Nöfn „Áhugamenn um nafnfræði fá allir eitthvað bitastætt að maula og melta,“ skrifar rýnir um Nöfn á nýrri öld.
Nöfn „Áhugamenn um nafnfræði fá allir eitthvað bitastætt að maula og melta,“ skrifar rýnir um Nöfn á nýrri öld. — Morgunblaðið/Eggert
Þessi bók er beinlínis um allt sem nöfnum tjáir að nefna og er skipt í fimm kafla. Nokkrar greinar eru í hverjum bókarhluta og eru einkar fjölbreyttar að efni og efnistökum.

Nöfn á nýrri öld. 20 greinar í tilefni 20 ára afmælis Nafnfræðifélagsins – 3½ stjarna
Ritstjórar: Emily Lethbrigde, Rósa Þorsteinsdóttir
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2023. Mjúk spjöld, 293 bls., ítarlegar skrár.

Þessi bók er beinlínis um allt sem nöfnum tjáir að nefna og er skipt í fimm kafla, I. Nöfn á fornum tíma og í heimildum; II. Nöfn, söfnun, skráning og stjórnsýsla; III. Samspil nafna og landslags; IV. Fiskar, fuglar og önnur dýr; V. Nöfn og þjóðmenning. Nokkrar greinar eru í hverjum bókarhluta og eru einkar fjölbreyttar að efni og efnistökum, flestar fylgja þær eftir fyrirlestrum á vegum félagsins. Tilvísanir eru í lok hverrar greinar, en í bókarlok eru skrár um heimildir og nöfn og allra síðast eru taldir í tímaröð fyrirlestrar á vegum Nafnfræðifélagsins 2000-20 og er þar víða drepið niður fæti. Bókin er skreytt bæði með teikningum, kortum og ljósmyndum, og margar töflur eru lesendum til glöggvunar.

Nöfn eru mikilvægur hluti orðaforðans, nátengd sögu og menningu á alla lund, beinlínis sundurgreinandi í ,upplýsingaóreiðu´ samtíma, jafnvel hluti af straumi tískunnar eins og glögglega birtist í tíðni mannanafna hverju sinni og meira að segja í nöfnum hljómsveita (228 o.áfr.). Örnefni eru á sínum stað, en eru þó sumpart undir sömu sök seld. Á ræktunaröld og véla- gátu bæir ekki verið kot og þau voru víða betrumskírð; Vælugerði varð Þingdalur (76) og rýnir getur nefnt úr sínum sveitum að Hólkot reis upp sem Birkihlíð og Úlfsstaðakot skín nú sem Sunnuhvoll. Hreppar eiga undir högg að sækja, fá sameinuð sveitarfélög heita -hreppur; minnimáttarkenndin lætur ekki að sér hæða, en í raun er það smásálarháttur að vilja fremur búa í -bæ eða -byggð o.s.frv. en í hreppi sem var grundvallareining í stjórnsýslu landsins. Örnefnanefnd var stofnuð með lögum 1935 sem síðar hefur verið breytt, en stjórnsýsla hennar virðist hafa verið hófsamleg, sanngjörn og rökrétt. Meiri ófriður hefur ríkt um niðurstöður mannanafnanefndar, en hún er ekki til umræðu hér. Merkilegt má virðast að óvissa ríki um staðsetningu sögulegra örnefna t.d. á Þingvöllum og í Skálholti (12). Skiljanlegra er að nöfn á smábýlum og hjáleigum hafi glatast eða afbakast (135). Ótal örnefni hafa vafalaust týnst í aldanna rás, en einhver ný komið í staðinn, t.d. með breyttum búskaparháttum, sum færst til. Fróðleg grein er um örnefni á Barðaströnd þar sem lesandi skynjar altæka aðkomu fyrri tíðar manna að umhverfi sínu á sjó og landi, ef svo má segja. Örnefni hólfa niður landið, bóndi þurfti að segja smalanum hvert fara skyldi með ærnar o.s.frv. Mörg örnefni á Barðaströnd tengjast staðháttum, landsnytjum og -kostum, bjargræðisvegum, veðri, landamerkjum, ferðalögum o.s.frv., en líka vættum, nafngreindum persónum o.fl. Allt er þetta líklega framandi skrifborðsmönnum nútímans sem eiga bíl í geymslu eða hjóla heim á malbiki.

