Valdimar Ingi Gunnarsson
Valdimar Ingi Gunnarsson
Eðlilegt væri að greitt væri fyrir auknar framleiðsluheimildir en ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu.

Í nýju frumvarpi um lagareldi á að gefa heimild til að færa lífmassa á milli eldissvæða. Jafnframt eru ákvæði um heimild til að framselja laxahluti (lífmassi af eldislaxi). Þessar breytingar leiða til aukinnar framleiðslu og verðmæta eldisleyfa. Fyrst skulum við skoða þróun mála áður en komið er að einstökum tillögum í frumvarpinu.

Stefnumótun

Í yfirgripsmikilli og fróðlegri skýrslu Boston Consulting Group (BCG) um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi, sem var unnin fyrir matvælaráðuneytið og gefin út í febrúar 2023, er að finna margar tillögur sem nýst hafa við stefnumótun stjórnvalda. BCG lagði til heimild um að færa lífmassa af eldislaxi á milli svæða en kom ekki með neinar tillögur um framsal laxahluta. Laxahlutir eru hlutdeild rekstrarleyfishafa af heildarlaxamagni sem heimilt er að ala hverju sinni í sjókvíum hér á landi. Í framhaldi af skýrslu BCG og skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi gaf matvælaráðuneytið út stefnumótun í lagareldi í október 2023 undir heitinu Uppbygging og umgjörð lagareldis – stefnan til ársins 2040. Í stefnumótuninni var hvorki fjallað um flutning á lífmassa á milli svæða né framsal á laxahlutum.

Flutningur og áhættumatið

Lagður er til í frumvarpi um lagareldi sá möguleiki að endurskoða staðsetningu eldissvæða til að hámarka leyfilegan lífmassa innan áhættumats erfðablöndunar. Þ.e.a.s. því lengra sem eldið er frá skráðum laxveiðiám því meiri heimildir er hægt að fá þar sem talið er að það dragi úr erfðablöndun. Hér er t.d. hægt að nefna að ef 7.500 tonna heimildir af frjóum laxi í Berufirði yrðu fluttar til Fáskrúðsfjarðar, Reyðarfjarðar og Seyðisfjarðar myndu framleiðsluheimildir aukast um helming. Við það myndi verðmæti eldisleyfa Ice Fish Farm (Kaldavík) aukast um 7,5 milljarða króna m.v. verðmætamat upp á eina milljón króna á hvert tonn. Sama gildir á Vestfjörðum, en þar gefur Patreksfjörður mestu heimildirnar við flutning þar sem fjörðurinn er lengst frá skráðum laxveiðiám. Í því samhengi má benda á að mesta tjón sem hefur átt sér stað vegna slysasleppinga varð í Patreksfirði í ágúst 2023, sem setur stórt spurningarmerki við ágæti þessarar aðferðafræði, að halda erfðablöndun í lágmarki.

Tilfærsla á lífmassa

Alltaf geta komið upp tilvik þar sem ekki er hægt að nýta framleiðsluheimildir á eldissvæðum, s.s. vegna þess að svæðið hefur ekki fengið nægilega langa hvíld. Það getur komið sér illa, sérstaklega rekstraraðilum sem hafa ekki varasvæði í nágrenninu. Fram að þessu hafa framleiðsluheimildir rekstrarleyfishafa hér á landi miðast við einn fjörð. Erlendis, s.s. í Noregi, er heimilt að flytja framleiðsluheimildir á milli svæða eða fjarða, svo framarlega sem þar er nægilegt burðarþol. Heimild til tilfærslu á lífmassa getur tryggt hámarksnýtingu hverju sinni og með því að koma þessari breytingu á eykst framleiðslan og verðmæti eldisleyfa um milljarða króna.

Framselja laxahluti

Skv. frumvarpinu er rekstrarleyfishöfum heimilt að framselja framleiðsluheimildir til annarra rekstrarleyfishafa, þó ekki leigja til eldis meira en tveggja kynslóða í senn. Rekstrarleyfishafi getur haldið framleiðsluheimildum í 5-6 ár án þess að nýta þær áður en hann sætir innköllun. Í framhaldinu þyrfti rekstraraðili að nýta heimildirnar sjálfur í eina kynslóð og síðan væri hægt að leigja þær aftur. Hér geta því laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila, sem hafa sankað að sér heimildum undanfarin ár, leigt framleiðsluheimildir til íslenskra fyrirtækja á næstu árum og jafnvel áratugum. Með þessari breytingu eykst framleiðslan á landsvísu og leigutekjur fást af framleiðsluheimildum sem rekstraraðili hefur ekki nýtt af einhverjum ástæðum. Verðmætaaukning eldisleyfa gæti numið milljörðum króna.

Að lokum

Óljóst er hver kom með tillögu um heimild framsals laxahluta, og hvort hagsmunaaðilar hafi komið að hönnun á útfærslunni eru ekki neinar upplýsingar um. Það er þó ljóst að ákvæði um flutning á lífmassa og framsal laxahluta í frumvarpi um lagareldi stuðlar að aukinni framleiðslu á eldislaxi og verðmætum eldisleyfa jafnvel um einhverja tugi milljarða. Eðlilegt væri að greitt yrði fyrir auknar framleiðsluheimildir sem fyrirhugaðar breytingar hafa í för með sér, en ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og vinnur hjá Sjávarútvegsþjónustunni.