Fjölhæfur Sverrir er bæði skáld og tónlistarmaður.
Fjölhæfur Sverrir er bæði skáld og tónlistarmaður.
Sverrir Norland er heldur súr á svip framan á umslagi nýútkominnar 15 laga breiðskífu sinnar, og skal engan undra því hún ber titilinn Mér líður best illa.

Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is

Sverrir Norland er heldur súr á svip framan á umslagi nýútkominnar 15 laga breiðskífu sinnar, og skal engan undra því hún ber titilinn Mér líður best illa . Sverrir er málaður í framan, eða öllu heldur útkrotaður, líkt og leikskólabarn hafi fengið að nota andlitið sem striga. Rímar það vel við kaldhæðnislegan titilinn, nú eða einlægan, dæmi hver fyrir sig.

Það er spaugsamur og nokkuð kaldhæðinn tónn á plötunni á heildina litið, eða þannig upplifði ofanritaður hana við fyrstu hlustun. Sverrir er spurður hvernig standi á því og hann hlær við og segist svo sem ekki geta úskýrt það. „Mér finnst kímnigáfa vera vísbending um innra líf og frjóa vitsmuni – þetta kemur samt út eins og sjálfshól. En ég treysti ekki listamönnum – eða mannanna verkum almennt – ef þau eru laus við allan húmor. Kaldhæðnin er svo auðvitað varnarmekanismi viðkvæmra sálna í þessu skrítna og oft svolítið vélræna nútímasamfélagi okkar. Einn rithöfundur sem ég held upp á sagði: „Lykillinn að velgengni í samfélagi nútímans er hár þröskuldur fyrir leiðindum.“ Það er alveg rétt. En ég þarf líka húmor. Lífsgleði og fjör. Áminningu um að við erum öll svolítið hlægileg – og þar með vonandi sympatísk líka,“ segir hann.

„Lagatextar sem kunna svo að orka á hlustendur sem spaug eða kaldhæðni eru samt oftast settir fram í fúlustu alvöru hjá mér. Í „Forðast leiðinlegt fólk“ er til dæmis ýjað að því að lykillinn að lífshamingjunni felist í heiti lagsins. Það er auðvitað spaugilegt – en er það ekki líka satt? Í „Fallegustu kynslóðinni“ segir meðal annars: „Fallegustu ástarjátningarnar hafa ekki enn verið færðar í orð / Fallegustu geimfararnir hafa ekki enn stigið um borð.“ Hugmyndin er að stærstu sigrar mannkyns séu enn fram undan og besta fólkið ófætt. Mér finnst það hressandi mótvægi við heimsendaspárnar og bölsýnina sem gagnsýrir allt og „unga fólkið er ómögulegt“-síbyljuna. Í „Þú verður að ljúga“ segir svo: „Þú verður að ljúga ef þú vilt fá vinnu níu til fimm.“ Það hljómar eins og ýkjur eða grín ... en er ekki stór sannleikur í þessu? Kaldhæðnin og spaugið er oft bara leið til að klæða sannleikann í búning sem fólk getur meðtekið með bros á vör og samþykkt.“

Einhvers konar útrás

Við lifum fyrir fegurðina jafnvel þótt hún tortími okkur“ er líka sungið og það er mikið um ádeilu í textunum, ertu að losa um eitthvað innra með þér og fá útrás í textasmíðinni?

„Sko, ég set helst aldrei neitt á blað nema ég hafi eitthvað að segja, annars fer ég bara frekar í sund eða bíó. Og þar sem ég er sískrifandi virðist ég hafa eitt og annað að segja, þess vegna er maður nú að þessu á annað borð. Þetta er því einhvers konar útrás en líka réttlætiskennd og sömuleiðis bara samkennd með öðru fólki og lífinu almennt. Listamenn lifa – og eiga að lifa – fyrir fegurðina en strúktúrinn í samfélaginu umbunar okkur oft frekar fyrir að tortíma fegurðinni og vera eigingjörn og sjálfhverf og þröngsýn og hugmyndasnauð. Því miður. Og svo er það líka hitt, að sá sem helgar líf sitt fegurðinni – t.d. listsköpun – fer oft halloka í samfélagi sem hefur allt aðrar áherslur.“

Þú ert sennilega að stuða hlustandann með því að hafa textann úr takti við tónlistina, of langar setningar þannig að þú þarft að flýta þér í söngnum, syngja of hratt í raun eða hvernig myndir þú lýsa því eða útskýra?

„Ég hef alltaf séð orð í litum og því eru bækur og lög ekki aðeins textar með hugmyndum og laglínur með rími heldur jafnframt eins konar málverk. Þess vegna brýt ég stundum upp rytmann til að laða fram litina sem mér finnst vanta. Svo þreytist ég líka hratt á einhæfni og fyrirsjáanleika í bæði tónlist og ljóðlist; uppbrotið gerir hlutina áhugaverðari. Ég nota oft stuðla og höfuðstafi en í seinni tíð er ég líka óhræddur við að sleppa þeim og láta hugmyndirnar eða „litina“ frekar ráða för. Best er svo þegar lag og texti kemur í einni bunu, á fimm eða tíu mínútum. Þá breyti ég oft engu. En þetta með rytmaflöktið er ekki endilega meðvitað, bara einhver tilfinning. Auga listamannsins er oft aðeins á „skjön“ við það sem gengur og gerist. Og í listaverki verður að vera eitthvað smá að, einhver galli. Annars er bara um hreina afþreyingu að ræða eða eitthvert kits, óinnblásið skraut,“ svarar Sverrir.

