Jónína Björk Óskarsdóttir
Jónína Björk Óskarsdóttir
Brýnast að bæta kjör þeirra verst settu

Á hverju ári leggja þingmenn Flokks fólksins fram fjölda þingmála sem snerta hagsmuni aldraðra. Meðal þessara mála eru þingsályktunartillaga um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum, frumvarp um 100.000 kr. frítekjumark vegna lífeyristekna, undanþágu hjálpartækja frá virðisaukaskatti, afnám vasapeningafyrirkomulagsins, aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum og afnám skerðinga vegna launatekna aldraðra. Af öllum þeim málum sem snerta aldraða er brýnast að bæta kjör þeirra sem lifa undir lágmarksframfærsluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Flestir þeir sem eru í þessum hópi hafa engar tekjur aðrar en lífeyri frá almannatryggingum. Í þessum hópi eru fullorðnar konur, ömmur og langömmur sem eyddu öllum sínum starfsæviárum í það að vera heimavinnandi húsmæður. Þessar konur eiga þar af leiðandi engin lífeyrissjóðsréttindi. Hér erum við að tala um einstaklinga sem þurfa að velja á milli þess að kaupa sér mat eða lífsnauðsynleg lyf.

Mesta kjaraskerðing aldraðra frá hruni er tilkomin vegna kjaragliðnunar, þegar lífeyrir hækkar minna en launaþróun. Flokkur fólksins berst með oddi og egg gegn þessari vaxandi kjaragliðnun og hefur formaður flokksins ítrekað lagt fram frumvarp um að árleg uppfærsla almannatrygginga skuli fylgja launavísitölu. Það er skylda okkar að tryggja að enginn þurfi að líða skort og búa við kjör langt undir lágmarkslaunum. Við getum ekki undir neinum kringumstæðum sætt okkur við að ömmur okkar og mæður neyðist til að draga fram lífið á mánaðarlegum tekjum undir 300.000 kr. eftir skatt.

Hið sorglega er að núverandi ríkisstjórn virðist ætla að standa vörð um áframhaldandi launamun. En Flokkur fólksins mun aldrei hvika frá baráttu sinni fyrir réttlæti og mannsæmandi lífskjörum fyrir aldraða og öryrkja. Með Flokk fólksins í ríkisstjórn yrði loksins hægt að tryggja að enginn þurfi að lifa undir fátæktarmörkum og að allir njóti virðingar í okkar samfélagi og finni fyrir réttlæti í samskiptum við stjórnvöld.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins.