 15 ár án nýrra útgjalda á málefnasviðinu. Þá var það ákaflega ánægjulegt að allir þingmenn allra flokka á Alþingi sameinuðust um fordæmingu á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Á skömmum tíma hefur ríkisstjórnin, nú undir forystu Sjálfstæðisflokksins, sýnt að hún lætur verkin tala. Við höfum sýnt ábyrgð í verki og orði, sýnt yfirvegun í okkar málflutningi og fylgt okkar málum úr hlaði af festu. Það dugar nefnilega skammt að koma fram með loforð um gull og græna skóga án þess að nokkur innistæða sé fyrir þeim. Árangur kostar auðvitað málamiðlanir á milli þriggja ólíkra flokka, en þegar upp er staðið er það starf okkar stjórnmálamanna sem vilja taka hlutverk sitt alvarlega að axla þá ábyrgð. Verkefnið er einfaldlega að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar allrar nú og til framtíðar. Það hlutverk okkar höfum við leyst af hendi á liðnum þingvetri.

Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.