Engill og djöfull

Nú veit ég að þú ert skemmtilegur og hugmyndaríkur maður. Ertu að sýna á þér hlið sem fólk kannast ekki við, einhvern púka kannski?

Sverrir hlær að spurningunni og segir svo: „Við geymum öll innra með okkur bæði engil og djöful. Þeir sem ekki þora að gangast við því verða aldrei áhugaverðir listamenn. Þetta er reyndar svolítið vandmeðfarið í dag þar sem krafan virðist vera sú að listamenn séu flekklausar fyrirmyndarmanneskjur, helst grænkerar sem stunda hollan lífsstíl og eru í föstu sambandi með æskuástinni, eigi börn og vel taminn hund og hafi réttar skoðanir á öllum málefnum og eiginlega bara snurðulausa persónulega ferilskrá. Hálfgerðir akademíkerar sem drekka gerjað te frekar en rauðvín og ritskoða hverja hugsun sína af ótta við útskúfun eða slaufun. En ekkert okkar er svona óflekkað og lastalaust í raun og veru, sama hvernig við reynum að fela það. Áhugaverðustu listaverkin verða til þegar við hættum okkur út í óvissuna og þorum að varpa ljósi á eitthvað innra með okkur sem við vildum helst fela fyrir umheiminum. Held ég!“

Plötukóverið er í takt við innihaldið, þú heldur súr á svip með andlitið útkrotað, líklega eftir barn. Hverju varstu að sækjast eftir með þessu skondna kóveri og fékkstu einhvern með þér í að hanna það?

„Myndin er smíði Rebeccu Genet, franskrar vinkonu minnar, sem er atvinnuljósmyndari og alveg frábær. Alma dóttir mín teiknaði í andlitið á mér og Rebecca tók myndina. Mér finnst andstæðurnar skemmtilegar. Litríkur í framan og dapur á svip. Mér líður best illa!“

Það er rétt að taka fram að platan er ekki öll á gamansömum nótum, það eru líka angurværari lög og þú ert með gott fólk með þér, m.a. Halldór Gunnar „Fjallabróður“ sem pródúserar titillagið.

„Já, lagið „Mér líður best illa“ fannst mér koma ótrúlega vel út, Halldór Gunnar er algjör snillingur í að draga fram það besta í svona popptónlist. Spilararnir sem eru með mér eru svo allir alveg frábærir og góðir vinir: Helgi Egilsson spila á bassa og syngur æðislegar bakraddir; Ragnar Jón Ragnarson, eða Humi, spilar af alþekktri hugmyndagleði á hljómborð og synta; Óskar Þormarsson lemur trommurnar af fagmennsku og svo er Birkir Blær Ingólfsson á saxófón, ótrúlega lagvís. Loks syngur Agnes Björgvinsdóttir bakraddir í nokkrum lögum. Upptökustjórn var í höndum Ólafs Daðasonar en Jón Skuggi hljóðblandaði plötuna. Ég er rosa þakklátur þeim öllum fyrir að standa í þessu með mér.“

Byrjaði í Gítarskóla Ólafs Gauks

Þú virðist nokkuð lipur gítarleikari, ertu sjálflærður eða lærðirðu á gítar?

„Það er einhvers konar blanda. Ég byrjaði að spila 11 eða 12 ára, fór á námskeið í Gítarskóla Ólafs Gauks, síðar í Gítarskóla Íslands og ég var líka einn vetur í einkatímum hjá Pétri Jónassyni gítarleikara. Það var ágætis undirbúningur fyrir FÍH, þar sem ég var kominn á 6. stig í djassgítarleik þegar ég hætti. Svo að ég er vissulega með töluverða menntun. Minn styrkur er samt frekar að búa til og semja en að flytja t.d. verk eftir aðra. Sumir eru fyrst og fremst hljóðfæraleikarar en ég nota gítarinn bara eins og tól til að ná fram því sem ég heyri fyrir mér og veit oft varla hvað hljómarnir heita. Ef ég reyni að læra lag eftir annan höfund brestur mig fljótlega þolinmæði – ég enda á að semja frekar mitt eigið lag. Ég er þjófur.“

Þú hefur stundað ólíkar listgreinar, þ.e. tónlist og textasmíð, skrif skáldsagna og hugleiðinga og ert líka útgefandi, starfar við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi og svo ertu nú síðast orðinn sérfræðingur í samskiptum hjá Arion banka, sem er virðulegt starfsheiti. Hvað felur það í sér, að vera sérfræðingur í samskiptum, og hvernig vinna þessi ólíku störf saman?

„Öll þessi störf snúast á einn eða annan hátt um að miðla hugmyndum eða einhvers konar boðskap, mínum eigin eða annarra. Og þau snúast um að hafa áhuga á umheiminum, ekki síst öðru fólki – og vera skapandi, búa til, skrifa, semja. Arion er frábær vinnustaður, mér finnst mjög skemmtilegt að kynnast þeim heimi og fólkinu þar. Það tæki mig of langan tíma að útskýra nákvæmlega í hverju starfið felst – en það er nóg að gera.“

Sverrir er að lokum spurður hvað sé fram undan hjá honum og svarar hann því til að hann og fjölskyldan verði í Frakklandi í júlímánuði, sem sé kærkomið. „Svo er ég með nokkrar bækur í vinnslu – og kannski bara nýja plötu líka. Sjáum hvað gerist.“