Menn þurftu að skilja milli jarða sinna og afrétta. Stundum eru landamerki náttúruleg, t.d. við ár eða læki. En oft var miðað við línu dregna „í sjónhending“ milli t.d. hóla, varða eða steina og þá var heppilegt að steinarnir væru sérstakir – og jarðfastir! Hér er vakin athygli á klofasteinum á mörkum jarða í tilgreindum sveitarfélögum sem eru býsna margir og þeirri hugmynd fleytt að stórjarðeigendur hafi m.a. valið slíka steina þegar þeir skiptu löndum sínum (31). Fasteign, bundin auðþekkjanlegum klofasteinum!

Öll staðanöfn í 40 íslendingasögum hafa verið staðsett og tengd aðgengilegri kortasjá og þar sem annars staðar opnast gluggar með tölvuvæðingunni, mörg ný sjónarhorn í hraðsýn. Tæplega 2.000 einstök örnefni eru í sögunum (34) og í töflum og gröfum er varpað ljósi á notkun þeirra í fornum textum; skoðun þeirra vekur spurningar sem fræðimenn geta velt fyrir sér í sumbli með öllum hinum! Hér er líka minnst á stórmerkilegt og metnaðarfullt samstarf Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi og Landmælinga Íslands um flutning örnefna í kortagrunn; það verkefni mun beinlínis birta nýja ásýnd landsins ef svo má taka til orða; elsta örnefnaskráin hjá stofnuninni er frá 1910 (72). Í ágúst 2023 höfðu ríflega 173 þús. örnefni þannig verið staðsett (74). Þetta er fagnaðarefni!

Hér er fróðleg grein um Vali og Valland í fornmáli; völsk sverð koma víða við sögu og vísa einkum til Frakklands þótt afmörkun þess hafi verið óljós í hugum manna. Allmargar jarðir heita Uppsalir og vekur athygli að engin þeirra er nefnd í Landnámabók (124). Ýmis örnefni hafa breyst eða brenglast, jafnvel eru notuð mismunandi nöfn eftir því hvaðan er horft. Ein grein í þessum dúr fjallar um Grens- eða Græn(s/a)dal við Hveragerði og hefur tófan vinninginn.

Hér hefur verið tæpt á ýmsu, en þá eru ótaldar greinar um nöfn jólasveina, goða og trölla, mið á Faxaflóa sem nú eru orðin að „hnitum“, nafngiftir á gróðurreitum hjá Hvanneyri. Loks er að nefna fræðilega greinargerð um nokkur mannanöfn með tilvísun til fornra mála, nöfn á fuglum og sjávarkykvendum o.fl.

Skráin um fyrirlestra á vegum Nafnfræðifélagsins er ótrúlega fjölbreytt. Athygli vekur þó að einungis einn fyrirlestur tengist beint nafnfræði Þórhalls Vilmundarsonar, en náttúrunafnakenning hans var og er umdeild, en afskaplega vekjandi til íhugunar og endurskoðunar á ríkjandi viðhorfum. Ráðgjöf hans um götuheiti í Grafarvogi, Ártúnsholti o.v. er til fyrirmyndar og mættu ýmis sveitarfélög leita í smiðju nafnfróðra manna þegar götum eru gefin heiti.

Bókin er vel úr garði gerð, meginmál prentað í tveimur dálkum, litasíður greina milli kafla og fyrirsagnir eru skuggaprentaðar. Prófarkalestur er vandaður. Áhugamenn um nafnfræði fá allir eitthvað bitastætt að maula og melta, eftir sínu höfði hver, það er kostur safnrita.