Viðar Eggertsson
Viðar Eggertsson
Það er brýnt réttlætismál að frítekjumark vegna fjármagnstekna verði einnig 300.000 kr. í lögum um almannatryggingar eins og er nú í skattalöggjöfinni.

Það er brýnt réttlætismál að frítekjumark vegna fjármagnstekna verði einnig 300.000 kr. í lögum um almannatryggingar eins og er nú í skattalöggjöfinni.

Hið árlega uppgjör við eldra fólk er nú komið af hálfu almannatrygginga sem byggist á skattframtali ársins 2023. Eins og síðustu verðbólguár þá kemur í ljós að þúsundir skulda Tryggingastofnun vegna ofgreidds lífeyris síðasta ár. Langoftast er þetta vegna þess að fólk hefur vanáætlað fjármagnstekjur síðasta verðbólguárs.

Ég kalla þetta „verðbólguár“ því þegar verðbólga ríkir eins og hefur verið hér síðustu ár þá eru innlánsvextir af sparifé hærri en ella og skila því hærri ávöxtun í krónum talið, en eru þó yfirleitt neikvæðir vextir samt.

Á heimasíðu TR segir: „Endurútreikningur á lífeyrisgreiðslum þínum frá Tryggingastofnum fer almennt fram í lok maí eftir skil á skattframtali. Þá er farið yfir hvort þú hafir fengið rétt greitt frá TR á síðasta ári miðað við þín réttindi.“

Það er nánast útilokað fyrir fólk að sjá fyrir fram þegar það gerir tekjuáætlun sem skilað er inn til TR í upphafi árs hverjar fjármagnstekjur verða í lok árs af venjulegum sparireikningum. Þessir neikvæðu vextir af venjulegum sparnaði valda því nú, eins og svo oft áður, að við uppgjör ársins 2023 eru þúsundir ellilífeyristaka í skuld við Tryggingastofnun ríkisins og ellilífeyrir þeirra verður skertur frá 1. september nk. þar til meint skuld er uppgreidd.

Hér er um að ræða venjulegan sparnað eldra fólks sem það hefur sér til halds og trausts ef það þarf að mæta óvæntum útgjöldum eins og fara gerir. Enda geta óvænt útgjöld vegna ýmissa brýnna mála sett afkomu eldra fólks í uppnám því oft má lítið út af bregða til að svo verði, því fjöldi eldri borgara býr við skertari afkomumöguleika en fólk sem enn er á vinnumarkaði.

Í skattalöggjöfinni er viðurkennt að ávöxtun af venjulegum sparireikningum getur verið neikvæð þótt þeir skili einhverjum krónum. Því er frítekjumark fjármagnstekna í skattalöggjöfinni 300.000 kr. á ári. Þessa frítekjumarks njóta allir að sjálfsögðu. En þegar kemur að almannatryggingum er ekkert slíkt frítekjumark. Þar er hver einasta króna af neikvæðum vöxtum sparireikninga talin til tekna og kemur til fullrar skerðingar á ellilífeyri frá TR.

Eldri borgarar greiða eins og aðrir 22% fjármagnstekjuskatt sem yfirleitt er innheimtur af bönkum og öðrum fjármálastofnunum í lok hvers árs. Þegar staðfest skattskýrsla liggur fyrir greiðir skatturinn til baka oftekinn fjármagnstekjuskatt upp að 300.000 kr. en þessi sama upphæð kemur af fullum þunga til skerðingar á ellilífeyri því þar er ekkert frítekjumark.

Það er brýnt réttlætismál að lög um almannatryggingar og skattalög verði samræmd þannig að frítekjumark vegna fjármagnstekna verði einnig 300.000 kr. í lögum um almannatryggingar eins og er vegna fjármagnstekjuskatts.

Eldra fólk getur ekki beðið lengur eftir réttlæti!

Höfundur er leikstjóri og varaþingmaður Samfylkingarinnar.