Vonbrigði Zlatko Dalic þjálfari Króata og Luka Modric daufir í dálkinn eftir niðurstöðu leiksins gegn Ítölum. Þeir eru líklega á heimleið.
Vonbrigði Zlatko Dalic þjálfari Króata og Luka Modric daufir í dálkinn eftir niðurstöðu leiksins gegn Ítölum. Þeir eru líklega á heimleið. — AFP/Odd Andersen
Mark frá Mattia Zaccagni á síðustu sekúndum uppbótartíma tryggði Ítölum jafntefli gegn Króötum í Leipzig í Þýskalandi í gærkvöld, 1:1, og sæti í sextán liða úrslitum Evrópumóts karla í fótbolta.

Knattspyrna
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Mark frá Mattia Zaccagni á síðustu sekúndum uppbótartíma tryggði Ítölum jafntefli gegn Króötum í Leipzig í Þýskalandi í gærkvöld, 1:1, og sæti í sextán liða úrslitum Evrópumóts karla í fótbolta.

Luka Modric hafði komið Króötum yfir, 1:0, á 55. mínútu, rétt eftir að Gianluigi Donnarumma í marki Ítala varði frá honum vítaspyrnu. Allt stefndi í króatískan sigur, sem hefði fleytt liðinu beint í sextán liða úrslitin.

Nú standa Króatar hins vegar höllum fæti. Þeir enda með tvö stig í þriðja sæti og markatöluna 3:6. Frekar ólíklegt er að það dugi þeim til að verða eitt af fjórum liðum í þriðja sæti til að komast í 16-liða úrslit, en ekki útilokað. Þeir þurfa að treysta á að annaðhvort Danir eða Slóvenar tapi illa í kvöld og að Tékkar og Georgíumenn nái ekki í stig í lokaumferð F-riðils annað kvöld.

Luka Modric gæti því hæglega hafa spilað sinn síðasta leik á stórmóti í gærkvöld.

Gott fyrir Ungverja

Þessi niðurstaða er hins vegar vatn á myllu Ungverja sem enduðu í þriðja sæti A-riðils með þrjú stig og eru nú fyrir ofan Króata í röðinni um að komast áfram. Þessi tvö lið þurfa að bíða þess að hinum fjórum riðlunum ljúki í dag og á morgun.

Ítalir fengu fjögur stig í öðru sæti B-riðils og það þýðir að í 16-liða úrslitum mæta þeir Svisslendingum sem enduðu í öðru sæti A-riðils.

Spánverjar sigruðu Albani 1:0 og unnu riðilinn með 9 stig. Þeir mæta einhverju liði sem endar í þriðja sæti í sínum riðli.

Albanir fengu eitt stig og eru á heimleið en þeir hefðu farið áfram með sigri á Spánverjum og átt möguleika með jafntefli.

Ferran Torres skoraði sigurmark Spánverja gegn Albönum, 1:0, á 13. mínútu. Litlu munaði að Armando Broja næði að jafna í uppbótartímanum.

Línur skýrast í dag og kvöld

Línurnar munu skýrast allverulega í dag og kvöld þegar lokaumferðirnar fara fram í C- og D-riðlum.

Holland, Austurríki og Frakkland berjast um sigurinn í D-riðli en miklar líkur eru á að öll þrjú liðin fari áfram. Holland mætir Austurríki og Frakkar mæta Pólverjum og báðir leikirnir hefjast klukkan 16. Frakkland og Holland eru með 4 stig, Austurríki er með 3 stig en Pólverjar eru stigalausir og þegar úr leik.

Í afar tvísýnum C-riðlinum leikur England við Slóveníu og Danmörk við Serbíu en leikirnir hefjast klukkan 19. England er með 4 stig, Slóvenía 2 stig, Danmörk 2 og Serbía eitt. Sigurliðin í leikjunum fara áfram en talsverðar líkur eru á að þrjú þeirra komist í 16-liða úrslitin.